Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram á sal Grunnskólans í Sandgerði í gær, 2. mars. Fulltrúar Heiðarskóla voru þau Andri Sævar Arnarsson og Urður Unnardóttir. Alls kepptu 14 nemendur úr öllum skólum Reykjanesbæjar og Sandgerðisskóla. Keppnin var jöfn og spennandi og stóðu þau Andri og Urður sig feykivel enda hafa þau æft sig vel undanfarna daga. Birgitta Rós Ásgrímsdóttir, nemandi okkar í 8. ÞE, var annar tveggja kynna á hátíðinni en hún var sigurvegari keppninnar í fyrra, þá nemandi í Holtaskóla. Bergrún Dögg úr Myllubakkaskóla bar sigur úr býtum, Haflína Maja úr Háaleitisskóla var í öðru sæti og Gabríel Aron úr Sandgerðisskóla í því þriðja. Við verðlaunaafhendingu var Urði sérstaklega hrósað fyrir flutning sinn á ljóðinu Ást í kreppu. Við í Heiðarskóla erum ákaflega stolt af frammistöðu þeirra Andra og Urðar og óskum þeim til hamingju með árangurinn.