6. nóvember 2019

20 ára afmælishátíð Heiðarskóla

20 ára afmælishátíð Heiðarskóla var haldin í dag. Hátíðin hófst kl. 9.30 í íþróttasalnum þar sem nemendur, starfsfólk og góðir gestir komu saman og nutu þess sem þar fór fram. Allir nemendur í 1. - 4. bekk hófu dagskrána með Heiðarskólasöngnum og sungu þeir einnig Óskasteina af mikilli snilld. Kynnarnir Magnús Már, Sigrún Erna og Tómas Ingi úr 10. bekk tóku þá við stjórn, íklædd búningum úr leikritum undanfarinna tveggja ára. Þau kynntu Bryndísi Jónu, skólastjóra, til leiks sem fór með afmælisræðu. Kjartan Már, bæjarstjóri fylgdi í kjörfarið, fór með ræðu og afhenti skólanum góðar bókagjafir. Var þá komið að kór nemenda úr 5. - 10. bekk sem söng syrpu úr leikritum undanfarinna ára og luku henni með laginu Þannig týnist tíminn sem átti vel við. Tveir fyrrverandi nemendur skólans, hinir landsþekktu meðlimir hljómsveitarinnar Valdimars, Valdimar Guðmundsson og Ásgeir Aðalsteinsson stigu þá á stokk. Þeir tóku tvö af sínum þekktustu lögum, sannkallað eyrnakonfekt. Gaman er að geta þess að þeir eru ekki bara fyrrverandi nemendur heldur báðir einnig synir kennara í skólanum, þeirra Guðmundar Hermannssonar og Auðar Jónatansdóttur. Áður en afmælissöngurinn var sunginn óskuðu nokkrir nemendur skólans, sem hafa annað móðurmál en íslensku, honum til hamingju með daginn á sínu móðurmáli. Að dagskrá í íþróttasal lokinni héldu nemendur í sínar heimastofur þar sem þeim var boðið upp á bollaköku og Svala og gestum var boðið upp á köku og kaffi í matsal. Víðs vegar um skólann voru verk nemenda til sýnis. Þar gat að líta myndlistarverk nemenda, sameiginleg afmælisverk úr ullarmyndum, námsverkefni, svokölluð Spjöld sögunnar sem á voru kveðjur frá fyrrverandi nemendum og fleira. Auk þess spiluðu nemendur á hljóðfæri og dönsuðu við afar góðar undirtektir.

Afmælisdagurinn var svo sannarlega ánægjulegur og minnti þá sem tóku þátt í honum á hversu frábært starf er unnið í Heiðarskóla. Það má segja að dagurinn í dag hafi verið lokaviðburður afmælisársins. Í febrúar voru haldnir þemadagar í tilefni afmælisins sem höfðu yfirskriftina Tækni og nýsköpun og árshátíðarleikritið var með öðru sniði en venjulega þar sem Kardimommubærinn var settur á svið með eftirminnilegum hætti. Á skólaslitum 10. bekkjar í byrjun júní var einnig átta starfsmönnum, sem unnið hafa í Heiðarskóla frá upphafi, gefin gjöf í tilefni af 20 ára starfsafmæli. Það eru þau Auður Jónatansdóttir, Brynjar Huldu- Harðarson, Guðmundur Hermannsson, Guðný Kristjánsdóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Margrét Jónsdóttir, Ólöf Jónsdóttir og Sigurbjörg Guðmundsdóttir.

Við færum skólasamfélaginu okkar hamingjuóskir í tilefni af 20 ára afmæli Heiðarskóla og þakkir fyrir þau fjölmörgu lóð sem svo ótal margir leggja á vogaskálar skólastarfsins.

Fleiri myndir má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan