Háttvísi – Hugvit – Heilbrigði

Félagsstarf

Félags- og tómstundastörf

Umsjónarmenn félagsstarfa vinna áætlanir um félagsstarfsemina í samráði við nemendaráð. Einnig er haft samstarf við tómstundaleiðbeinendur í öðrum grunnskólum Reykjanesbæjar.
Skipulagt félagsstarf er í Heiðarskóla fyrir mið- og unglingastig, þar fylgir 7. bekkur miðstiginu.  Nokkrar skipulagðar skemmtanir eru haldnar fyrir yngsta stigið.
Tekið er tillit til útivistarreglna varðandi tímalengd og tímasetningu skemmtana.
Miðað er við eftirfarandi tímasetningar.

  • 4.-5. bekkur  17:00-19:00
  • 6.-7. bekkur  19:30-21:30
  • 8.-10. bekkur 20:00-22:00 (23.00)

Minnt er á að skólareglur gilda í félagsstarfi nemenda. Brot á reglunum jafngildir broti á skólareglum á skólatíma.

Nemendafélag/nemendaráð
Allir nemendur skólans eru í nemendafélagi skólans nema að þeir óski eftir öðru. Nemendur úr 8.-10. bekk skipa síðan nemendaráð Heiðarskóla. Þeir sem hafa áhuga á að starfa í nemendaráði sækja um það að vori. Formaður nemendaráðs er valinn úr þeim 10. bekkingum sem nemendaráð skipa.
Nemendaráð vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðamálum nemenda. Það skipuleggur og hefur umsjón með íþróttastarfi og íþróttakeppnum innan skólans og við aðra skóla.
Það fær skólanámskrá og starfsáætlun til kynningar og einnig ef fyrirhugaðar eru meiriháttar breytingar á skólahaldinu. Skólastjóri sér til þess að nemendaráð fái aðstoð eftir þörfum og fundar reglulega með ráðinu.
Nemendaráð skipuleggur félagsstarf í skólanum ásamt umsjónarmönnum félagsstarfa. Ráðið vinnur á öllum skemmtunum og það kemur fram sem fulltrúi nemenda. Nemendafélag skólans setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð en samkv. grunnskólalögum frá 2008 sitja tveir nemendur skólans í skólaráði.
Starf nemenda í nemendaráði er metið sem ein valgrein.

Dæmi um helstu viðburði á skólaárinu:

Sameiginlegt diskótek fyrir 5. – 7. bekk
Árshátíðarball fyrir 8. – 10. bekk
Gettu enn þá betur fyrir 8. – 10. bekk
Íþróttamót milli skóla og innan skóla
Spurningakeppni grunnskóla  fyrir 8. – 10. bekk
Diskótek og opin hús fyrir nemendur Heiðarskóla
Bingó

Fjörheimar

Auk félagsstarfa í skólanum geta nemendur í 8.-10. bekk sótt sameiginlega menningarmiðstöð skóla í Reykjanesbæ, Fjörheima. Upplýsingabækling Fjörheima má sjá hér: http://issuu.com/davidoskars/docs/fjorheimar2016/1

 

ad_image ad_image ad_image