Skólareglur

Í Heiðarskóla er lögð áhersla á jákvæð samskipti milli allra sem þar starfa: nemenda, kennara og alls starfsfólks. Lögð er áhersla á að nemendur fái jákvæða og uppbyggjandi leiðsögn varðandi hegðun og framkomu og áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og tillitssemi.

Lögum samkvæmt skulu skólar setja skólareglur sem skylt er að fara eftir. Til að starfsandi og skólabragur sé sem bestur í okkar skóla höfum við sett okkur fáar og skýrar reglur. Einnig kemur þar skýrt fram hvernig brugðist er við agabrotum.  

Skólareglur Heiðarskóla gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans, hvort sem er innan eða utan hans.

 1. Við stundum námið af bestu getu og mætum stundvíslega.
 2. Við sýnum virðingu og kurteisi í samskiptum og förum að fyrirmælum starfsfólks.
 3. Við göngum vel um, berum virðingu fyrir umhverfinu og stofnum hvorki öryggi okkar né annarra í hættu með orðum eða gjörðum.
 4. Við hugum vel að heilsu okkar.
 5. Við notum tæki á ábyrgan hátt á skólatíma og fylgjum þeim reglum sem um þau hafa verið sett.

Nánari lýsing á skólareglum

1. Við stundum námið af bestu getu  og mætum stundvíslega.

Nám er vinna sem ætlast er til að nemendur skili af sér, jafnt í skóla sem heima. Starfsfólk vinnur að því með jákvæðum aga og í samráði við forráðamenn að nemendur virði kennslustundir sem dýrmætan vinnutíma. Kennarar fylgjast með námsframvindu og hegðun nemenda sinna og gera ráðstafanir í samræmi við skólareglur ef út af ber. Mikilvægt er að nemendur komi á réttum tíma í kennslustundir. Heimilt er að skrá fjarvist  mæti nemandi eftir að 15 mínútur eru liðnar af kennslustundinni.

2. Við sýnum virðingu og kurteisi í samskiptum og förum að fyrirmælum starfsfólks.

Það er sameiginlegt hlutverk skólans og heimilanna að rækta með börnum og unglingum almenna kurteisi og viðurkenndar samskiptareglur manna í milli. Við komum fram við aðra, eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Til þess að skólabragurinn sé sem bestur, góður árangur náist og öllum líði vel ber nemendum að fara að fyrirmælum starfsfólks.

3. Við göngum vel um, berum virðingu fyrir umhverfinu og stofnum hvorki öryggi okkar né annarra í hættu með orðum eða gjörðum.

Mikilvægt er að nemendur temji sér góða umgengni í og við skólann.  Nemendur skulu hengja upp yfirhafnir og setja skó á viðeigandi staði.

Allir eiga rétt á að finna til öryggis í skólanum. Framkoma og hegðun nemenda skal vera þannig að hún ógni ekki öryggi annarra. Foreldrar nemenda í 1. – 7. bekk þurfa að tilkynna til skrifstofustjóra ef barn þeirra þarf að yfirgefa skólalóðina á skólatíma. Nemendum í 8. – 10. bekk er heimilt að yfirgefa skólalóðina s.s. í matartíma en eru þá á eigin ábyrgð og foreldra. Komi nemandi á hjóli, hjólaskautum, hjólabretti, sleða eða einhverjum öðrum farartækjum, skulu þau ekki notuð á skólalóðinni á skólatíma.

4. Við hugum vel að heilsu okkar.

Við komum með hollt og gott nesti í skólann. Óheimilt er að vera með sælgæti, gos eða orkudrykki á skólatíma, nema leyfi sé gefið til þess við sérstök tilefni. Við neytum ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímu- og ávanabindandi efna.

5. Við notum tæki á ábyrgan hátt á skólatíma og fylgjum þeim reglum sem um þau hafa verið sett.

Mynd- og hljóðupptaka er óheimil á skólatíma, nema með sérstöku leyfi kennara og þá í námslegum tilgangi. Í kennslustundum eiga nemendur ekki að vera með tæki sem tengjast ekki náminu og valda truflun.

Almenn viðbrögð við agamálum

Kennari ræðir við nemendahópinn um skólareglurnar og viðbrögð við agamálum og gerir hann samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi. Hluti af þeirri vinnu er bekkjarsáttmálinn og vinna með þitt og mitt hlutverk. Allt starfsfólk skólans tekur á agamálum og stýrir þeim í rétta farveg.  

1. stig

Ef einstaklingur er ábyrgur fyrir truflun í kennslustund eða gerist á annan hátt brotlegur við skólareglurnar ræðir kennari/starfsmaður við nemandann einslega. Nemandanum gefst tækifæri til að leiðrétta mistök sín og fær aðstoð við að leysa úr sínum málum.

Breyti nemandi ekki hegðun sinni fer málið á 2. stig.

2. stig

Kennari velur að fara leið a) eða b) allt eftir alvarleika málsins

a) Kennari hefur samband við foreldra/forráðamenn, upplýsir þá um málið og kallar eftir  samráði við lausn þess.

b) Kennari fær aðstoð deildarstjóra sem vinnur að lausn málsins. Foreldrar eru upplýstir og taka þátt í úrlausn.

Beri slíkt ekki tilætlaðan árangur fer málið á 3. stig 

3. stig

Málinu vísað til skólastjóra. Forráðamenn ásamt nemanda eru kallaðir á fund þar sem reynt er að finna lausn. Ef ekki tekst að finna lausn á vanda nemandans og ef hegðun hans kemur í veg fyrir eðlilegt skólastarf vísar skólastjóri málinu til nemendaverndarráðs og upplýsir forráðamenn um það […]. Á meðan málið er í vinnslu er nemandi í einstaklingsúrræði í skólanum (sbr. 14. gr í lögum um grunnskóla nr. 91/2008). Ef til brottvísunar kemur ber skólastjóra að ræða við foreldra/forráðamenn áður en gripið er til slíkrar brottvísunar og hún tilkynnt til fræðsluskrifstofu.

Ef ekki tekst að leysa vanda nemanda innan skólans á viku, vísar skólastjóri málinu til fræðsluyfirvalda.  Fræðsluyfirvöld bera ábyrgð á að tryggja nemenda skólavist innan hæfilegs tíma frá brottvísun. 

Skýr mörk

Starfsfólk og nemendur skólans skilgreina ákveðin mörk sem eiga að stuðla að auknu öryggi

í skólanum og skapa aðstæður til að nemendur geti öðlast sjálfsstjórn, eflt félagsþroska og náð árangri.

Mörkin okkar eru:

 • Ekkert ofbeldi né einelti
 • Engin vopn né vímuefni
 • Engar ógnanir eða hótanir við neinn í skólasamfélaginu
 • Engin skemmdarverk eða þjófnaðir
 • Engin mismunun t.d. vegna uppruna, fötlunar, kyns og svo framvegis

Fari nemandi yfir þessi skýru mörk er málinu vísað til stjórnenda og foreldrar/forráðamenn upplýstir um málið og óskað um leið eftir að þeir taki þátt í lausn þess.

Við alvarleg agabrot getur komið til brottvísunar án áminningar. Komi brottvísun til framkvæmda eiga nemandi og forráðamenn hans rétt á andmælum samkvæmt 13. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Skólareglurnar voru endurskoðaðar vor 2021.

 • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
 • Mentor
 • Reykjanesbær
 • Uppbyggingarstefnan