Skólanámskrá

  • Inngangur
  • Skólinn - sagan
  • Skólastefna Heiðarskóla
  • Grunnþættir og markmið menntunar
  • Námsmat og vitnisburðarkerfi
  • Mat á skólastarfi
  • Samstarf og tengsl við nærsamfélagið
  • Skólareglur
  • Lestrarstefna
  • Móttökuáætlanir
  • Uppbyggingarstefnan
  • Samskipta og eineltisáætlun
  • Jafnrétti og mannréttindi
  • Umhverfisstefna
  • Áfallaáætlun
  • Viðbrögð vegna hættuástands
  • Öryggis- og slysavarnir
  • Áfengis- og fíknivarnir
  • Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi
  • Starfsmannastefna

Inngangur

Í skólanámskrá er gerð grein fyrir útfærslu skólans á Aðalnámskrá grunnskóla og Menntastefnu Reykjanesbæjar en jafnframt gefur hún kost á að laga fyrirmæli aðalnámskrár og menntastefnu að sérstöðu hvers skóla og staðbundnum aðstæðum. Í skólanámskrá Heiðarskóla koma fram þau viðhorf sem einkenna eiga starfið í skólanum.

Skólastarf Heiðarskóla er ávallt í stöðugri þróun í takt við breytingar í samfélaginu og viðmið um farsæla skólaþróun. Markmiðið er alltaf að hafa árangur nemenda að leiðarljósi, heilbrigði þeirra og að þeim líði vel. 

Í anda menntastefnu Reykjanesbæjar leggur starfsfólk Heiðarskóla sig fram um að skapa öllum nemendum öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þeir hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta. Leiðarljósin eru: Börnin mikilvægust, kraftur fjölbreytileikans og faglegt menntasamfélag. Stefnuáherslurnar eru: Mér líður vel, sköpunargleði, allir með, opnum hugann og við og jörðin.

Fimm megin áherslur stefnunnar eiga að ná yfir þá eiginleika og hæfni sem við viljum þroska og efla hjá börnum og ungmennum í leik og starfi. Þeim er ætlað að stuðla að því að börnunum okkar líði vel og þau njóti gæða menntunar til að takast á við áskoranir í nútíð og framtíð.

Nálgast má Menntastefnu Reykjanesbæjar á slóðinni: https://www.reykjanesbaer.is/is/stjornsysla/stefnumotun/stefnur-og-samthykktir/menntastefna-reykjanesbaejar-2021-2030

Skólinn - sagan

Þann 21. júlí 1997 var fyrsta skóflustungan tekin að Heiðarskóla.  Hann var byggður sem tveggja hliðstæðna heildstæður grunnskóli, þ. e. tvær bekkjardeildir í árgangi frá 1. – 10. bekk. Hann er jafnframt fyrsti skólinn á Íslandi sem byggður er í einum áfanga með íþróttahúsi og sundlaug. Skólinn tók síðan til starfa haustið 1999 og haustið 2000 voru nemendur orðnir 463.  Nemendafjöldinn hefur verið breytilegur, árið 2008 voru 490 nemendur í skólanum og haustið 2023 voru nemendur um 420.

Heiðarskóli veitir starfsmönnum sínum góða starfsaðstöðu og gott vinnuumhverfi og lögð er áhersla á að starfsmenn fái tækifæri til starfsþróunar og endurmenntunar.

Í Heiðarskóla er lögð áhersla á metnaðarfullt skólastarf og þar starfar samhentur hópur áhugasamra starfsmanna með góða faglega þekkingu.

Starfsmennirnir ígrunda störf sín og leita sífellt leiða til frekari umbóta og stefna að því sameiginlega markmiði að nemendum líði vel í skólanum, bæti hæfni sína og útskrifist sem góðar manneskjur.

Stjórnun Heiðarskóla frá upphafi

Ár                                      Skólastjóri                                    Aðstoðarskólastjóri

1999-2001                       Árný Inga Pálsdóttir                         Gunnar Þór Jónsson

2001-2003                       Gunnar Þór Jónsson                         Björn Víkingur Skúlason

2003—apríl 2013              Gunnar Þór Jónsson                         Sóley Halla Þórhallsdóttir

Apríl 2013 - 2016             Sóley Halla Þórhallsdóttir                 Haraldur Axel Einarsson

Apríl 2016 - 2019             Haraldur Axel Einarsson                   Bryndís Jóna Magnúsdóttir

Apríl 2019 - 2020             Bryndís Jóna Magnúsdóttir               María Óladóttir

2020 -                             Bryndís Jóna Magnúsdóttir               Lóa Björg Gestsdóttir

Merki skólans

Árið 2001 var haldin samkeppni um merki skólans. Valin var tillaga Aðalsteins Axelssonar sem var þá nemandi í 5. bekk Heiðarskóla. Merkið er H með þremur þríhyrningum, gulum, rauðum og bláum en þeir tákna turnana þrjá í skólahúsinu.

Skólahúsnæðið

Í stuttu máli er skólinn þannig byggður að eftir honum endilöngum er breiður og bjartur gangur, stundum kallaður „menntavegurinn”. Sunnan megin við ganginn eru verk- og tónmenntastofur, auk raungreinastofu.  Norðan megin við ganginn eru þrjú kennslustofuhús á tveimur hæðum, alls 6 almennar kennslustofur í hverju húsi.  Kennslustofuhúsin eru auðkennd með litum, gult (yngsta stig), rautt (miðstig) og blátt (unglingastig). Hægt er að opna á milli tveggja stofa á hverri hæð.  Í miðrými skólans er samkomusalur/matsalur á neðri hæð, en skrifstofur stjórnenda, bókasafn, tölvuver og aðstaða námsráðgjafa og sálfræðings á efri hæðinni.  Út frá miðrýminu í norðurátt er aðstaða til íþróttaiðkunar, sundlaug og íþróttasalur.

 Skólalóð

Skólalóðin er vel skipulögð og leiksvæði yngri barna er staðsett fyrir framan skólann í suðvesturhorni lóðarinnar sem er næst heimasvæði þeirra. Þar hefur verið komið fyrir ýmsum leiktækjum og litlum sparkvelli. Þessi hluti lóðarinnar er afgirtur með timburgirðingu og trjágróðurbeltum. Leiksvæði eldri barna er staðsett á rúmgóðu svæði norðan við skólann. Vestan megin er malbikaður völlur sem nýtist til boltaleikja. Austan megin, næst inngangi elstu nemenda, er körfuboltavöllur með plöstuðu götuðu undirlagi ásamt fótboltavelli með gervigrasi og snjóbræðslu.

Skólasöngur 

Á tíu ára starfsafmæli skólans árið 2009 var efnt til samkeppni um skólasöng. Fjölmargar tillögur bárust og var tillaga Bryndísar Jónu Magnúsdóttur þáverandi kennara við skólann hlutskörpust. Bryndís gerði einnig lag við sönginn.

 

Skólinn á heiðinni

Árla morguns allt er hljótt, svo kvikna ljósin furðu fljótt,
í skólann skundum stundum þreytt en sæl og glöð þó yfirleitt.
Að lesa, skrifa, lita, læra og ótal margt sem þarf að ræða,
að beita hamri, sleif og nál, á heiðinni er ekkert mál.

Viðlag:
Í Heiðarskóla störfum við, stöndum saman hlið við hlið,
háttvís, heilbrigð, kát og klár, svo margt sem að við ... kunnum upp á hár.

Vinir vappa á göngunum og viðra sig í hléunum,
í tímum hér og tímum þar, virkir krakkar alls staðar.
Að spretta úr spori í íþróttum, að æfa okkur í sundtökum,
að læra tvö, þrjú tungumál, á heiðinni er ekkert mál.

Viðlag:
Í Heiðarskóla störfum við, stöndum saman hlið við hlið,
háttvís, heilbrigð, kát og klár, svo margt sem að við ... kunnum upp á hár.

Að loknum skóladeginum, á bökin skellum töskunum,
spjöllum saman, hlæjum dátt og dyrnar opnast uppá gátt.
Að læra heima, leika okkur, að hafa gaman, skemmta okkur,
að njóta stundar, næra sál, á heiðinni er ekkert mál.

Viðlag:
Í Heiðarskóla störfum við, stöndum saman hlið við hlið,
háttvís, heilbrigð, kát og klár, svo margt sem að við ... kunnum upp á hár.

 

Skrifstofa skólans

Skrifstofa skólans er opin alla virka daga frá kl. 07.30 – 15.30

Skrifstofustjóri er Ruth Kristjánsdóttir

Símanúmer skólans er 420 4500

Netfang: heidarskoli@heidarskoli.is

www.heidarskoli.is

www.facebook.com/heidarskolireykjanesbae/

                                                                 

Skólastefna Heiðarskóla

Í Heiðarskóla er unnið eftir aðalnámskrá grunnskóla og menntastefnu Reykjanesbæjar. Þar er lögð áhersla á metnaðarfullt skólastarf og að traust og virðing ríki meðal fólks. Góð samvinna starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra samstarfsaðila skólans er mikilvæg. Starfsmenn skólans ígrunda störf sín og leita sífellt leiða til frekari umbóta og stefna að því sameiginlega markmiði að bæta árangur nemenda á öllum sviðum.

Einkunnarorð skólans eru: Hugvit, heilbrigði og háttvísi. Sérstakir einkunnarorðadagar eru skipulagðir árlega og tilgreindir í skóladagatali. Heilbrigðisdagar eru í byrjun október, háttvísisdagurinn er í sömu viku og baráttudagur gegn einelti í nóvember og hugvitsdagurinn í apríl.

Leiðarljós

Í anda menntastefnu Reykjanesbæjar leggur starfsfólk Heiðarskóla sig fram um að skapa öllum nemendum öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þeir hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta. Leiðarljósin eru: Börnin mikilvægust, kraftur fjölbreytileikans og faglegt menntasamfélag. Stefnuáherslurnar eru: Mér líður vel, sköpunargleði, allir með, opnum hugann og við og jörðin.

Börnin mikilvægust 

Í Heiðarskóla er leitast við að skapa nemendum umhverfi sem einkennist af trausti og virðingu svo þeir geti tekið virkan þátt í skólastarfinu, geti verið þeir sjálfir og tjáð sig um málefni sem hafa áhrif á nám þeirra og líðan. Þeir skulu fá tækifæri til að vaxa og þroskast í öruggu umhverfi þar sem þeir fá stuðning og leiðsögn við að uppgötva styrkleika sína, tækifæri til að efla sjálfsmynd og ýmsa færni, öðlast jákvæða sýn á sig sjálfa og lífið og viðhafa heilbrigðan lífsstíl. Einnig að þekkja réttindi sín og virða réttindi annarra, ólíka menningu og fjölbreytileika.

Kraftur fjölbreytileikans

Í Heiðarskóla er áhersla lögð á að allir upplifi að þeir tilheyri, að virðing sé borin fyrir ólíkum skoðunum, menningu og fjölbreytileika. Leitast er við að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og veita þeim fjölbreytt tækifæri í námi og samskiptum svo að þeir læri að þekkja styrkleika sína og áhugasvið. Einnig að þeir komi auga á þá þætti sem þeir þurfa stuðning við að efla.

Faglegt menntasamfélag

Í Heiðarskóla starfar metnaðarfullt starfsfólk sem leggur sig fram við að búa nemendum jákvætt, hvetjandi og styðjandi námsumhverfi. Það vinnur saman, styður hvert annað og leitar leiða og lausna  til að þróa og efla starfið með hag nemenda að leiðarljósi. Kennsluhættir í almennri kennslu og í stoðþjónustu eru í stöðugri þróun og starfsþróunaráætlanir vel ígrundaðar og útfærðar. Markmiðið er ávallt að efla fagmennsku og auka gæði skólastarfsins til að auka árangur og ánægju nemenda og starfsfólks.

Stefnuáherslur

Í Heiðarskóla eru nemendur settir í öndvegi og kappkostað að þeim líði vel, séu lífsglaðir, fróðleiksfúsir og að hæfileikar og færni hvers og eins fái notið sín. Þrír meginþættir í skólastefnu Heiðarskóla eru þessir:

Markvisst er unnið að þessum áhersluþáttum og er þeim hér á eftir gerð skil. Tengjast þeir allir stefnuáherslum Menntastefnu Reykjanesbæjar sem eru:

  • Mér líður vel
  • Sköpunargleði
  • Allir með
  • Opnum hugann
  • Við og jörðin

 

Í bekkjarnámskránum kemur einnig fram hvernig kennarar vinna með nemendum til að styrkja áhersluþættina í skólastarfinu og eru þær aðgengilegar á vefsíðu skólans.

Fjölbreyttir náms- og kennsluhættir:

Fjölbreytt námsframboð og valgreinar

Í Heiðarskóla er lögð áhersla á að bjóða nemendum upp á fjölbreytt tækifæri til náms. Fjölbreytni má sjá í almennum náms- kennsluháttum þar sem fengist er við skapandi viðfangsefni og stuðst við tækni í bland við hefðbundnari leiðir. Nemendur á unglingastigi geta valið fjölbreyttar valgreinar og leitast er við að auka hvers kyns val í námi nemenda á öllum aldursstigum, m.a. val um viðfangsefni og val um framsetningu verkefna. Nemendur vinna sjálfstætt og í samstarfi við aðra, ýmist innan bekkja eða þvert á árganga. Dæmi um slíkt samstarf má sjá í fjölgreinasmiðjum á yngsta stigi og þematengdu samstarfi í samfélagsfræði á miðstigi. Gjarnan kemur til samstarfs þvert á árganga á einkunnarorða- og þemadögum.

List- og verkgreinar

Nemendur spreyta sig í fjölbreyttum list- og verkgreinum. Þeir hafa smíði og hönnun, textílmennt, heimilisfræði, myndlist, tónmennt, sviðslist og dans sem fastar kennslustundir í stundatöflum á yngsta og miðstigi og sem valgreinar á unglingastigi. Nemendur á miðstigi fást auk þess við verkefni á sviði nýsköpunar og hafa þá möguleika á að taka þátt í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Nemendur á yngsta stigi hafa einnig tíma í stundatöflum sem heita Tækni og sköpun og eru slík verkefni ýmist unnin vikulega eða í lotum.

Árleg leikrit nemenda í leiklistarvali setja svip sinn á skólabraginn. Mikill metnaður er lagður í sviðsframkomu og mála nemendur í veggskreytingavali sviðsmynd á vegginn á sviði salarins. Nemendur fá einnig tækifæri til að koma verkum sínum á framfæri með ýmsum hætti, s.s. myndlist, hljóðfæraleik, dans eða söng.

Tækni og sköpun

Í Heiðarskóla leitast við að efla stafræna færni nemenda og þjálfun í tækninotkun fer fram á öllum aldursstigum. Allir nemendur á unglingastigi hafa spjaldtölvu til umráða. Allflestar námsáætlanir eru settar upp í spjaldtölvum þeirra sem auðveldar nemendum utanumhald og skipulag í námi. Þær auðvelda aðgengi að upplýsingum og stuðningsgögnum og veita möguleika á fjölbreyttari framsetningu á verkefnum. Þær gagnast einnig nemendum með námsörðugleika, m.a. á þann hátt að þeir geta stækkað letur, hlustað á lesinn texta, talað inn texta, sett hugmyndir sínar fram myndrænt o.s.frv. Bekkjarsett með spjaldtölvum eru í mikilli notkun á yngsta- og miðstigi. Nemendur á yngsta stigi kynnast grunnhugsun í forritun í smiðjum, nemendur í 5. og 6. bekk sækja kennslustundir í forritun og á unglingastigi er boðið upp á valgreinar í forritun og annarri tæknivinnslu, s.s. þrívíddarhönnun   

Námsúrræði og stuðningur

Nemendum standa til boða ýmis námsúrræði og námsstuðningur. Þau geta miðað að því að veita þeim aukinn stuðning í námi með aðkomu stuðningsfulltrúa, sérkennara, þroskaþjálfa og kennara í námsverum, ýmist í lotuþjálfun eða til lengri tíma. Námsúrræði byggja á styrkleikum og áhugasviðum nemenda og fara oftast fram innan skólans en einnig utan hans í samstarfi við fyrirtæki vegna starfstengds náms eða íþróttadeildir og félagsmiðstöð. Nemendur sem sækjast eftir auknum áskorunum í námi er m.a. mætt með einstaklingsmiðuðum námsáætlunum innan skólans en einnig með samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Litið er á fjölbreytni í náms- og kennsluháttum, námsframboði og námsúrræðum sem mikilvægan þátt í því að allir nemendur geti á einhvern hátt fundið og nýtt styrkleika sína og áttað sig á áhugasviðum sínum. Eykur það líkurnar á að allir geti notið sín í einhverjum þeirra leiða í námi sem boðið er upp á í skólanum og þeir kynnast viðfangsefnum sem þeir hefðu annars ekki prófað sjálfir.  

Samskipti, lýðræði og félagsfærni:

Uppbyggingarstefnan

Í Heiðarskóla er unnið í anda Uppeldis til ábyrgðar – uppbyggingar sjálfsaga. Uppeldi til ábyrgðar eða Uppbyggingarstefnan leggur áherslu á kennslu sjálfsaga, sjálfsstjórnar og uppbyggilegra samskipta. Stefnan hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum, spurt er hvernig manneskjur viljum við vera, hver hlutverk okkar eru og hvaða þarfir liggja að baki hegðunar okkar. Sjá nánari umfjöllun um stefnuna í sér kafla.

Félagsfærniþjálfun

Heilmikil félagsfærniþjálfun fer fram dag hvern þar sem margir ólíkir einstaklingar koma saman og leggur starfsfólk sig fram við að leiðbeina nemendum í hinum ýmsu aðstæðum. Lögð er áhersla á að nemendur temji sér jákvæð samskipti, umburðarlyndi, kurteisi og tillitssemi í samskiptum við aðra. Markviss félagsfærniþjálfun fer einnig fram hjá umsjónarkennurum og námsráðgjafa auk þess sem samstarfsaðilar skólans og gestir leggja sitt af mörkum.

Kennsla og þjálfun í félagsfærni og samskiptum fer m.a. fram í lífsleikni með notkun námsgagna sem eru byggð á fræðilegum grunni á öllum aldursstigum. Einnig má nefna að nemendur í 5. bekk fara í gegnum bekkjar-ART þjálfun, nemendur í 6. bekk sækja námskeiðið Baujan hjá námsráðgjafa og kennarar á miðstigi notast við aðferðir Verkfærakistunnar. Skólinn hefur átt áralangt samstarf við Þorgrím Þráinsson sem hefur farið með fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu fyrir nemendur í 10. bekk. Fleiri góðir gestir leggja árlega sín lóð á þessar vogaskálar.

Sérhæfð félagsfærniþjálfun fer fram hjá þroskaþjálfa og skólinn á í góðu samstarfi við sérfræðinga á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, s.s. hegðunarráðgjafa.

Lýðræði og þátttaka nemenda

Nemendur fá ýmis tækifæri til að setja mark sitt á skólastarfið og stuðla að jákvæðum samskiptum. Skólinn horfir til þess að efla þátttöku nemenda í ákvarðanatöku og gefa þeim tækifæri til að láta gott af sér leiða, þeim sjálfum og skólasamfélaginu til heilla. Í skólanum er starfrækt nemendaráð og samanstendur það af nemendum í 8. – 10. bekk. Tveir fulltrúar þeirra sitja í skólaráði. Stendur það fyrir ýmsum viðburðum fyrir nemendur skólans.

Fulltrúar nemenda fá tækifæri til að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á svokölluðum lýðræðisfundum þar sem ýmislegt er varðar skólastarfið er til umfjöllunar.

Nemendur í 7. bekk hafa það hlutverk að vera svokallaðir Leikjavinir en þeir standa fyrir skipulögðum leik í morgunfrímínútum þrisvar sinnum í vikum. Er þar markmiðið að leyfa öllum að vera með og stuðla þannig að jákvæðum og góðum samskiptum.

Heilbrigðar lífsvenjur:

Heilsueflandi skóli

Starfsfólk Heiðarskóla vinnur að innleiðingu Heilsueflandi grunnskóla. Hófst sú innleiðing skólaárið 2019-2020. Er þar byggt á góðum grunni því frá upphafi hefur áhersla verið lögð á hreyfingu, holla næringu og sjálfsrækt.

Hreyfing og hollusta

Í Heiðarskóla eru nemendur hvattir til að viðhafa heilbrigðar lífsvenjur og þeim leiðbeint á ýmsan hátt í því sambandi. Í íþróttum og sundi eru nemendur hvattir til að taka virkan þátt, leggja sig fram og sýna hverjum öðrum virðingu. Á yngsta stigi er ýmis konar hreyfing hluti af daglegu starfi. Nemendur fá tækifæri til að brjóta upp bóklegt nám með stuttum hreyfingarlotum þar sem þeir geta m.a. gengið eða tekið hlaupasprett á skólalóð, dansað eða gert aðrar æfingar í kennslustofu. Á unglingastigi er boðið upp á fjölbreytt úrval íþróttavalgreina auk þess sem nemendur geta látið íþróttaiðkun sína gilda sem valgrein í skólanum. Nemendur í 1. – 6. bekk sækja jógatíma einu sinni í viku hluta úr skólaári og nemendur á unglingastigi geta valið jóga sem valgrein.

Nemendur eru ávallt hvattir til að hafa með sér hollt og gott nesti í skólann og velja vatn fram yfir aðra drykkjarkosti.

Þátttaka og liðsandi

Nemendur taka þátt í ýmsum verkefnum sem boðið er upp á á landsvísu eins og Göngum í skólann, Ólympíuhlaup ÍSÍ, grunnskólamót SSÍ í boðsundi og Skólahreysti. Skólinn hefur raunar átt afar góðu gengi að fagna í Skólahreysti sem hefur haft hvetjandi áhrif á nemendur og skapað jákvætt viðhorf til hreyfingar og hreystis.

Flokkun og umhverfisvernd

Útinám er partur af skólastarfi Heiðarskóla og hefur skólinn afmarkað útinámssvæði sem hann deilir með leikskólunum Heiðar- og Garðaseli. Er það staðsett í Gryfjunni við Heiðarholt og er hún að mestu nýtt af nemendum á yngsta stigi. Ýmis tækifæri eru nýtt til útiveru á skólatíma hjá eldri nemendum s.s. með ratleikjum utandyra á þema- og uppbrotsdögum. Inn í útiveru fléttast gjarnan umhverfisfræðsla, t.a.m. þegar laufum er safnað fyrir verkefnavinnu að hausti og rusl týnt á skólalóð og í umhverfi skólans að vori.

Nemendur og starfsfólk flokkar rusl í pappír, ál, plast og lífrænan úrgang. Í 1. – 7. bekk er það gert í kennslustofum, á unglingastigi í matsal skólans og starfsmenn flokka rusl í starfsmannarýmum. Umhverfisfræðsla fer að mestu fram í náttúrufræðikennslu á öllum aldursstigum.

Endurnýting fer fram með ýmsum hætti og má þar nefna endurnýtingu á gömlum fatnaði og efnisafgöngum í textílmennt og notkun verðlauss efnis í skapandi verkefnavinnu nemenda. Í námsumhverfinu eru kassar og plastílát gjarnan nýtt undir skriffæri, áhöld og námsgögn.

Grunnþættir og markmið menntunar

Aðalnámskrá grunnskóla byggir á sex grunnþáttum menntunar en þeir eru, læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þeir byggja á því viðhorfi að unnið sé að markmiðum sem varða hvern og einn en þeir eru jafnframt samfélagsmiðaðir. Þeir snúast um að börn og unglingar læri að byggja sig upp bæði andlega og líkamlega auk þess að vinna með öðrum. Með þeim er lögð áhersla á skólabrag og starfshætti sem styrkir nemendur til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í síbreytilegu þjóðfélagi. Þeim er ætlað að stuðla að því að samfélagið fái vel menntaða og heilbrigða einstaklinga til þátttöku og starfa í samfélaginu. Grunnþættirnir endurspeglast í starfsháttum og skólabrag.

Læsi

 Læsi í víðtækum skilningi á að vera stór þáttur í öllu námi nemenda. Allir kennarar skólans vinna           markvisst að því að efla læsi og veita þjálfun í tjáningu. Áhersla er lögð á að nemendur nái góðri     lestrarfærni sem allra fyrst á skólagöngunni. Unnið er eftir lestraráætlun skólans en þar er gert ráð fyrir   lestrarnámi allan grunnskólann. 

Sjálfbærni

 Lögð er áhersla á að nemendur öðlist skilning á mikilvægi sjálfbærni, bæði með fræðslu en ekki síður   með virkri þátttöku í verkefnum sem auka skilning og móta jákvæð viðhorf til umhverfisverndar og   sjálfbærrar þróunar. Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem hver einstaklingur   er þroskaður sem virkur borgari meðvitaður um viðhorf sitt gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði   allra jarðarbúa. Umhverfismennt er hluti af samfélags- og náttúrufræðikennslu í Heiðarskóla en   nemendur flokka einnig rusl og taka þátt í hreinsun skólalóðar að vori. Í list- og verkgreinum er jafnframt   hefð fyrir endurnýtingu efnis og útinám í yngstu bekkjum er áhersla lögð á virðingu fyrir umhverfinu.

Heilbrigði og velferð

 Heilsa er skilgreind sem líkamleg, andleg og félagsleg velferð. Nemendum er leiðbeint með að temja sér   heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi. Í skólanum er lögð áhersla á að skapa   jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá   ýmsum hliðum. Lögð er áhersla á jákvæða sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, góð samskipti, öryggi,   hreinlæti, andlega vellíðan, kynheilbrigði og skilning á eigin tilfinningum og annarra. Góð heilsa er   undirstaða velfarnaðar í námi og starfi í virkri þátttöku í samfélaginu. Heilbrigði er eitt af   einkunnarorðum skólans og mikil áhersla er því lögð á heilbrigði og hollar lífsvenjur. Árlega eru haldnir ýmsir íþróttaviðburðir í viðbót við lögbundna kennslu í skólaíþróttum. Má þar nefna skólahlaup, viðfangsefni tengd heilbrigðisdegi Heiðarskóla og hreystikeppni á unglingastigi. Skólinn tekur jafnframt þátt í ýmsum íþróttakeppnum s.s. Skólahreysti, boðsundskeppni grunnskólanna og Sundsambands Íslands og minni íþróttamótum sem fram fara innanbæjar.

Lýðræði og mannréttindi

  Lýðræðismenntun snýst um að virkja nemendur. Að einstaklingurinn finni að hann er við stjórnvölinn í   eigin lífi, hann geti haft skoðanir og að á hann sé hlustað. Í Heiðarskóla fá nemendur tækifæri til að æfa   sig í lýðræðislegum vinnubrögðum. Kennarar leggja áherslu á samræður í kennslu sem einkennast af   umhyggju og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Nemendur fá tækifæri til að vinna saman í ólíkum   hópum að verkefnum sem fela í sér samvinnu við skólafélagana. Reglulega eru haldnir lýðræðisfundir   þar sem fulltrúar nemendahópa koma saman, segja skoðanir sínar á ýmsum málum er varða skólastarfið   og fá tækifæri til að koma með tillögur að breytingum eða úrbótum. Lögð er áhersla á að nemendur fræðist um mannréttindi og jafnrétti og að hvergi gæti mismununar í starfi skólans. Námið byggir á gagnrýninni hugsun og ígrundun um gildi samfélagsins. Í öllum starfsháttum þarf að taka tillit til viðhorfa, gildismats og siðferðis sem fléttast saman við aðra grunnþætti menntunar.

Jafnrétti

  Allt skólastarfið skal vera í anda jafnréttis og á það að vera samofið leik og starfi nemenda.   Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum samfélagsins og kennir   nemendum að greina aðstæður sem leiða til mismununar. Í öllu skólastarfinu er farið eftir ákvæði   jafnréttislaga um kyn, fötlun, kynhneigð og þjóðerni. Lögð er áhersla á að skólinn starfi án   aðgreiningar. Mikilvægt er að skapa meðvitund um mismunandi félagsstöðu og vægi íbúa í   nærsamfélaginu. Unnið er eftir jafnréttisáætlun skólans.

Sköpun

 Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna nýja möguleika. Sköpun sem grunnþáttur   skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði. Gagnrýnin hugsun er lykilþáttur í læsi og   sköpun. Sköpun snýst ekki eingöngu um nýtt og frumlegt heldur og hagnýtingu þess sem fyrir er. Hún   snýst um lausn viðfangsefna og nýja möguleika. Í Heiðarskóla er lögð áhersla á skapandi greinar s.s.   tónmennt, leiklist/tjáningu, myndlist og dans. Ýmis skapandi viðfangsefni skipa stóran sess í   skólastarfinu og má í því sambandi nefna heildstæð og samþætt verkefni og þemavinnu.

Áhersluþættir í grunnskólalögum

Samkvæmt ákvæði í 24.gr. laga um grunnskóla ber að leggja áherslu á ýmsa þætti í námi og kennslu. Þessir þættir eru m.a. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félags- og borgaravitund, félagsfærni og gagnrýnin hugsun. Þessir áhersluþættir eru ekki bundnir við einstakar námsgreinar heldur eiga þeir að vera leiðarljós í menntun  og starfsháttum skólans.

Námsmat og vitnisburðarkerfi

Í Heiðarskóla er lögð áhersla á fjölbreytta náms- og kennsluhætti, s.s. einstaklingsvinnu, hópavinnu, paravinnu, þemavinnu, útikennslu, vettvangsferðir, tilraunir, umræður og samkennslu innan árganga. Fyrri reynsla og þekking nemenda er notuð sem grunnur að áframhaldandi námi og leitast við að koma til móts við hvern og einn þar sem hann er staddur með námsefni við hæfi og einstaklingsmiðaðri kennslu. Námið er tengt reynsluheimi nemenda, umhverfi og daglegu lífi eins og frekast er unnt. Leitast er við að nemendur læri að hluta til í gegnum leik og skapandi starf sem ýtir undir betri skilning og jákvætt viðhorf til námsins. Almennt er nemendum leiðbeint um að sýna sjálfstæð vinnubrögð og ábyrgð á eigin námi.

Við val á kennsluháttum er stuðst við lykilhæfniviðmið Aðalnámskrár grunnskóla 2013 og  eftirfarandi atriði eru höfð að leiðarljósi:

  • Að nemendur nái árangri.
  • Að nemendum líði vel og séu áhugasamir.
  • Að nemendur nái markmiðum sínum.
  • Að nemendur læri að skipuleggja nám sitt og beri ábyrgð á eigin vinnu.
  • Að nemendur efli sjálfstæð vinnubrögð.
  • Að nemendur efli samstarf í gegnum hópastarf.
  • Að samþætta námsgreinar þegar kostur er.
  • Að koma til móts við þarfir nemenda með fjölbreytilegum verkefnum sem krefjast skapandi og gagnrýninnar hugsunar.

Á hverju ári eru gerðar bekkjanámskrár þar sem fram koma kennsluhættir í hverri grein. Eru þær birtar á heimasíðu skólans. Út frá þeim eru settar upp lotur og verkefni í Mentor og gerðar námskrár með þeim hæfniviðmiðum sem metin eru.

Áhersla er lögð á góða samvinnu kennara innan árganga, faggreina og aldursstiga og hefur kennarahópurinn prófað sig áfram í teymiskennslu í afmörkuðum verkefnum.

Mat á hæfni og framförum nemenda er mikilvægur þáttur skólastarfsins. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð tilsettum markmiðum. Námsmat veitir einnig nemendum, foreldrum og kennurum  upplýsingar um námsframvindu, hæfni nemenda og vinnubrögð.

Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat og að það nái til sem flestra námsþátta. Staða nemenda í lykilhæfni Aðalnámskrár er metin eftir frammistöðu þeirra  í verkefnum sem reyna á þessa hæfni í hverri námsgrein eftir því sem við á. Lykilhæfniþættirnir eru:

  • Tjáning og miðlun
  • Skapandi og gagnrýnin hugsun
  • Sjálfstæði og samvinna
  • Nýting miðla og upplýsinga
  • Ábyrgð og mat á eigin námi

Í Heiðarskóla er litið á allt skólaárið sem eitt námsmatstímabil. Haldið er utan um námsmat í Mentor með skráningum í hæfnikort nemenda í allflestum námsgreinum jafnt og þétt yfir skólaárið. Snemma á vorönn er staðan metin með samtali á matsdegi. Þá fer fram samtal milli kennara, nemenda og foreldra um framvinduna og lykilhæfni auk þess sem markmið sem sett eru í upphafi skólaárs eru metin og endurskoðuð. Í lok skólaársins fá nemendur í 1. - 9. bekk viðurkenningarskjal með umsögn umsjónarkennara en niðurstöður lokamats í námsgreinum eru birtar í hæfnikortum á Mentor. Metanleg hæfniviðmið Aðalnámskrár og skólaviðmið eru til grundvallar mats á hæfni nemenda í 1. – 9. bekk. Hæfni nemenda í 10. bekk er metin út frá metanlegum hæfniviðmiðum Aðalnámskrár og niðurstöðurnar dregnar saman í bókstafi í grunnnámsgreinum. Hæfni nemenda í valgreinum er metin út frá hæfniviðmiðum Aðalnámskrár og skólaviðmiðum sem sjá má í hæfnikortum í Mentor en á útskriftarskírteini er lokamat sett fram sem lokið/ólokið.

Kennarar leiðbeina nemendum um raunhæft sjálfsmat og gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig þeim miðar í átt að þeim. Í skólanum er lögð áhersla á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennara. Leiðsagnarmat fer fram í kennslustundum og byggir fyrst og fremst á endurgjöf og leiðsögn á meðan nemandi vinnur verkefni sín hverju sinni. Einnig með leiðbeinandi endurgjöf fyrir skilaverkefni sem eiga að þjálfa nemendur fyrir lokamat í ákveðnum námsþætti eða námsgrein.

Bekkjanámskrár eru birtar á heimasíðu skólans og í þeim kemur fram hvernig námsmati er háttað í hverjum námsþætti.

Mat á skólastarfi

Sjálfsmat

Í lögum um grunnskóla 91/2008 36 gr. eru ákvæði um innra mat skóla. Innra matið tekur til alls skólastarfsins. Með því fer fram víðtæk gagnaöflun sem veitir upplýsingar um árangur skólastarfsins og er jafnframt leið til að vinna markvisst að umbótum. Samkvæmt lögum ákveður skólinn sjálfur aðferðir við matið.

Mat á skólastarfi er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Markmið mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.

     Aðalnámskrá grunnskóla 2011, bls. 28-29

 

Sjálfsmat dregur fram sterkar og veikar hliðar skólans og skapar faglegan grundvöll fyrir umbætur. Matið er ein af forsendum þess að hægt sé að setja fram raunhæfar tillögur til úrbóta á veikleikum í skólastarfinu. Eftir sjálfsmat eru lagðar fram tillögur til úrbóta og gerð áætlun um framkvæmd. Síðar er metið hvort umbætur hafi skilað árangri. Sjálfsmatið þarf að vera formlegt, altækt, áreiðanlegt, samstarfsmiðað, umbótamiðað, árangursmiðað, stofnana- og einstaklingsmiðað, lýsandi, greinandi og opinbert.

Í Heiðarskóla snýr sjálfsmatið að helstu þáttum skólastarfsins, s.s. markmiðum skólans, líðan, skipulagi, starfinu í skólanum, kennslu, námsmati, aðbúnaði, stjórnun,  o.fl.

Sjálfsmatsteymi skólans ber ábyrgð á framkvæmd sjálfsmats og kemur með tillögur til umbóta þar sem við á.

Tilgangur og markmið með mati á skólastarfi

  • Leita leiða til að bæta námsárangur.
  • Efla þekkingu allra starfsmanna á stofnuninni sem heild.
  • Auka samstarf og samheldni allra sem koma að skólastarfinu.
  • Bæta starfsaðstæður og stuðla að betri líðan þeirra sem í skólanum starfa.
  • Skapa frjóa umræðu og skoðanaskipti.
  • Stuðla að þróun og vexti skólans.
  • Tryggja upplýsingamiðlun um starfsemi skólans bæði inn á við og út á við.

Matsaðferðir

Tvenns konar viðmið eru lögð til grundvallar innra mati skólans. Annars vegar lög og reglugerðir sem grunnskólum er ætlað að starfa eftir og hins vegar skólanámskrá og starfsáætlun en þar kemur fram stefna skólans og markmið.

Við matið er lögð áhersla á að aðferðirnar séu greinandi og fjölbreyttar og falli vel að þeim markmiðum sem unnið er með hverju sinni. Þessi gögn eru m.a. kannanir, spurningalistar, umræðufundir, próf, vettvangsathuganir og gátlistar svo eitthvað sé nefnt. Samhliða formlegu mati eru iðulega gerðar stöðugreiningar á ýmsum atburðum í skólastarfinu, s.s. árshátíðum, þemadögum, samskiptadögum o.fl. og eru niðurstöðurnar metnar og umbótaáætlanir gerðar.

Gerð er matsáætlun til þriggja ára þar sem fram koma þeir þættir í skólastarfinu sem meta á hvert skólaár. Starfsmenn skólans taka ákvörðun um hvað á að meta og hver viðmiðin eiga að vera. Þegar niðurstöður liggja fyrir eru greindir styrk- og veikleikar. Þar sem þörf  er á er sett fram áherslu- og umbótaáætlun.

Eftir tiltekinn tíma er farið yfir hvort úrbætur hafi skilað tilætluðum eða ásættanlegum árangri.

Matsáætlun og umbótaáætlun fyrir skólaárið er birt í starfsáætlun skólans.

 

Skilgreining á innra og ytra mati

Innra mat er framkvæmt af þeim sem vinna í skólanum og er unnið á þeim forsendum. Starfsmenn skólans taka ákvörðun um hvað á að meta, hver viðmiðin eiga að vera og leggja fram umbótaáætlanir þar sem þörf er á.

Ytra mat er framkvæmt af utanaðkomandi aðilum s.s. fræðsluskrifstofu, Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga o.fl. Niðurstöður af mati sem þessir aðilar framkvæma og snúa að innra starfi skólans geta mjög vel stutt við innra mat og stuðla að markvissari nýtingu mats til umbóta fyrir skólann. Því er fjallað um slíkt mat í sjálfsmatsskýrslu skólans þar sem við á.

Þróunar og umbótastörf

Allt frá stofnun skólans hefur verið unnið að fjölmörgum umbóta- og þróunarverkefnum.

Skólaárið 2000 – 2001    Heildstæð móðurmálskennsla

Skólaárið 2002 – 2003    SOS námskeið – hjálp fyrir foreldra

Skólaárin 2002 – 2004    Olweusarkerfið gegn einelti

Skólaárið 2003 – 2004    Læsi til framtíðar

Skólaárin 2004 – 2007    Þróun og endurskoðun á námsmati

Skólaárin 2005 – 2007    Sjálfsmynd og félagsfærni nemenda

Skólaárið 2007 – 2009    Uppbyggingarstefnan

Skólaárið 2010 – 2011    Áhugasamir nemendur - árangursríkara skólastarf

Skólaárin 2010 – 2012    Læsisbrú

Skólaárið 2011 – 2012    Skapandi nám - áhugasamir nemendur

Skólaárin 2012 – 2014    Innleiðing nýrrar menntastefnu

Skólaárið 2013 – 2014    Spjaldtölvur í námi og kennslu

Skólaárið 2013 – 2015    Mat í þágu náms

Skólaárið 2015 – 2016    Tækniþekking kennara, stuðningur, efling og öryggi

Skólaárið 2017 – 2018    Leiðsagnarmat er lykill (unnið í samstarfi við Njarðvíkurskóla)

Skólaárið 2018 - 2019     Ég, þú og við sem heild

Skólaárið 2019 - 2020     Íslenska fyrir okkur öll

Skólaárið 2020-2021       Tækniskrefin

Skólaárið 2021-2022       Fléttufjör á unglingastigi

Skólárið 2021- 2024        Stærðfræðistefna Heiðarskóla  

Á hverju ári er framkvæmt sjálfsmat og út frá niðurstöðum matsins er síðan unnin áætlun um umbætur og þróunarstarf. Gefin er út sjálfsmatsskýrsla eftir hvert skólaár og er hún birt á heimasíðu skólans.

Samstarf og tengsl við nærsamfélagið

Í skólanum er lögð áhersla á gott samstarf við foreldra nemenda skólans. Velferð nemenda og góð námsframvinda byggir ekki síst á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna. Hlutverk foreldra er að gæta hagsmuna barna sinna, eiga gott samstarf við skóla og taka þátt í námi barnanna. Gagnkvæm og virk upplýsingagjöf milli starfsfólks skóla og heimila stuðlar að gagnkvæmu trausti. Mikilvægt er að foreldrar upplýsi starfsmenn skólans um atriði sem geta haft áhrif á líðan nemandans í skólanum, (t.d. viðburðir, áföll, veikindi).

Virk hlutdeild og þátttaka foreldra í námi og starfi barna sinna er forsenda þess að foreldrar geti axlað þá ábyrgð sem þeir bera á farsælu uppeldi og menntun barna sinna.

Mikilvægt er að foreldrar tali jákvætt um skólann, starfið sem þar er unnið og starfsfólkið því viðhorf foreldra hafa að sjálfsögðu mótandi áhrif á viðhorf nemenda. Foreldrar eru hvattir til að benda á það sem betur má fara með því að hafa samband við starfsfólk skólans. Áhersla er lögð

á upplýsingagjöf frá skóla til heimilis og einnig nána samvinnu um úrlausn vandamála sem upp kunna að koma. Foreldrar geta óskað eftir viðtölum við kennara og einnig eru höfð samskipti með tölvupósti, fundum og í gegnum Mentor.

Til að tryggja gott samstarf heimilis og skóla er lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Reglulega senda umsjónarkennarar foreldrum upplýsingar um það helsta sem er á döfinni hverju sinni.
  • Tvisvar sinnum á skólaárinu eru foreldrar og nemendur boðaðir til samtals um líðan og námsframvindu, oftar ef þurfa þykir.
  • Á tveggja vikna fresti senda umsjónarkennarar upplýsingar um ástundun nemenda til foreldra.
  • Vefsíða skólans er uppfærð reglulega. Þar geta foreldrar nálgast ýmsar upplýsingar um starfsemi skólans, s.s. skólanámskrá, starfsáætlun, fréttir og það helsta sem er á döfinni. Fréttir og tilkynningar eru einnig settar inn á Facebook síðu skólans.
  • Kennarar setja upplýsingar um heimanám nemenda á Mentor.
  • Foreldrum er boðið sérstaklega á viðburði í skólanum.

Heimanám

Heimanám er samvinnuverkefni skóla, foreldra og nemenda og jafnframt mikilvægur hluti af námi nemenda. Með heimanámi fá foreldrar gott tækifæri til að fylgjast náið með námi barna sinna og eignast hlutdeild í árangri þess. Áhugi foreldra, aðstoð og hvatning er mjög mikilvæg og getur skipt sköpum um árangur nemenda í skóla. Áhersla er á að heimanámi sé stillt í hóf, að það sé merkingarbært og við hæfi hvers og eins. Í öllum árgöngum á lestur, bæði lestrarþjálfun og lesskilningur, að sitja í fyrirrúmi þegar heimanám er skipulagt. Mikilvægt er að heimanám feli í sér þjálfun á þáttum sem nemandinn hefur lært í skólanum en síður á ný viðfangsefni.

Með heimanámi:

  • þjálfast nemendur í skipulögðum vinnubrögðum,
  • ná nemendur að þjálfa betur það sem lagt er fyrir í skólanum,
  • ljúka nemendur við verk sem þeir kláruðu ekki í skólanum,
  • geta nemendur undirbúið sig undir kennslustundir þannig að þær verði árangursríkari
  • fá nemendur gott tækifæri til að bera ábyrgð á eigin námi.

Mentor

Heiðarskóli er í samstarfi við Mentor – fjölskylduvef. Kennarar færa þar inn upplýsingar um skólasókn, ástundun, námsmat og heimavinnu nemenda. Þar er einnig skráður vitnisburður um frammistöðu á skólaárinu. Nemendur og foreldrar fá veflykil hjá umsjónarkennara eða skrifstofustjóra við upphaf skólagöngu sem veitir foreldrum og börnum aðgang að upplýsingunum. Mikilvægt er að foreldrar skrái netföng hjá skrifstofustjóra skólans því tilkynningar eru sendar út rafrænt. Samkvæmt barnalögum hafa forsjárlausir foreldrar einnig aðgang að Mentor og þeim skriflegu upplýsingum sem snúa að skólagöngu barna sinna svo lengi sem þar komi ekki fram upplýsingar um persónulega hagi forsjárforeldris. Ef lykilorð glatast er hægt að fá nýtt hjá ritara. 

Foreldrafélagið

Markmið félagsins er að vinna að velferð nemenda og efla samstarf heimila og skóla. Félagið hyggst ná markmiðum sínum m.a. með virkri upplýsingamiðlun til og frá foreldrum og með þátttöku í samstarfi við önnur foreldrafélög. FFHS er aðili að FFGÍR sem samanstendur af foreldrafélögum grunnskólanna í Reykjanesbæ. Foreldrafélag Heiðarskóla heldur jólaföndurdag á aðventu og sumarhátíð að Heiðarleikum loknum sem haldnir eru undir lok skólaársins. Er þá boðið upp á ýmislegt til skemmtunar ásamt veitingum. Einnig hefur foreldrafélagið í samvinnu við skólastjórn fengið fyrirlesara á fundi og veitt skólanum ýmsa styrki t.d. fyrir rútuferðum nemendahópa og kaupum á leikföngum og námsgögnum. Stjórn foreldrafélagsins hefur frumkvæði að því að hver bekkur eigi tvo bekkjarfulltrúa. Foreldrar eiga tvo fulltrúa í skólaráði. Stjórn foreldrafélagsins er kosin á aðalfundi að vori. Nánari upplýsingar um foreldrafélagið og foreldraráð er að finna á heimasíðu skólans.

Samstarf við leikskólana Heiðarsel og Garðasel

Lög og námskrár kveða á um samstarf milli leik- og grunnskóla og byggja á sameiginlegum grunni. Markmið samstarfsins er m.a. að skapa samfellu í námi og stuðla að öryggi og vellíðan barna þegar þau flytjast milli skólastiga.

Góð samvinna er á milli Heiðarskóla og leikskólanna í skólahverfinu, Garðasels og Heiðarsels. Unnið er eftir áætlun sem kallast Brúum bilið og miðar hún að því að auðvelda nemendum umskiptin úr leikskóla í grunnskóla.

  • Að hausti hittast leikskólakennarar og deildarstjóri yngra stigs og skipuleggja samstarfið fyrir skólaárið.
  • Skólahópar leikskólanna heimsækja sinn heimaskóla nokkrum sinnum yfir skólaárið. Deildarstjóri yngra stigs tekur á móti nemendunum í þessum heimsóknum. Nemendur skoða skólann og hitta stjórnendur, fara á bókasafnið, í tækniverið, vinna verkefni með nemendum í 1. bekk og fara í íþróttatíma.
  • Í tengslum við dag íslenskrar tungu koma leikskólanemendurnir í heimsókn og sjá atriði sem nemendur í 1. bekk sýna. Auk þess syngja allir saman.
  • Á aðventunni er leikskólanemendum boðið að koma á sýningu á jólaleikriti skólans sem nemendur í leiklistarvali sýna.
  • Í kringum árshátíð Heiðarskóla er leikskólanemendum boðið að koma og sjá atriði 1. bekkjar og við sama tilefni sýna leikskólanemendur einnig atriði.

Deildarstjóri yngra stigs fundar með deildarstjórum leikskólanna að vori þar sem leikskólakennarar afhenda gátlista sem sýna mat á ákveðnum þáttum í námi og þroska væntanlegra nemenda skólans.

Samstarf við framhaldsskóla

Heiðarskóli er í góðum tengslum við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Námsráðgjafi Heiðarskóla er tengiliður við skólann. Á hverju vori fara nemendur í 9. bekk ásamt umsjónarkennurum í heimsókn í FS þar sem þeim er sýndur skólinn. Námsráðgjafi frá FS kemur í skólann og kynnir námið fyrir nemendum í 10. bekk.

Nemendum í efstu bekkjum skólans býðst að sækja áfanga í FS að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um námsárangur. Foreldrar nemenda bera þann kostnað.

Samstarf við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri

Samkvæmt samningi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri er Heiðarskóli viðtökuskóli kennaranema í æfingarkennslu. Í því felst að skólinn tekur á móti kennaranemum á hverju skólaári til leiðsagnar og þjálfunar ef aðstæður leyfa.

Samstarf við tungumálaver Laugalækjaskóla

Samstarf er við tungumálaver Laugalækjaskóla vegna tungumálanáms í norsku í 8. – 10. bekk.

Heiðarskóli leggur metnað sinn í að rækta tengsl nemenda við nærsamfélag skólans og tengja námið við umhverfi hans.

Tengsl við nærsamfélagið

Nærsamfélag skólans er annars vegar landfræðilegt, bæði náttúran og manngert umhverfi og hins vegar félagslegt, svo sem fjölskyldur, stofnanir, fyrirtæki, félög og samtök. Nærsamfélag Heiðarskóla er allur Reykjanesbær. Eftirfarandi atriði eru dæmi um hvernig Heiðarskóli vinnur með nærsamfélagi skólans:

  • Lögð er áhersla á að allir nemendur læri að virða og umgangast náttúruna. Þar má nefna hreinsunarátak í hverfinu á vordögum og vinna við útikennslusvæði Heiðarskóla, Gryfjuna.
  • Nemendur stunda áhuga- og færnimiðað nám í góðum tengslum við fyrirtæki og stofnanir í Reykjanesbæ.
  • Nemendur í 10. bekk fara í starfskynningu að vori í stofnanir og fyrirtæki í bænum.
  • Í gildi er samningur við íþrótta- og ungmennafélögin í Reykjanesbæ um samstarf í tengslum við íþróttaval nemenda í og 10. bekk.
  • Samstarf er við leikskólana Heiðarsel og Garðasel um valgreinina uppeldi og menntun. Nemendur í þeirri valgrein stunda að hluta til nám sitt hjá leikskólum.
  • Nemendur sem velja útivist sem hluta af sínu vali kynnast nærumhverfi sínu vel. Farið er í gönguferðir um Reykjanesbæ og um allan Reykjanesskagann s.s. á Þorbjörn og að Reykjanesvita svo eitthvað sé nefnt.
  • Lögð er áhersla á að náttúrufræðinámið fari að einhverju leyti fram utan veggja skólans þar sem umhverfið og náttúran er sá raunveruleiki sem nemendur eru að læra um og þurfa að þekkja.
  • Útikennsla er af ýmsu tagi, t.d. fara ákveðnir árgangar vikulega í vettvangsferðir.
  • Nemendur eiga kost á ferðum á öll söfn bæjarins.

Skólareglur

Í Heiðarskóla er lögð áhersla á jákvæð samskipti milli allra sem þar starfa: nemenda, kennara og alls starfsfólks. Lögð er áhersla á að nemendur fái jákvæða og uppbyggjandi leiðsögn varðandi hegðun og framkomu og áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og tillitssemi.

Lögum samkvæmt skulu skólar setja skólareglur sem skylt er að fara eftir. Til að starfsandi og skólabragur sé sem bestur í okkar skóla höfum við sett okkur fáar og skýrar reglur. Einnig kemur þar skýrt fram hvernig brugðist er við agabrotum.

Skólareglur Heiðarskóla gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans, hvort sem er innan eða utan hans.

Skólareglurnar eru eftirfarandi:

  1. Við stundum námið af bestu getu og mætum stundvíslega.
  2. Við sýnum virðingu og kurteisi í samskiptum og förum að fyrirmælum starfsfólks.
  3. Við göngum vel um, berum virðingu fyrir umhverfinu og stofnum hvorki öryggi okkar né annarra í hættu með orðum eða gjörðum.
  4. Við hugum vel að heilsu okkar.
  5. Við notum tæki á ábyrgan hátt á skólatíma og fylgjum þeim reglum sem um þau hafa verið sett.


Nánari lýsing á skólareglum

 

  1. Við stundum námið af bestu getu og mætum stundvíslega.

Nám er vinna sem ætlast er til að nemendur skili af sér, jafnt í skóla sem heima. Starfsfólk vinnur að því með jákvæðum aga og í samráði við forráðamenn að nemendur virði kennslustundir sem dýrmætan vinnutíma. Kennarar fylgjast með námsframvindu og hegðun nemenda sinna og gera ráðstafanir í samræmi við skólareglur ef út af ber. Mikilvægt er að nemendur komi á réttum tíma í kennslustundir. Heimilt er að skrá fjarvist mæti nemandi eftir að 15 mínútur eru liðnar af kennslustundinni.

 

  1. Við sýnum virðingu og kurteisi í samskiptum og förum að fyrirmælum starfsfólks.

Það er sameiginlegt hlutverk skólans og heimilanna að rækta með börnum og unglingum almenna kurteisi og viðurkenndar samskiptareglur manna í milli. Við komum fram við aðra, eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Til þess að skólabragurinn sé sem bestur, góður árangur náist og öllum líði vel ber nemendum að fara að fyrirmælum starfsfólks.

  1. Við göngum vel um, berum virðingu fyrir umhverfinu og stofnum hvorki öryggi okkar né annarra í hættu með orðum eða gjörðum.

Mikilvægt er að nemendur temji sér góða umgengni í og við skólann. Nemendur skulu hengja upp yfirhafnir og setja skó á viðeigandi staði.

Allir eiga rétt á að finna til öryggis í skólanum. Framkoma og hegðun nemenda skal vera þannig að hún ógni ekki öryggi annarra. Foreldrar nemenda í 1. – 7. bekk þurfa að tilkynna til skrifstofustjóra ef barn þeirra þarf að yfirgefa skólalóðina á skólatíma. Nemendum í 8. – 10. bekk er heimilt að yfirgefa skólalóðina s.s. í matartíma en eru þá á eigin ábyrgð og foreldra. Komi nemandi á hjóli, hjólaskautum, hjólabretti, sleða eða einhverjum öðrum farartækjum, skulu þau ekki notuð á skólalóðinni á skólatíma.

  1. Við hugum vel að heilsu okkar.

Við komum með hollt og gott nesti í skólann. Óheimilt er að vera með sælgæti, gos eða orkudrykki á skólatíma, nema leyfi sé gefið til þess við sérstök tilefni. Við neytum ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímu- og ávanabindandi efna.

  1. Við notum tæki á ábyrgan hátt á skólatíma og fylgjum þeim reglum sem um þau hafa verið sett.

Mynd- og hljóðupptaka er óheimil á skólatíma, nema með sérstöku leyfi kennara og þá í námslegum tilgangi. Í kennslustundum eiga nemendur ekki að vera með tæki sem tengjast ekki náminu og valda truflun.

Almenn viðbrögð við agamálum

Kennari ræðir við nemendahópinn um skólareglurnar og viðbrögð við agamálum og gerir hann samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi. Kennari tekur á agamálum inni í bekk. 

1.stig
Ef í ljós kemur að einstaklingur er ábyrgur fyrir truflun í kennslustund eða gerist á annan hátt brotlegur við skólareglurnar, ber kennara/starfsmanni að ræða við nemandann einslega. Nemanda gefst tækifæri til að leiðrétta og bæta fyrir brot án frekari beitingar viðurlaga. Kennari, umsjónarkennari, stjórnendur eða aðrir starfsmenn skólans geta aðstoðað nemandann við að leysa úr sínum málum. Breyti nemandi ekki hegðun sinni fer málið á 2. stig.

2.stig

Kennari velur að fara leið a.) eða b.) allt eftir alvarleika málsins.

a) Kennari hefur samband við foreldra/forráðamenn, upplýsir þá um málið og kallar eftir samráði við lausn þess.

b) Kennari fær aðstoð deildarstjóra í málinu. Takist að leysa málið eru foreldrar/forráðamenn upplýstir um málið og lausn þess. Ef ekki tekst að leysa málið með nemandanum þá hefur deildarstjóri samband við foreldra/forráðamenn til þess að upplýsa um málið og óskar um leið eftir að þeir taki þátt í lausn þess.

Beri slíkt ekki tilætlaðan árangur fer málið á 3. stig

3.stig

Málinu vísað til skólastjóra. Foreldrar/forráðamenn ásamt nemanda eru kallaðir á fund þar sem reynt er að finna lausn. Ef ekki tekst að finna lausn á vanda nemandans og ef hegðun hans kemur í veg fyrir eðlilegt skólastarf vísar skólastjóri málinu til sálfræðings skólans með samþykki foreldra/forráðamanna eða vísar honum úr skóla tímabundið, meðan reynt er að finna lausn á vanda nemandans (sbr. 14. gr í lögum um grunnskóla nr. 91/2008). Skólastjóra ber að ræða við foreldra/forráðamenn áður en gripið er til slíkrar brottvísunar og hún tilkynnt til fræðsluskrifstofu.

Ef ekki tekst að leysa vanda nemanda innan skólans á viku, vísar skólastjóri málinu til fræðsluyfirvalda.  Fræðsluyfirvöld bera ábyrgð á að tryggja nemanda skólavist innan hæfilegs tíma frá brottvísun.

 

Skýr mörk

Starfsfólk og nemendur skólans skilgreina ákveðin mörk sem eiga að stuðla að auknu öryggi

í skólanum og skapa aðstæður til að nemendur geti öðlast sjálfsstjórn, eflt félagsþroska og náð árangri.

Mörkin okkar eru:

  • Ekkert ofbeldi né einelti
  • Engin vopn né vímuefni
  • Engar ógnanir eða hótanir við neinn í skólasamfélaginu
  • Engin skemmdarverk eða þjófnaðir
  • Engin mismunun t.d. vegna uppruna, fötlunar, kyns og svo framvegis

Fari nemandi yfir þessi skýru mörk er málinu vísað til stjórnenda og foreldrar/forráðamenn upplýstir um málið og óskað um leið eftir að þeir taki þátt í lausn þess.

Við alvarleg agabrot getur komið til brottvísunar án áminningar. Komi brottvísun til framkvæmda eiga nemandi og forráðamenn hans rétt á andmælum samkvæmt 13. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skólareglurnar voru endurskoðaðar vorið 2021

Lestrarstefna

Lestraráætlun

Í Aðalnámskrá grunnskóla er læsi einn af grunnþáttum menntunar.

Læsi er vítt hugtak sem snýst um færni sem fólk þarfnast til þess að geta lesið og skilið ritaðan texta og fært hugsanir sínar í ritað letur. Þannig er lestur málræn, vitræn og félagsleg athöfn. Fólk hugsar og lærir í gegnum tungumálið sem gerir því kleift að læra hvert af öðru, miðla reynslu og skipuleggja. Ritmálið gerir því kleift að geyma meiri þekkingu en mannsheilinn er fær um að geyma og er því stórkostleg viðbót við minnið og veitir þannig aðgang að meiri þekkingu, upplifun og ánægju.

Góð lestrarfærni er undirstaða ævináms og eitt það mikilvægasta sem einstaklingur þarf að tileinka sér til að geta tekið þátt í menningarlegu og samfélagslegu atferli eða eins og segir í Aðalnámskrá (2011:31-32): ,,Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.“

Lestur og lesskilningur

Lestur er stigskipt þróun sem byggir á málþroska nemendanna. Markviss kennsla í lestri hefst í leikskólanum þar sem áhersla er lögð á grunnfærni nemenda, þjálfun mál- og hljóðkerfisþroska en kennslan heldur áfram alla skólagönguna í tengslum við allt skólastarf og allar námsgreinar. Mikil áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun með því að aðstoða og efla nemendur við upphaf lestrarnáms til þess að koma í veg fyrir námserfiðleika á síðari stigum skólagöngunnar. Alla skólagönguna er fylgst með framvindu lestrarnáms allra nemendanna og áhersla lögð á að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir í lestrarferlinu á einstaklingsbundinn hátt. Framan af er megin áhersla lögð á umskráningu, þ.e. að nemendur lesi einfalda texta sem þyngjast smátt og smátt upp í flókið og sérhæft námsefni sem gerir miklar kröfur til lesskilnings. 

Markmið lesturs er að skilja innihald þess texta sem lesinn er. Lesskilningur felur meðal annars í sér að draga ályktanir af því sem ekki er sagt, að lesa á milli lína, að greina uppbyggingu textans og geta dregið út aðalatriði hans og hvort textinn skilst nægilega vel. Ýmsir þættir hafa áhrif á lesskilninginn, svo sem hugtakaskilningur, fyrri reynsla nemenda, eftirtekt og minni.

Nemendur beita að öllu jöfnu ólíkum aðferðum við lesskilning. Þeir spá fyrir um efni áður en þeir lesa, tengja við eigin reynslu og þekkingu, fylgjast með skilningi sínum og bregðast við ef skilningur bregst.

Kennsluaðferðir

Hljóðlestraraðferð

Við upphaf skólagöngu í Heiðarskóla er fyrst og fremst gengið út frá aðferðum hljóðlestrar. Þetta er raunprófuð, samtengjandi kennsluaðferð þar sem smáar einingar málsins eru tengdar saman í stærri og stærri heildir. Byrjað er á að kenna bókstafi og hljóð þeirra og tengja þá síðan saman í lesbúta og orð. Þetta þróast í að nemandinn nái fullkomnum tengslum milli bókstafs og hljóðs og nái sjálfvirkni í lestri. Eftir því sem nemendur verða færari í lestrartækninni færist áhersla meir og meir á lesskilninginn. Þeir læra aðferðir sem hjálpa til að skilja texta, finna staðreyndir, lesa á milli lína og draga ályktanir

Ásamt hljóðlestraraðferð er einnig stuðst við eftirfarandi kennsluaðferðir:

Orðaaðferð

Orðaaðferð felst í því að kenna nemendum orðheildir eða orðmyndir. Þetta er fyrst og fremst til að kenna þeim algengar orðmyndir smáorða sem er gott að geta lesið leiftursnöggt.

LTG – Lestur á talmálsgrunni

LTG er sundurgreinandi lestrarkennsluaðferð sem byggir á að tengja saman reynslu nemenda, myndmál, tal og ritun. Nemendur vinna með heilar merkingabærar setningar sem gera lesturinn skemmtilegri og stuðlar þannig að aukinni lestrarfærni.

PALS

PALS lestraraðferðin byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna í 35 til 45 mínútur í senn, þrisvar sinnum í viku. Nemendur vinna saman í pörum og aðstoða hvorn annan við að bæta lesturinn. Kennarinn fylgist með pörunum og aðstoðar þau eftir þörfum við að bæta lesturinn.

Bergmálslestur

Markmið er að auka lesfimi. Kennari les setningu og nemendur lesa sömu setningu saman í kór.

Paralestur

Markmið að auka lesfimi. Nemendapör lesa upphátt til skiptis.

Hugtakakort

Hugtakakort eru myndræn framsetning til þess að nemendur komi skipulagi á hugsun sína og nái yfirsýn yfir námsefni. Hugtakakort henta vel til að byggja upp skilning á hugtökum og tengja nýjar upplýsingar við fyrri þekkingu.

Gagnvirkur lestur

Gagnvirkur lestur er samvinnunámsaðferð þar sem nemendur og kennari hjálpast að við lesturinn. Nemendur lesa texta, spá fyrir um framhald hans, velta fyrir sér skilningi þeirra, spyrja spurninga og taka saman meginatriði.

Lesið til skilnings 

Lesið til skilnings fer oftast fram í hópakennslu. Nemendum er kennt að taka saman meginatriði efnisins, spyrja spurninga um hugmyndir og efni textans. Leita skýringa þegar skilning brestur eða eitthvað er óljóst og spá fyrir um framhald texta. Í upphafi hvers lestrar er spáð fyrir um hvað textinn fjallar með því að vekja athygli á gildi mynda, fyrirsagna og annarra vísbendinga í textanum. Forspáin er ekki einungis notuð í byrjun heldur er hún viðvarandi ferli í gegnum lesturinn þar sem lesarinn fær ýmist staðfestingu á spá sinni og/eða endurskoðar hana eftir því sem lengra er komið.

Orð af orði

Orð af orði hefur það að markmiði að efla læsi og námsárangur. Lögð er áhersla á að efla málumhverfi, kenna aðferðir við að sundurgreina orð, greina merkingu og inntak, tengsl við annað efni, kortleggja aðalatriði og endurbirta eða endurbyggja á fjölbreyttan og heildrænan hátt. Á yngsta stigi skrifa nemendur orð sem þeir safna í „orðabók“ og einnig orð dagsins þar sem valið er orð sem unnið er með. 

Leiðarbókarfærslur

Nemendur gera ,,orðabók“ með ýmsum hugtökum sem tengjast hinum ýmsu fögum.  Hugmyndin er að nemendur hafi eina góða hugtakabók sem hægt er að styðjast við í hverju fagi í frekara námi.

Lestur af töflum, gröfum og þess háttar

Nemendur fá mismunandi töflur með upplýsingum og æfa sig að lesa úr þeim.

 

Lestrarþjálfun

Ekkert eykur færni í lestri eins vel og það að lesa. Eftir því sem nemendur lesa meira og fjölbreyttara efni eykst skilningur þeirra og löngun til að lesa meira.

Rannsóknir hafa sýnt samband milli lesturs barna og námsárangurs. Þeir nemendur sem lesa bækur sér til ánægju standa að mörgu leyti betur að vígi en þeir jafnaldrar sem gera það ekki. OECD bendir á að tengslin milli ánægju af bóklestri og námsárangurs í PISA-prófunum eru svo sterk að börn sem lesa bækur daglega standa að meðaltali einu og hálfu skólaári framar en börn sem ekki stunda daglegan bóklestur. 

Í skóla

Í skóla er mikilvægt að kennari hlusti daglega á upplestur nemenda á yngsta- og miðstigi þar til þeir hafa náð 50% viðmiði fyrir lesfimipróf Lesferils. Þegar því hefur verið náð er hægt að hlusta á þá þrisvar í viku og nýta tímann í annars konar lestrarverkefni. Nemendur á 

unglingastigi lesa þrisvar í viku fyrir starfsfólk skóla þar til 50% viðmiði fyrir lesfimipróf Lesferils hefur verið náð. Yndislestur í skóla á unglingastigi er einu sinni til tvisvar í viku, ein kennslustund í senn.

 

Lestrarsprettir

Í Heiðarskóla er farið í lestrarspretti tvisvar á ári, í desember og apríl. Þá er aukinn tími lagður í yndislestur og árangurinn gjarnan gerður sýnilegur á veggjum skólans. Áhersla er lögð á að skrá lestrartíma nemendanna þannig að þeir sem eru hæglæsir og ljúka e.t.v. ekki mörgum blaðsíðum eða bókum leggja jafn mikið af mörkum og aðrir.

Lestrarvinir

Lestrarvinir eru yngri og eldri nemendur sem hittast nokkrum sinnum á ári, velja sér bók saman og lesa og hlusta á hver á annan og vinna verkefni sem tengjast viðburðum í skólanum.

Upplestrarkeppni/upplestrarhátíð

Á hverju ári er haldin upplestrarkeppni meðal nemenda í 4. og 7. bekk.

Í 7. bekk taka nemendur þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Hefst hún formlega á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og henni lýkur í mars.

Upplestrarhátíðin hjá 4. bekk er haldin í skólanum á vorönn að viðstöddum foreldrum, kennurum, starfsmanni FRÆ og nemendum 3. bekkjar.

Markmið upplestrarkeppni er að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði, að þjálfa nemendur í upplestri, að koma fram fyrir aðra, að hlusta á aðra, efla sjálfstraust og góða og prúðmannlega framkomu.

Skólabókasafn

Skólabókasafnið er mikilvægur áhrifavaldur í lestrarþjálfun nemenda. Það er opið alla virka daga og geta nemendur fengið bækur lánaðar. Eins er góð aðstaða á safninu fyrir nemendur til að lesa bækur og sinna verkefnavinnu. Bókasafnið býr yfir fjölbreyttu lesefni sem hentar getu og þroska hvers nemanda. Á bókasafninu hafa verið settar upp sýningar í tengslum við fjölbreytilega flokka bóka í hverjum mánuði.

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember. Þá eru haldnar menningarstundir á sal þar sem nemendur flytja atriði og er áhersla er lögð á framsögn, sköpun og túlkun.

Bókakynningar

Á hverju skólaári eru rithöfundar fengnir í heimsókn til að lesa upp úr bókum sínum fyrir nemendur á sal.

Sumarlestur

Bókasafn Reykjanesbæjar hefur árlega efnt til Sumarlestrar og kynnt verkefnið í grunnskólunum á vorin. Skólinn hefur hvatt nemendur til að taka þátt í verkefninu.

Heimalestur

Strax við upphaf skólagöngu er nauðsynlegt að barnið sé aðstoðað við að lesa heima. Markmið heimalestrar er að börn auki lesfimi sína og bæti orðaforða og málskilning. Foreldrar eru mikilvægir þátttakendur í lesþjálfun barna sinna og er foreldrum nemenda í 1. bekk leiðbeint um aðferðir og mikilvægi heimalestrar á samskiptadegi við upphaf skólagöngu.

Á yngsta- og miðstigi lesa nemendur daglega í 15 mínútur heima, foreldrar fylgjast með og skrá í lestrardagbók.

Nemendur á unglingastigi lesa daglega í 15 mínútur á dag eða að jafnaði um 30-50 blaðsíður á viku. Allir eiga að lesa 1-2 blaðsíður upphátt og klára svo í hljóði. Foreldrar/forráðamenn fylgjast með lestrinum og skrá hann á sérstakt heimalestursblað. Á heimalestursblaðinu er einnig lestrarskýrsla sem nemendur fylla út. Nemendur skila inn a.m.k. sex heimalestursblöðum á skólaárinu (þremur fyrir áramót og þremur eftir áramót). Heimalesturinn er metinn til námsmats.

Nemendur sem ekki hafa náð lágmarksviðmiði árgangs fá sérstaka lestrarþjálfun í skóla og vel þarf að huga að lestrarþjálfun heima. Raddlestrarviðmið hvers árgangs eru í samræmi við útgefin viðmið Menntamálastofnunar. Þau má sjá neðar í þessu skjali undir skimanir og próf.

 

Sérúrræði

Nemendur sem ekki ná lágmarksviðmiði árgangs í lesfimi eða sýna á annan hátt merki um lestrarörðugleika fá aukna lestrarþjálfun í skóla og/eða vinna samkvæmt einstaklingsmiðaðri áætlun að þeim þáttum sem þarfnast aukinnar þjálfunar. Mikilvæg forsenda þess að þjálfunin beri árangur er öflugt samstarf heimilis og skóla.

Þegar skimunarniðurstöður, sem kennsluráðgjafar fræðsluskrifstofu annast, liggja fyrir fara umsjónarkennarar, sérkennarar og stjórnendur yfir niðurstöðurnar og í framhaldinu eru gerðar áætlanir um þjálfun og/eða úrbætur. Að loknum prófum sem kennarar skólans framkvæma eiga umsjónarkennarar, sérkennarar og deildastjórar samtal um niðurstöðurnar og er þörf fyrir aukna lestrarþjálfun hóps eða einstaklinga metin. Síðan er ákveðið með hvaða hætti lestrarkennslan eða stuðningurinn verður framkvæmdur.

Á yngsta- og miðstigi annast sérkennari einstaklingsmiðaða þjálfun þeirra sem eiga í lestrarvanda eða sýna merki um vanda eftir fyrirlögn skimunar eða prófa. Eru einstaklingsáætlanirnar unnar í nánu samstarfi við umsjónarkennara. Á yngsta stigi annast umsjónarkennari, með aðstoð stuðningsfulltrúa, lestrarþjálfun í skóla og sérstaklega er hugað að þeim nemendum sem eiga í lestrarvanda t.d. með því að gefa þeim aukinn tíma til upplestrar. Á mið- og elsta stigi eru skipulagðir sérstakir lestrarþjálfunartímar stuðningsfulltrúa til handa þeim sem mest þurfa á aukinni þjálfun að halda. Auk þessa gefst nemendum á yngsta- og miðstigi kostur á heimanámsaðstoð eftir skóla en þar lesa nemendur upp fyrir stuðningsfulltrúa.

Lesfimiviðmið hvers árgangs eru í samræmi við útgefin viðmið Menntamálastofnunar.           

 

Lestrargleði

Áhugi og ánægja af lestri eru mikilvægar forsendur góðrar framvindu í lestrarnámi. Ærin ástæða er því til að huga vel að leiðum sem eru líklegar til að auka lestraráhuga og -ánægju. Eftirfarandi hugmyndir geta verið gagnlegar í því sambandi.

  1. Fá þekkta einstaklinga í samfélaginu til að koma inn í skólann til að lesa fyrir nemendur og kynna uppáhaldsbókina sína (t.d. íþrótta- og tónlistarfólk).
  2. Bókaklúbbur. Bekknum skipt í hópa og hver hópur velur sér bók sem þau lesa saman.
  3. Skiptibókasafn. Fá lánaðar bækur sem höfða sérstaklega til stráka s.s. ævisögur íþróttamanna, tónlistarmanna o.s.frv.
  4. Höfundakynningar.
  5. Kósýdagur helgaður lestri.
  6. Kennarar lesi fyrir bekki.
  7. Nemendur lesa bókarbyrjun og búa til framhald t.d. leikræn tjáning.
  8. Nemendur lesa síðustu blaðsíður bóka og búa til sögubyrjun.
  9. Lesa bók – horfa á kvikmynd.
  10. Lesa bók – gera stuttmynd.
  11. Lesa bók – búa til auglýsingu.
  12. Lesa bækur á ensku.
  13. Árgangar paraðir saman og nemendur velja sér bók saman lesa hver fyrir annan.
  14. Grunnskólanemendur lesa fyrir leikskólanemendur.
  15. Æfa framsögn, d. lesa sama ljóð eins og dánarfregn- brandara-auglýsingu.
  16. Fá blaðamenn til að spyrja nemendur um uppáhaldsbókina sína og birta niðurstöður í bæjarblaðið.
  17. Útvarpsútsendingar. Fulltrúar bekkja lesa.
  18. Útvarpsleikrit.
  19. Hafa dagblöð og tímarit aðgengileg á sameiginlegum svæðum skólans.
  20. Leika bókatitla.
  21. Velja setningar úr bókum sem nemendur eru að lesa og skrifa t.d fjórða setning á blaðsíðu fimm. Nemendur geta síðan unnið með setningarnar á ýmsan hátt t.d. sett þær saman í örsögu, búið til framhald.
  22. Fá nemendur til að fjalla um bækur sem þeir lesa á heimasíðu skólans.

Skimanir og próf

Skimanir og próf eru lögð fyrir nemendur til þess að fylgjast með framförum og gera skólanum kleift það mikilvæga verkefni að koma til móts við þarfir hvers og eins. Upplýsingar um niðurstöður skimana og prófa berast til foreldra og forráðamanna ýmist á Mentor eða bréflega.

Ritun

Eins og kemur fram í læsisstefnu Reykjanesbæjar eru lestur og ritun gagnvirkt ferli sem þjálfa þarf samhliða. Ritun er ferli þegar rittákn eru notuð til að skrá niður tungumálið, hugsanir og orð til að hægt sé að endurvekja þau síðar. Hvetjandi ritmálsumhverfi er mikilvægt og veitir barni tækifæri til að fylgjast með öðrum, gera tilraunir og prófa sig áfram. Í aðalnámskrá grunnskóla (2013) er jafnframt fjallað um að læsi hefur lengi verið tengt við þá kunnáttu og færni sem einstaklingar þarfnast til þess að geta fært hugsun sína í ritað mál og skilið almennan texta.

      Þjálfun í ritun á sér stað þvert á námsgreinar en markviss ritunarkennsla fer þó fyrst og fremst fram í íslensku. Í upphafi felst ritunarþjálfun að mestu í því að nemendur læri að draga til stafs, skrifi orð á línu, hafi rétt bil á milli orða, hefji málsgrein á stórum staf og endi hana á punkti. Síðar tekur við einföld sögugerð eða ritun frásagna nemenda af atburðum úr eigin lífi. Smátt og smátt verða slík verkefni viðameiri og þjálfun í uppbyggingu skáldaðrar sögu eða frásagnar með upphafi, miðju og endi fær meira vægi sem og stafsetning. Á miðstigi fást nemendur áfram við frjálsa ritun en stíga jafnframt sín fyrstu skref í því að smíða bókmenntaritgerðir samkvæmt formföstum fyrirmælum um uppbyggingu texta og framsetningu auk þess sem meiri áhersla er lögð á stafsetningu. Á unglingastigi fer fram enn markvissari þjálfun í ritun. Áhersla er lögð á að nemendur nái tökum á að setja eigið efni skýrt og skipulega fram með ýmsum hætti, svo sem með frjálsri ritun eða rökfærslu-, heimilda- og kjörbókaritgerðum. Þeir efla færni sína í að tjá hugmyndir sínar og skoðanir og um leið þjálfast þeir í stafsetningu.

Móttökuáætlanir

Skólabyrjun nemenda í 1. bekk

Nemendur skólahópa á lokaári leikskóla koma í heimsóknir í skólann nokkrum sinnum yfir veturinn ásamt leikskólakennurum. Foreldrum væntanlegra nemenda er boðið á fund að vori þar sem skólastjórnendur kynna skólastarfið og sýna skólann. Nemendur í fyrsta bekk mæta ásamt foreldrum sínum til umsjónarkennara á skólasetningardegi. Daginn eftir eða á fyrsta skóladegi þeirra er athöfn á sal þar sem nemendur og foreldrar eru boðnir velkomnir.

Móttaka nýrra nemenda

Skólastjórnandi boðar nemandann og forráðamenn hans í viðtal þar sem skólinn fær upplýsingar um stöðu nemandans og kynnir fyrir þeim helstu áherslur í starfi skólans. Skólastjórnandi sýnir þeim skólahúsnæðið og kynnir umsjónarkennara og eftir atvikum stuðningsfulltrúa einnig. Forráðamenn skrifa undir skjal sem varðar myndatökur og birtingu myndefnis. Ef nemandi er í 8. – 10. bekk er spjaldtölvusamningur undirritaður.

Nemandinn fær stundaskrá og helstu upplýsingar um skólann. Starfsmenn skólans ásamt skólahjúkrunarfræðingi fá upplýsingar um að nýr nemandi sé byrjaður í skólanum. Nemandinn hefur skólastarf daginn eftir. Umsjónarkennari sér til þess að einhver úr hópi bekkjarfélaga sé honum innan handar fyrstu vikurnar og hjálpar honum að rata um skólann. Umsjónarkennari fylgist vel með líðan nemandans fyrstu vikurnar til að ganga úr skugga um að allt gangi vel. Deildarstjóri aflar frekari upplýsinga um nýja nemandann frá foreldrum og/eða þeim skóla sem hann sótti áður ef þörf er á.

Móttaka og kennsla tvítyngdra og erlendra nemenda

Skólastjórnandi boðar nemandann og forráðamenn hans til samtals þar sem skólinn fær upplýsingar um stöðu nemandans og kynnir fyrir þeim helstu áherslur í starfi skólans. Umsjónarkennari og kennari í íslensku sem annað tungumál taka þátt í samtalinu auk þess sem þjónusta túlks er nýtt ef þörf er á. Hjúkrunarfræðingur kallar eftir heilbrigðisvottorði og bólusetningarvottorði. Vottorð um læknisskoðun þarf frá börnum sem voru búsett utan Evrópusambandsins.

Í framhaldi af móttökusamtalinu metur kennari í íslensku sem annað tungumál, umsjónarkennari og deildarstjóri stöðu nemandans í námi. Á grundvelli þeirra upplýsinga er unnin einstaklingsnámskrá. Ákveðinn er tímafjölda í íslensku sem öðru tungumáli fyrir nemandann og miðast hann við mat á stöðu nemandans. Deildarstjóri boðar þá starfsmenn sem koma að nemandanum til stöðu- og samráðsfundar reglulega. Að öðru leyti fer móttaka nemandans fram á sama hátt og hjá öðrum nýjum nemendum skólans.

Móttaka nemenda með sérþarfir

Nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um

málefni fatlaðra nr. 59/1992, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.

Móttaka nemenda með sérþarfir eru einstaklingsmiðaðar og skiptir þar máli hvers eðlis sérþarfirnar eru. Haldinn er fundur með foreldrum/forráðamönnum og þeim fagaðilum sem koma að þjónustu við nemandann. Þar fær skólinn upplýsingar um stöðu nemandans. Í mörgum tilfellum er ástæða til að mynda teymi fagfólks, sem hittist a.m.k. tvisvar á ári eða eftir þörfum, til að meta stöðuna og þá þjónustu sem nemandinn þarf. Hvert teymi er sniðið eftir þörfum barnsins og þeir fagaðilar mynda teymið sem tengjast málum þess.

Þroskaþjálfi ásamt umsjónarkennara og deildarstjóra gera einstaklingsnámskrá og stundaskrá í samráði við foreldra og eftir atvikum nemandann sjálfan. Miðast hvort tveggja við getu og þarfir nemandans.

Þroskaþjálfi hefur umsjón með hjálpartækjum nemanda og sér um viðhald og stillingar. Hann sér einnig um samskipti við fagaðila svo sem sjúkraþjálfa og tengiliði Greiningarstöðvar.

Fundur vegna barna með sérþarfir sem eru að hefja skólagöngu í 1. bekk er haldinn að vori áður en formleg skólaganga hefst, þegar við á. Fundinn sitja deildarstjóri leikskóla, deildarstjóri yngra stigs og þroskaþjálfi. Umsjónarkennari situr einnig fundinn ef búið er að taka ákvörðun um hver hann verður. Skipulagðar eru heimsóknir á leikskóla og skóla eftir þörfum hvers nemanda. Aðlögun nemandans í skólann fyrir skólabyrjun fer fram í samstarfi við þroskaþjálfa og deildarstjóra yngra stigs.

Tilfærsluáætlun vegna nemenda með sérþarfir

Samkvæmt 17. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla er gert ráð fyrir að kennarar og aðrir fagaðilar, ásamt nemendum og foreldrum/forsjáraðilum þeirra, taki þátt í mótun og gerð tilfærsluáætlunar sem byggir á einstaklingsmiðaðri áætlun. Tilgangurinn með tilfærsluáætlun er að miðla upplýsingum um skólagöngu nemenda, núverandi aðstæður og stöðu og áform þeirra um frekara nám, á milli skólastiga. Undirbúningur tilfærsluáætlunar hefst að öllu jöfnu í 9. bekk. Tilfærsluáætlanir eru einstaklingsmiðaðar og eru mismunandi að gerð og umfangi. Þær eru unnar af deildarstjóra unglingastigs, umsjónarkennara, sérkennara, þroskaþjálfa og náms- og starfsráðgjafa, eftir eðli máls.

Uppbyggingarstefnan

Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga er hugmyndafræði eða stefna sem við notum í samskipta- og agamálum. Uppeldi til ábyrgðar leggur áherslu á kennslu sjálfsaga, sjálfsstjórn og uppbyggilegra samskipta. Stefnan hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum, spurt er hvernig manneskjur viljum við vera, hver hlutverk okkar eru og hvaða þarfir liggja að baki hegðunar okkar. Hún skapar aðstæður fyrir einstaklinginn til að geta leiðrétt og bætt fyrir mistök sín, gert betur og snúið síðan aftur til hópsins með aukið sjálfstraust.

Í uppbyggingu sjálfsaga er lögð áhersla á jákvæð samskipti fremur en reglur, ábyrgð fremur en blinda hlýðni og sjálfsvirðingu fremur en umbun. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn hugsi áður en hann framkvæmir og bregðist rétt við aðstæðum.

Kennari og nemendur ákveða í sameiningu hvaða lífsgildi þeir vilja hafa að leiðarljósi í bekknum með gerð bekkjarsáttmála. Þeir einbeita sér síðan að því að finna út hvernig hægt er að hafa grundvallaratriði gildanna í heiðri. Nemendur og starfsfólk koma sér saman um hlutverk beggja með verkefnavinnu sem kölluð er Mitt og þitt hlutverk. Þegar kennari getur fækkað afskiptum af nemendum fá þeir aukið frelsi og verða viljugri til að hlusta og taka eftir þegar mikið liggur við í námi og samskiptum.

Árlega er svokallaður Uppbyggingastefnudagur en þá vinna allir nemendur skólans verkefni í anda uppbyggingarstefnunnar sem miða að því að styrkja nemendur sem einstaklinga og sem hóp.

Hvað er uppeldi til ábyrgðar?

  • Leið til að ýta undir jákvæð samskipti.
  • Miðar að því að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga og læra af mistökum í samskiptum.
  • Byggir á að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.
  • Ýtir undir hæfni til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.
  • Gefur innri styrk og aukið sjálfstraust.
  • Eflir nemendur í sjálfstæðri hugsun og að þeir þroski með sér jákvætt gildismat.

Grunnþarfir

Grunnþarfirnar fimm eru undirstöðuþáttur í uppbyggingu. Það að þekkja þarfir sínar er grundvöllur þess að maður skilji hegðun sína og geti breytt henni til betri vegar.

Öll hegðun stafar af því að við erum að reyna að mæta einhverri af þörfunum. Þær eru missterkar hjá fólki, sem m.a. gerir það að verkum að við erum öll ólík.

Stefnan á uppruna sinn í Kanada og hefur upphafsmaður aðferðarinnar Diane Gossen þróað hana síðustu 20 ár. Aðferðin er þróuð út frá hugmyndum dr. William Glasser um gæðaskólann (Quality School) og sjálfsstjórnarkenningu hans (Control Theory/Choice Theory).

Samskipta og eineltisáætlun

Einelti og annað ofbeldi er ekki undir neinum kringumstæðum liðið í Heiðarskóla. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti,  stöðva og leysa slík mál á farsælan hátt. Heiðarskóli á að vera öruggur staður þar sem starfið mótast af virðingu og vináttu.

Heiðarskóli miðar að því að skapa jákvætt og uppbyggjandi umhverfi þar sem öllum líður vel. Samskiptaáætlun skólans miðar að því að fyrirbyggja óæskilega hegðun og taka á samskiptamálum þegar þau koma upp. Allt starfsfólk skólans tekur þátt í vinnunni og leggur sitt af mörkum við að byggja upp félagslega sterkt samfélag þar sem eðlileg jákvæð samskipti fara fram.

Þegar upp kemur samskiptavandi á milli nemenda er mikilvægt að heimili og skóli vinni saman að lausn mála og uppbyggingu nemenda.

Teymi um samskiptavanda

Í teyminu sitja námsráðgjafi, deildastjórar og kennari. Deildarstjóri eldra stigs er umsjónarmaður teymis og er faglegur leiðbeinandi. Umsjónarmaður teymis er með sýn yfir stöðu bekkja skólans og passar upp á að tengslakannanir séu lagðar fyrir alla bekki, að bekkjarfundir séu haldnir reglulega af umsjónarkennurum og að einstaklingsviðtöl á unglingastigi séu tekin einu sinni á hverri önn. Umsjónarkennari er hafður utan við vinnslu á samskiptamálum til að vera hlutlaus í málinu og geta stutt við sína nemendur.

Hlutverk teymisins er að fara yfir tilkynningarblöð um samskiptavanda og sjá um eftirfylgni ef grunur um einelti kemur upp. Hlutverk teymis er einnig að upplýsa annað starfsfólk, skiptast á skoðunum um samskiptavandann og/eða einelti og hvernig hægt er að stuðla að jákvæðu skólaumhverfi. Teymið hittist reglulega og fer yfir þau mál sem eru í gangi og framvindu þeirra.

Skólinn og starfsmenn hans

Í Heiðarskóla er unnið með Uppbyggingu sjálfsaga. Í skólanum berum við virðingu fyrir sjálfum okkur, öðru fólki og öllu í kring. Við vinnum alltaf að því að gera okkar besta. Sjálfstjórnarkenningin sem uppeldi til ábyrgðar byggir á kennir okkur að aðeins er hægt að stjórna sjálfum sér. Allt starfsfólk Heiðarskóla á að þekkja samskiptaáætlun skólans og taka þátt í þeirri vinnu sem henni tengist. Árlega eru haldnir fundir þar sem farið er yfir áhersluþætti sem máli skipta, upprifjun starfsmanna og nýjum starfsmönnum kynnt áætlunin og stefnu skólans. Starfsfólk Heiðarskóla á að geta beitt íhlutun ef það verður vitni af samskiptavanda eða óæskilegri hegðun og láta sig málið varða.

Starfsfólk á að geta metið stöðuna hverju sinni og geta tekið á málum eftir eðli þeirra og er ætlað að leita til réttra aðila ef þörf þykir (námsráðgjafa, umsjónarkennara, foreldra, skólastjórnenda o.s.frv.). Meginmarkmiðið er vitundarvakning allra starfsmanna fyrir því hvað samskiptavandi/einelti er, hvernig það birtist og samræming á viðbrögðum við því.

Nemendur

Unnið er með þarfir nemenda í anda Uppeldis til ábyrgðar og þeim kennt að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Unnið er með lífsgildi og í hverjum bekk er gerður bekkjarsáttmáli. Með því að vinna með lífsgildin og semja bekkjarsáttmálann er kennarinn að gera nemendur meðvitaðri um tilfinningar sínar og viðbrögð við þeim. Þeir læra að setja sig í spor annarra, sjá vandamál í nýju ljósi þannig að sjálfsþekking og félagsfærni þeirra eykst. Þeir verða færari í því að vinna úr árekstrum, hjálpast að við að finna lausnir og leita sér hjálpar hjá starfsfólki skólans.

Þrátt fyrir að hér sé öll áhersla lögð á að að kenna börnunum sjálfsaga, að bera ábyrgð á sinni eigin hegðun, verður kennarinn að hafa úrræði þegar út af bregður og nemendur sýna óæskilega eða óábyrga hegðun af einhverju tagi, sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Þá flytur hann sig niður á reglustjórn, en heldur ávallt opinni leið til uppbyggingar.

Á hverju skólaári er farið yfir bekkjarreglur gegn einelti og eiga nemendur að ræða reglurnar og þýðingu þeirra fyrir bekkinn. Umsjónakennarar hafa reglulega bekkjarfundi þar sem m.a. er rætt um líðan, samskipti og hegðun. Fundirnir eiga að stuðla að samstöðu nemenda gegn einelti. Nemendur eru þjálfaðir í að tjá eigin tilfinningar og sjónarmið. Hægt er að nota hlutverkaleiki og klípusögur til að auka upplifun nemenda og skilning á samskiptavanda/einelti og til að hvetja þá til að bregðast við því. Námsráðgjafi leggur fyrir tengslakannanir í bekkjunum tvisvar á skólaári og oftar ef þörf er á. Einstaklingsviðtöl eru tekin einu sinni á önn á unglingastigi, þar sem farið er yfir spurningalista um bekkjarbrag og líðan. Mikil áhersla er á að nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýna hverjum öðrum tillitssemi, sveigjanleika og umburðarlyndi.

Allir nemendur Heiðarskóla eiga að:

  1. Þekkja bekkjareglur gegn einelti.
  2. Taka þátt í bekkjarfundum og virða fundarreglur.
  3. Leggjast á eitt að uppræta samskiptavanda og einelti.

Heimili

Starfsfólk Heiðarskóla leitar eftir samstarfi heimila við að sporna gegn samskiptavanda og andfélagslegri hegðun. Leitað er eftir því að foreldrar:

  1. Eigi góð og virk samskipti við foreldra bekkjarfélaga barna sinna.
  2. Ræði við börnin sín um samskiptavenjur
  3. Taki þátt í úrlausn mála.
  4. Geri tilraun til að taka á samskipta og/eða eineltismálum sem upp koma heima eða utan skólastarfsins.

Skilgreiningar og verkefni

Samskiptavandi

Samskiptavandi er þegar tveir eða fleiri einstaklingar eiga í neikvæðum samskiptum sín á milli í styttri eða lengri tíma. Neikvæðu samskiptin eiga jafnt yfir báða aðila og vandinn getur verið leystur með samtali við báða aðila saman. Samskipti sem þessi geta þróast yfir í einelti.

Einelti

Við tölum um einelti þegar einstaklingur verður aftur og aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti eins eða fleiri og viðkomandi á erfitt með að verja sig. Um getur verið að ræða beint einelti með höggum, spörkum, blótsyrðum, niðurlægjandi og háðslegum athugasemdum eða hótunum. Það er líka einelti ef stríðni er endurtekin og sá sem stríðnin beinist að hefur sýnt að honum mislíki. Óbeint einelti getur verið jafn slæmt. Með óbeinu einelti er átt við að maður verði útilokaður frá félagahópnum, verði fyrir illu umtali eða að aðrir komi í veg fyrir að maður eignist vini. Rafrænt einelti er stór þáttur af birtingarmynd eineltis og þurfa foreldrar að fylgjast sérstaklega með tölvu- og símanotkun og samskiptum barna sinna í gegnum veraldarvefinn.

Skólinn einn og sér mun þó aldrei geta tekið á þeirri vanlíðan sem fylgir því að vera lagður í einelti eða stuðlað að uppbyggingu samfélags þar sem einelti er ekki samþykkt. Hér verða heimilin og samfélagið allt einnig að leggja sitt af mörkum og því leitast Heiðarskóli eftir því að eiga gott samstarf við sitt nánasta umhverfi og þá sem samfélagið móta. Einelti er vandamál sem krefst samvinnu allra þessara aðila ef árangur á að nást.

 Óæskileg hegðun

Með samskiptaáætluninni er lögð áhersla á að byggja upp jákvætt samfélag þar sem einstaklingar bera virðingu hver fyrir öðrum. Óæskileg hegðun er sú hegðun sem bregður út frá félagslegum gildum og einstaklingar vanvirða rétt annarra. Einnig er átt við verknaði sem ekki samræmast viðurkenndri hegðun og þeim lögum sem gilda í samfélaginu.

