28. október 2015

Vel heppnaðir bókaþemadagar

Dagana 20.-22. október voru bókaþemadagar í Heiðarskóla. Sögurnar af Lottu einkenndu verkefnavinnu nemenda í 1.-4. bekk. Gula gangi var breytt í Skarkalagötu með litríkum pappírsfígúrum og ýmsu skrauti. Þar voru einnig samin ljóð um Lottu, útbúin bókamerki og farnar voru bíóferðir í Nýja bíó þar sem horft var á Lottumynd, svo fátt eitt sé nefnt. Miðstigið, nemendur í 5.-7. bekk unnu á ýmsan hátt með bækur. Þar voru samdar sögur og leikþættir, útbúnar rafbækur og bókamerki, unnið með Herramenn og Ungfrúr og margt fleira. Nemendur á unglingastigi yfirgáfu Heiðarskóla og innrituðu sig í Hogwartsskóla Harry Potters. Eftir að þeim hafði verið skipt upp í vistir hófst metnaðarfull stigakeppni milli vistanna sem m.a. fólst í því að búa til merki vistarinnar og vistirnar sjálfar, að sýna fyrirmyndarframkomu, góða samvinnu og frágang og keppni í Quidditch leiknum æsilega í íþróttahúsinu. Það er skemmst frá því að segja að nemendur í Slitherin vistinni söfnuðu flestum stigum í keppninni og fengu að launum bikar og pizzuveislu. 

Rithöfundar á vegum verkefnisins Skáld í skólum heimsóttu öll aldursstig. Þau Kristjana Friðbjörnsdóttir og Ævar Þór Benediktsson hittu nemendur í 1.-4. bekk, Arndís Þórarinsdóttir og Gunnar Helgason nemendur í 5.-7. bekk og Steinunn Sigurðardóttir og Guðmundur Andri Thorsson nemendur í 8.-10. bekk. 

Ekki var annað að sjá en að nemendur og starfsfólk hefðu gagn og gaman af þeirri fjölbreyttu vinnu sem fram fór á þessum ágætu þemadögum og eiga nemendur skólans sérstakt hrós skilið fyrir dugnað, hugmyndaauðgi og einstaklega jákvætt viðhorf til þeirra verkefna sem unnin voru. 

Myndir má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan