Úrslitin í hreystikeppni Heiðarskóla
Skólahreystikeppni Heiðarskóla fór fram í íþróttasal skólans miðvikudaginn 6. desember. Eins og endranær var spennustig keppenda hátt og stuðningur nemenda í 5.-10. bekk góður. Hópur nemenda úr 8., 9. og 10. bekk spreytti sig á hreystiþrautunum og stóðu þeir sig allir með stakri prýði. Fjórir nemendur báru sigur úr býtum. Ástrós Elísa Eyþórsdóttir í 10. ÞE sigraði annað árið í röð í armbeygjum og hreystigreip. Hún gerði 46 armbeygjur og hékk í 3,34,74 mínútur. Bartosz Wiktorowicz í 9. DS var sá eini sem keppti í upphífingum og dýfum en það gerði hann svo sannarlega með krafti og skellti sér í 43 upphífingu og 43 dýfur. Í hraðaþraut drengja var það Eyþór Jónsson í 9. DS sem fór á besta tímanum í gegnum hraðaþrautina á 59,3 sekúndum. Ingibjörg Birta Jóhannsdóttir í 10. ÞE var sigurvegari í hraðaþraut stúlkna en hún fór í gegnum hraðaþrautina á 1.01,7 mínútu. Að venju voru gamlar Skólahreystikempur fengnar til að sinna dómgæslu en í ár mættu þau Andri Már Ingvarsson og Katla Rún Garðarsdóttir. Við þökkum þeim ásamt 8. bekkjar drengjunum, Tómasi, Loga og Helga Rúnari fyrir aðstoðina og óskum öllum keppendum okkar til hamingju með árangurinn. Fleiri myndir má sjá í myndasafni.