 Sá sem verður fyrir einelti

Einstaklingur sem lagður er í einelti þarf hjálp og stuðning við að stöðva eineltið og leiðsögn til að öðlast bætta sjálfsmynd.

Sá sem leggur í einelti

Stöðva þarf andfélagslega hegðun þeirra sem leggja í einelti og aðstoða þá með bættum sjálfsaga til bættrar hegðunar. Hér getur íhlutun verið misjöfn og fer eftir eðli mála hverju sinni.

Bekkjarreglur

Allir nemendur Heiðarskóla eiga að þekkja og tileinka sér bekkjarreglur. Bekkjarreglurnar eru:

  1. Við komum fram við hvert annað af kurteisi og virðingu.
  2. Við látum líðan annarra í bekknum skipta okkur máli.
  3. Allir tilheyra hópnum og við fögnum fjölbreytileikanum í hverjum hópi.
  4. Við segjum fullorðnum frá ef við teljum að einhverjum líði illa, sé útundan eða ef einhver er að leggja í einelti.

Bekkjarfundir og önnur forvarnarvinna

Bekkjarfundir eru haldnir reglulega.  Á bekkjarfundum eru m.a. ræddar aðferðir til að sporna við og fyrirbyggja einelti, andfélagslega hegðun og aðrar aðgerðir til að bæta samskipti. Bekkjarfundaformið er hægt að nota til að bæta almennan bekkjaranda og á þeim er hægt að leggja fram hin ýmsu mál til umræðu.

Fundareglur

Ætlast er til þess að fundareglur séu virtar þegar bekkjarfundir og aðrir fundir eru haldnir. Með því að virða reglurnar erum við um leið að bera virðingu hvert fyrir öðru. Á þetta við um starfsfólk og nemendur.

  1. Rétta upp hönd ef þú vilt fá orðið.
  2. Allir hafa leyfi til að tjá sig.
  3. Við nefnum ekki nöfn.
  4. Við leyfum öðrum að ljúka máli sínu án þess að grípa fram í (með nokkrum eðlilegum undantekningum).
  5. Við getum verið ósammála án þess að blóta eða vera orðljót.

Leikjavinir - leikir í frímínútum

Leikjavinir er verkefni sem umsjónarmaður frístundar vinnur í samstarfi með nemendum í 7. bekk og umsjónarkennurum þeirra. Verkefnið hefur það markmið að efla þátttöku allra í leikjum í frímínútum, auka ánægju nemenda og draga úr stríðni ásamt því að styrkja ábyrgðartilfinningu ungmenna.  Þeir nemendur sem taka þátt hverju sinni skiptast á að standa fyrir leikjum þrisvar sinnum í viku allt skólaárið.

Sjálfsstyrkingarnámskeið

Námsráðgjafi stendur fyrir sjálfsstyrkingarnámskeiði fyrir nemendur í 6. bekk sem byggir á aðferð Baujunnar. Markmiðið er að nemendur efli sjálfsöryggi sitt í gegnum tilfinningavinnu og slökunaröndun. Fjórir til sex nemendur eru saman á námskeiðinu sem kennt er einu sinni í viku í sex vikur.

Bekkjar-ART fer fram í 5. bekk og hafa sérstakir ART-þjálfarar umsjón með námskeiðunum. Þau standa yfir í 8 vikur og eru þrír ART tímar í stundatöflu á viku á því tímabili. ART þjálfun skiptist upp í þrjá þætti: Félagsfærniþjálfun, reiðistjórnun og efling siðgæðisþroska.

Hlutverkaleikir, myndbönd og klípusögur

Hlutverkaleiki, myndbönd og klípusögur er hægt að nota til að auka upplifun nemenda, skilning á samskiptavanda/einelti og til að hvetja þá til að bregðast við því. Í hlutverkaleik bregða nemendur sér í hlutverk í fyrirfram ákveðnum ímynduðum aðstæðum. Þessi aðferð gefur nemendum möguleika á að upplifa ólíkar aðstæður og setja sig í spor annarra.

Í eineltismyndböndum eru sýndar margar birtingarmyndir eineltis, nemendur ræða saman, finna lausnir og gera verkefni út frá myndböndum.

Tengslakannanir

Námsráðgjafi leggur fyrir tengslakannanir í bekkjunum tvisvar á skólaári og oftar ef við á. Ef upp kemur grunur um að samskiptavandi eigi sér stað er alltaf hægt að óska eftir að lögð verði fyrir tengslakönnun sem gæti gefið vísbendingar um stöðu hópsins. Námsráðgjafi fer yfir kannanir til að meta félagslega líðan og stöðu innan bekkjarins.

Eineltishringur

Eineltishringurinn er útskýringarmynd með orðskýringum. Eineltishringinn eiga allir nemendur að þekkja og geta staðsett sjálfan sig innan hans.

Skólapúlsinn

Heiðarskóli leggur fyrir nemendur í 6. -10. bekk könnun Skólapúlsins fjórum til fimm sinnum á skólaárinu. Þeir sem taka þátt í Skólapúlsinum hverju sinni njóta nafnleyndar. Könnunin er unnin í tölvustofu í litlum hópum. Umsjónarmaður teymis um samskiptavanda skoðar niðurstöðurnar eftir hverja fyrirlögn og fer yfir það með teyminu sem betur má fara í hverjum nemendahópi eða rými fyrir sig. Upplýsingarnar eru nýttar til að vinna að úrbótaáætlun skólans ár hvert.

 

Samskiptavandi/grunur um einelti – tilkynningar og úrvinnsluferli

Mikilvægt er að allir sem hafa grun eða vitneskju um samskiptavanda tilkynni það strax til skólans svo að hægt sé að vinna markvisst að því að stöðva það. Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum. Ávallt skal gæta trúnaðar í meðferð eineltismála. Ef vitneskja um samskiptavanda berst til skólans, mun starfsfólk skólans vinna samkvæmt eftirfarandi ferillýsingu:

Skráningar og varðveisla gagna

Öll mál sem upp koma er varða ákveðna einstaklinga eru skráð á tilkynningarblað og verkskjal. Gæta skal fyllsta trúnaðar við skráningu. Ef um er að ræða sérstaka meðhöndlun mála er berast aðgerðarteymi fylgir skýrsla nemanda og geymist hún í læstu rafrænu skjalakerfi.

      Áætlun þessi var yfirfarin 2022.

Jafnrétti og mannréttindi

Jafnréttisáætlunin er gerð í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 og jafnréttisstefnu Reykjanesbæjar sem samþykkt var í bæjarstjórn 3. desember 2019 og menntastefnu Reykjanesbæjar. 

Áætlunin nær til jafnréttis kynjanna meðal starfsfólks og meðal nemenda. Jafnréttisáætlun þessi er hluti af skólanámskrá Heiðarskóla.

Inngangur:

Stefna Heiðarskóla er að allir, nemendur og starfsmenn, njóti jafns réttar óháð kynferði, kynþætti, trú, kynhneigð eða líkamlegri- og/eða andlegri fötlun. Skólastarf í anda jafnréttis á einnig að taka mið af mismunandi námshæfileikum nemenda og miða að því að styrkja og efla hvern og einn til framfara og þroska. Starfið á einnig að mótast af metnaði og hvatningu til sjálfstæðra verka og aukinnar víðsýni þar sem hver og einn fær notið sín á eigin forsendum.

Áhersla er lögð á að nemendur og starfsfólk skólans hafi jafnan rétt til að hafa áhrif á skólastarfið, stefnumótun og ákvarðanatöku og skal reynt að tryggja það með sem bestum hætti.

Jafnréttisáætlun skólans er kynnt fyrir öllum þeim sem að skólastarfinu koma og áætlunina má nálgast á heimasíðu skólans.

Ábyrgð

Skólastjóri ber ábyrgð á jafnréttisáætlun skólans en skipar jafnréttisnefnd sem sér um endurskoðun og viðhald jafnréttisáætlunarinnar. Í aðgerðaráætlun kemur fram hvernig jafnréttisáætlun er viðhaldið og hver/hverjir bera ábyrgð á einstökum þáttum hennar og hvenær hver þáttur skal unninn.

Jafnréttisnefnd

Hlutverk nefndarinnar er:

  • að fylgja því eftir að unnið sé samkvæmt jafnréttisáætlun skólans
  • endurskoða jafnréttisáætlun skólans árlega og gera viðeigandi breytingar
  • vinna og halda utan um hugmyndabanka um jafnréttiskennslu.

 

Starfsfólk

Þess skal gætt í starfsháttum skólans og daglegri umgengni við starfsfólk að þeim sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis.  Leitast skal við að mæta þörfum beggja kynja í skólastarfinu.

Störf

Meirihluti starfsfólks Heiðarskóla eru konur. Við nýráðningar verður leitast við að jafna kynjahlutfallið. Mikilvægt er að alltaf sé gengið úr skugga um að hæfileikar og menntun beggja kynja nýtist þegar ákvarðanir eru teknar.

Hvernig: Gerð verði samantekt á kynjahlutfalli starfsfólks skólans eftir starfsheitum.

Hver: Skólastjóri, jafnréttisnefnd

Hvenær:  Fyrir lok skólaárs 2021-2022 og þriðja hvert ár eftir það.

Í samræmi við jafnréttisstefnu Reykjanesbæjar skulu öll störf auglýst.

Hvernig: Karlar jafnt sem konur verða hvött til að sækja um lausar stöður við skólann. Komi tveir jafnhæfir umsækjendur til greina skal stefna að því að ráða einstakling af því kyni sem hallar á innan skólans, deildarinnar, kennslugreinarinnar eða stigsins sem um ræðir. Við sérstakar aðstæður t.d. vegna kyns nemanda sem þarf stuðning eða sérstaka aðstoð, getur verið nauðsynlegt að auglýsa og ráða einstakling af ákveðnu kyni til starfa. 

Hver: Skólastjóri

Hvenær: Þegar við á.

 

Starfsþjálfun og endurmenntun

Öllum starfsmönnum skólans skal standa til boða að sækja sér endurmenntun.  Bæði kyn skulu hafa jafnan aðgang að fjölbreyttri endurmenntun.

 Hvernig:  Við gerð starfsþróunaráætlana skal þess gætt að kynjunum sé ekki mismunað og tilboð séu við hæfi beggja kynja. Starfsfólki skal standa til boða fræðsla um jafnréttismál.

Hver: Aðstoðarskólastjóri

Hvenær: Við gerð starfsþróunaráætlunar skólans.

 

Laun

Nauðsynlegt er að fylgjast með launum starfsmanna út frá kynjasjónarmiði svo að ekki sé um óútskýrðan launamun að ræða milli kynjanna í skólanum.

Hvernig:  Gerð verður athugun á launum starfsmanna með áherslu á jafnan rétt kynjanna.

Hver: Skólastjóri, starfsþróunarstjóri og launafulltrúi.

Hvenær: Fyrir lok skólaárs 2021-2022.

 

Kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og einelti

Hvorki kynbundin áreitni né kynferðisleg áreitni skal liðin í skólanum. Starfsmenn eiga alls ekki að sætta sig við kynbundna áreitni en hún getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði.

Hvernig: Með fræðslu varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni.

Hver:  Skólastjórn og trúnaðarmenn.

Hvenær:  Ár hvert skal inna starfsmenn, í starfsmannasamtali, eftir upplifun sinni varðandi kynferðislega eða kynbundna áreitni. Í starfsmannakönnun Skólapúlsins sem tekur til innra mats skólans auk sérstakrar fræðslu sem fara skal fram eigi sjaldnar en annað hvert ár.

 

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Nauðsynlegar ráðstafanir eru gerðar til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Hvernig: Með því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og með því að taka tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífsins. Einnig með því að auðvelda starfsmönnum að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlofs eða leyfi úr vinnu.

Hver:  Skólastjóri

Hvenær:  Þegar við á.

  

Nemendur

Þess skal gætt í öllum starfsháttum skólans og í daglegri umgengni við nemendur að þeim sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis. Leitast skal við að mæta þörfum beggja kynja í skólastarfinu.

 

Fræðsla

Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Unnið er samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla um jafnréttismál og einn af sex grunnþáttum menntunar, jafnrétti, er hafður í öndvegi í skólastarfinu.

Hvernig:  Heiðarskóli starfar samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Markmið er lúta að kennslu í jafnréttismálum sem eru tilgreind í mörgum greinum og skulu kennarar taka mið af því.

Hver: Kennarar

Hvenær:  Þegar við á, en markmið og kennslutilhögun er lúta að kennslu í jafnréttismálum eru sett fram í bekkjarnámskrám að hausti og endurskoðuð að vori.

 

Námsgögn

Kennsla og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Hvernig:  Gæta skal þess að nota ekki gagnrýnislaust námsefni sem sýnir staðlaðar kynjaímyndir og/eða mismunar kynjunum að einhverju leyti. Menntamálastofnun hefur útbúið gátlista, þar sem m.a. er horft til kynjasjónarmiða, sem öllum höfundum og öðrum sem vinna fyrir stofnunina er gert að hafa að leiðarljósi.

Hver:  Stjórnendur og kennarar.

Hvenær:  Þegar við á.

 

Náms- og starfsfræðsla

Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólanum skulu drengir og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf. 

Hvernig: Nemendur í 8. og 10. bekk fara á starfsgreinakynningu sem haldin er árlega í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Námsráðgjafi kynnir valgreinar næsta skólaárs fyrir nemendum frá 7. – 9. bekk ásamt því að standa fyrir heimsókn og kynningu á Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Lögð verður áhersla á að kynningar verði hlutlausar út frá kyni.

Hver:  Náms- og starfsráðgjafi, kennarar og skólastjórnendur

Hvenær:  Þegar við á yfir skólaárið.

Kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni

Nemendur fái fræðslu um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi. Nemendum verði ætíð ljóst hvert þeir geti leitað eftir aðstoð komi slík mál upp.

Hvernig: Fræðsla til nemenda um kynþroska, kynlíf og siðferði í samskiptum kynjanna verði samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og skólanámskrá Heiðarskóla. Á hverju hausti verður farið yfir með nemendum hvað getur falist í kynbundnu áreiti í samskiptum nemenda. Nemendum verður einnig kynnt hvert þeir geti leitað.

Hver: Skólastjórnendur, kennarar og hjúkrunarfræðingur skólans.

Hvenær: Yfir skólaárið þegar við á.

 

Telji starfsmaður/nemandi á sér brotið samkvæmt áætlun þessari og lausn finnst ekki innan skólans getur viðkomandi leitað til starfsþróunarstjóra Reykjanesbæjar.

 

Endurskoðun

Endurskoða skal jafnréttisáætlun þessa árlega. Næsta endurskoðun fer fram á skólaárinu 2023-2024.

 

Jafnréttisáætlun Heiðarskóla byggir á:

  • Lögum um grunnskóla nr. 91/2008
  • Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008
  • Aðalnámskrá grunnskóla, 2013
  • Ritröð um grunnþætti menntunar, Jafnrétti, 2013
  • Skólanámskrá Heiðarskóla; http://www.heidarskoli.is/skolinn/skolanamskra
  • Menntastefnu Reykjanesbæjar 2016

https://www.reykjanesbaer.is/static/files/pdf_skjol_allir/rnb-menntastefna-2016-v10.pdf

Umhverfisstefna

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla (2013) er ekki gert ráð fyrir umhverfismennt sem stökum námsþætti heldur eiga skólar að útfæra umhverfismennt í skólanámskrá.

Heiðarskóli stefnir að því að gera nemendur sína meðvitaða um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir umhverfinu og leggur áherslu á að upplýsa nemendur og starfsfólk um að þeir geti lagt sitt af mörkum við að vernda umhverfið og náttúruna. Nemendur og starfsfólk vinna saman að því að halda skólalóð þrifalegri.

Við einsetjum okkur að:

  • bera virðingu fyrir umhverfinu
  • nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að endurnýta og endurvinna ýmislegt sem annars færi í ruslið
  • nýta vel pappír og önnur efni
  • draga úr notkun á einnota vörum og vörum í einnota umbúðum
  • flokka sorp t.d. pappír, rafhlöður, dósir, plast og fernur
  • ganga vel um bæði úti og inni
  • nota  rafræn boðskipti frekar en pappír, sé þess kostur
  • spara rafmagn og vatn
  • velja umhverfisvænni vörur.

Áfallaáætlun

Áfallaáætlun er áætlun um viðeigandi viðbrögð þegar áföll verða, svo sem bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu eða sorgarviðbrögð. 

Áætlunin segir til um hver sinnir hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig ber að bregðast við. Taka skal tillit til óska fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. 

Skólastjóri eða stangengill hans kallar saman áfallaráð og stýrir vinnu þess og skipulagi. 

 

Áfallaráð 

Í áfallaráði hvers grunnskóla sitja að öllu jöfnu eftirtaldir aðilar: 

  • Skólastjóri 
  • Aðstoðarskólastjóri 
  • Deildarstjórar 
  • Námsráðgjafi 

Þeim innan handar er stjórnendateymi fræðsluskrifstofu og prestur. Hver grunnskóli ákveður hverjir sitja í sínu áfallaráði. 

Hlutverk áfallaráðs 

Í megin atriðum skal hlutverk áfallaráðsins vera að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við þegar áföll verða. Áfallaráð sér til þess að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Einnig þarf það að sjá til þess að starfsfólk sem veitir áfallahjálp fái stuðning og hjálp. 

Allir sem sitja í áfallaráði þurfa að vera upplýstir um hlutverk sitt í ráðinu. 

Áfallaráð skal funda þegar vitneskja berst um áfall og skólastjóri metur það mikilvægt að kalla ráðið saman. 

Viðbrögð vegna hættuástands

Ef upp kemur hættuástand í eða við skólann er mikilvægt að láta vita hvar hættan er, með því að hringja í 112. Einnig skal hringja í skrifstofustjóra og/eða stjórnendur eða láta þá vita á annan hátt.

Viðbrögð kalla á að starfsfólk og nemendur leggi sjálfstætt mat á hvað hægt er að gera og hvað ætti að gera fyrst, og hafa í huga það meginhlutverk að vernda og komast burt úr hættulegum aðstæðum.

Starfsfólk og nemendur reyna eftir fremsta megni að koma sér burt úr aðstæðum. Starfsmaður setur sig í samband við lögreglu og stjórnendur skólans til að ákvarða hvort eigi að fara í rýmingu á byggingunni eða halda kyrru fyrir og læsa skólastofum og öðrum rýmum. Starfsfólk ætti að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort læsa skuli eða yfirgefa rýmið ef um lífshættulegar aðstæður er að ræða.

Ef skotárás eða árás með eggvopni er yfirstandandi skal aðeins rýma ef staðsetning geranda er þekkt og útganga er auðveld og örugg. Ef staðsetning geranda eða aðstæður leyfa ekki rýmingu, þá skal læsa rýminu, slökkva ljós, fela sig og hafa hljótt.

Þegar hættuástandi er yfirstaðið eða ef öruggt þykir þá skal meta hvort einhver er meiddur, alvarlega slasaður eða særður og gera viðeigandi ráðstafanir.

Áfallaáætlun skólans virkjuð.

Öryggis- og slysavarnir

Slys eða veikindi

Slasist nemandi í skólanum veita hjúkrunarfræðingur, kennarar eða starfsfólk skólans skyndihjálp. Þurfi nemandinn að fara á slysadeild er æskilegt að foreldri fari sjálft með hann. Ef ekki næst í foreldra fer starfsmaður með nemandann. Óhöpp og slys nemenda eru tilkynnt foreldrum eins fljótt og auðið er. Því er nauðsynlegt að skólaritari hafi símanúmer foreldra; heimasíma, farsímanúmer og símanúmer á vinnustað. Sá aðili sem fer með barn á slysadeild þarf að nálgast beiðni hjá ritara til afhendingar á heilsugæslustöð. Ef nemandi er með alvarlegan sjúkdóm er nauðsynlegt að láta skólaheilsugæsluna vita af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingasjúkdóma.

Starfsmenn skólans fara reglulega á skyndihjálparnámskeið.

Umferðaröryggi

Í mörgum árgöngum skólans fer fram umferðarfræðsla (sjá bekkjarnámskrár).

Nemendur eru hvattir til að koma gangandi í skólann og bent er á nauðsyn þess að þeir séu með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.

Nauðsynlegt er að foreldrar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann, hvetji þau til að nota gangbrautir og bendi þeim á slysagildrur sem ber að varast.

Mikil umferð er oft við skólann á morgnana og því er nauðsynlegt að fyllstu varúðar sé gætt við akstur við skólann. Foreldrar sem aka börnum sínum í skólann eru beðnir um að nota hringtorgið við aðalinngang skólans vegna slysahættu sem getur skapast við hliðarinnganga.

 Ábyrgð á persónulegum eigum nemenda

Skólinn tekur ekki ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum nemenda, nema hægt sé að rekja hana til starfsfólks eða vanbúnaðar skólahúsnæðis. Við biðjum foreldra/forráðamenn að sjá til þess að nemendur komi ekki með peninga eða óþarfa hluti í skólann. Skólinn hvetur foreldra/forráðamenn til að merkja vel allan fatnað nemenda, töskur og ýmsar aðrar eigur.

Tryggingar

Öll skólabörn í Reykjanesbæ eru tryggð hjá Tryggingarmiðstöðinni (TM) hvort sem það eru líf-örorku eða slysatryggingar á meðan þau eru á ábyrgð okkar á skólatímum s.s. á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Gera þarf skýrslu um þau óhöpp sem upp kunna að koma og senda TM til varðveislu. Foreldrum er bent á að senda reikninga sem verða til vegna slysa til TM sem sér um að greiða sjúkrakostnað enda skýrslan í þeirra höndum.

Áfengis- og fíknivarnir

Áfengis- og fíknivarnir taka til almennra forvarna s.s. gagnvart tóbaki, nikótíni, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn. Heiðarskóli skal vera vímuefnalaus. Nemendum er óheimilt að nota tóbak, veip, nikótínvörur, áfengi eða önnur fíkniefni á skólatíma eða á viðburðum á vegum skólans.   Skólinn fylgir lögum um tóbaksvarnir sem felur í sér að nemendum, starfsfólki, foreldrum og gestum er ekki heimilt að nota slík efni á skólasvæðinu.

Heiðarskóla ber skylda til að fræða nemendur og miðla upplýsingum varðandi fíkn og fíknivanda. Markmiðið er að draga úr fjölda þeirra sem ánetjast reykingum, vímuefnum eða leiðast út í fíknihegðun. Fræðslan fer fram með fjölbreyttum hætti og koma margir aðilar að henni, svo sem kennarar, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og utanaðkomandi aðilar sem eru sérfræðingar á ákveðnum sviðum.

 

Leiðir að forvörnum

  • Styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda svo þeir geti tekið afstöðu gegn vímuefnum og staðið á móti neikvæðum félagslegum þrýstingi og geri sér grein fyrir áhrifum fyrirmynda í mótun lífsstíls.
  • Kennsla í lífsleikni með notkun námsgagna sem eru byggð á fræðilegum grunni og aldursmiðuð.
  • Leiðbeina nemendum um að temja sér jákvæð samskipti, umburðarlyndi, kurteisi og tillitssemi í samskiptum við aðra.
  • Fræða nemendur um skaðsemi tóbaks, nikótíns, áfengis og annarra fíkniefna og afleiðingar af neyslu þessara efna. Sömuleiðis að fræða um annars konar fíkn t.d. netfíkn.
  • Eiga öflugt samstarf við forráðamenn, fræðsluskrifstofu, félagsmiðstöðvar, heilsugæslu, félagsþjónustu og lögreglu um samræmdar aðgerðir gegn neyslu vímuefna.
  • Finna úrræði fyrir nemendur í áhættuhópum.
  • Námsráðgjafi starfar við Heiðarskóla. Nemendur geta leitað til hans og rætt við hann um sín persónulegu mál.
  • Hjúkrunarfræðingur hefur fasta viðveru í skólanum og sinnir meðal annars forvarnarstarfi. Forvarnarefni heilsugæslunnar, 6H, er notað við þá fræðslu.

Viðbrögð þegar upp kemur grunur eða vitneskja um notkun á tóbaki, nikótíni, áfengi eða öðrum vímuefnum

  • Öll notkun á tóbaki, nikótíni, áfengi eða öðrum vímuefnum er bönnuð í og við skólann samkvæmt skólareglum og er forráðamönnum gert viðvart ef nemandi verður uppvís að slíku broti.
  • Hafi starfsfólk skólans grun um að nemandi sé farinn að reykja eða nota tóbak/nikótín gerir kennari, námsráðgjafi eða stjórnandi forráðamönnum viðvart.
  • Ef grunur um neyslu áfengis eða fíkniefna nemanda vaknar hjá starfsfólki skólans er umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnanda tilkynnt um málið. Forráðamenn eru upplýstir og þeim bent á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð.
  • Ef staðfestar upplýsingar liggja fyrir um áfengisneyslu nemanda eða neyslu annarra vímuefna skal námsráðgjafi eða skólastjórnandi boða forráðmenn til fundar.
  • Málinu er eftir atvikum vísað til nemendaverndarráðs.
  • Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið í samræmi við niðurstöðu nemendaverndarráðs.
  • Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls.

 

Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi

Nemendur, kennarar og starfsfólk skólans á hverjum tíma mynda skólasamfélag þar sem gagnkvæmt traust og virðing ríkir í samskiptum. Allir einstaklingar innan þessa samfélags eiga að búa við það öryggi að þeir verði hvorki fyrir kynferðislegu né kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Ef einstaklingur innan skólans telur sig verða fyrir slíku ber skólasamfélaginu að bregðast við með ábyrgum og skipulögðum hætti.

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi og höfum því sett þessar verklagsreglur. Verklagsreglurnar eru lifandi skjal sem verður endurskoðað eftir þörfum.

Einstaklingur sem verður var við kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi er hvattur til þess að tilkynna það til náms- og starfsráðgjafa eða skólastjórnenda eftir því sem hann/hún/hán/þau telur/telja best.

Minnt er á tilkynningaskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum úr Barnaverndarlögum nr. 80/2002 17. gr.

Markmið

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi í skólanum í kennslu, almennu starfi eða öðrum samskiptum sem eiga sér stað í skólastarfinu eða í tengslum við starfsemi skólans.

Markmið verkslagsreglna þessara er að tryggja að úrræði sé til staðar telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir kynferðislegu og/eða kynbundinni áreitni eða kynferðislegu og/eða kynbundnu ofbeldi.

Skilgreiningar

Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.  

Með kynferðislegu ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Leiðir

Nemendur fá fræðslu um kynbundið ofbeldi og annað ofbeldi og þeim gert ljóst hvert þeir geti leitað eftir aðstoð komi slíkt mál upp, hvort heldur sem er af hálfu annarra nemenda eða starfsfólks.

Fræðsla til nemenda um kynþroska, kynlíf og siðferði í samskiptum kynjanna verði samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og skólanámskrá. Á hverju hausti er farið yfir það með starfsfólki skólans hvað getur falist í kynbundnu áreiti í samskiptum nemenda og starfsmanna. Nemendum verður einnig kynnt hvert þeir geti leitað.

Nemendur

Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot af ofangreindu tagi fer eftirfarandi ferli í gang

innan skólans:

  • Náms- og starfsráðgjafi og stjórnendur hittast og skipuleggja næstu skref.
  • Fræðslustjóri, grunnskólafulltrúi og yfirsálfræðingur Reykjanesbæjar eru upplýstir um málið.
  • Tilkynning og efni hennar eru borin undir barnaverndarnefnd.
  • Haft er samband við forráðamenn og fundur með þeim skipulagður.
  • Málið er skoðað og rætt við hlutaðeigandi.
  • Skólayfirvöld aðstoða málsaðila við að leita sér sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila.
  • Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur og ráðgjafar skólans vera viðkomandi til aðstoðar.
  • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar málsaðilum og eftir atvikum sendir skólinn tilkynningu til barnaverndarnefndar.
  • Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
  • Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.

Ekki er aðhafst í máli nema sá sem verður fyrir áreitni eða kynferðislegu ofbeldi (og forráðamenn eftir því sem við á) sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) verður máli vísað til barnaverndarnefndar.

 

Viðbrögð

Ef aðilar máls eru í sama skóla eða eru nemendur í sama námsumhverfi (í sama bekk eða árgangi) þá ber að skoða hvort að gera þurfi ráðstafanir varðandi samskipti, samvinnu og samneyti málsaðila. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Ekki er gert ráð fyrir að flytja til í námi einstakling sem hefur kvartað eða orðið fyrir broti, vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess.

Tímarammi

Brýnt er að brugðist sé við málum sem þessar verklagsreglur fjalla um svo fljótt sem auðið er og að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að nemandi eða forráðamaður sendi inn formlega tilkynningu.

Viðurlög

Viðurlög við broti eru samkvæmt skólareglum. Gerandi verður látinn axla ábyrgð og getur verið fluttur til í annan skóla eða verið vikið úr skóla.

Unnið 1. des. 2022.

Starfsmannastefna

Starfsmannastefna Heiðarskóla byggir m.a. á starfsmannastefnu Reykjanesbæjar.

  • Áhersla er lögð á að ráða hæft, áhugasamt og traust starfsfólk. Fólk sem er opið fyrir nýjungum og tilbúið að leita sífellt leiða til að bæta og efla skólastarfið.
  • Lögð er áhersla á að gagnkvæmt traust og að gott samstarf ríki á milli samstarfsfólks. Mikilvægt er að hver og einn leggi sitt af mörkum til að móta jákvæðan og góðan starfsanda og skapa sterka liðsheild.
  • Starfsmenn eiga að sinna starfi sínu af álúð, samviskusemi og metnaði. Þeir eiga að sýna lipurð, kurteisi og réttsýni gagnvart nemendum og öðru samstarfsfólki.
  • Starfsmönnum ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
  • Starfsfólk skólans leitast við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.
  • Lögð er áhersla á að tryggja góða vinnuaðstöðu og að búnaður og hollustuhættir séu í góðu horfi.
  • Áhersla er lögð á gott samstarf við heimilin og alla þá sem koma að fræðslu- og uppeldismálum.
  • Lögð er áhersla á árangur í starfi.
  • Starfsmenn eru hvattir til að viðhalda faglegri þekkingu í samræmi við síbreytilegar kröfur sem gerðar eru til skólasamfélagsins. Símenntunararáætlun skólans liggur fyrir að hausti en einnig eru starfsmenn hvattir til að leita eigin leiða til náms og starfsþróunar.
  • Starfsfólk mótar sameiginlegar áherslur í starfi og vinnur eftir þeim.
  • Lögð er áhersla á að upplýsingastreymi sé gott og boðleiðir milli stjórnenda og starfsmanna séu skilvirkar.
  • Lögð er áhersla á að starfsmenn læri hver af öðrum og með öðrum í formlegu og óformlegu samstarfi.
  • Lögð er áhersla á að starfsmenn fái að njóta sín í starfi.
  • Leitast er við að auðvelda starfsfólki að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar.
  • Lögð er áhersla á að konur og karlar fái jöfn tækifæri og möguleika til að taka að sér mikilvæg verkefni innan skólans.
  • Lögð er áhersla á að gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki á milli samstarfsfólks.
  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan