5. júní 2018

Úrslit í ljóðasamkeppni Heiðarskóla 2018

Ljóðasamkeppni Heiðarskóla var haldin í þriðja sinn undir lok skólaársins. Allir nemendur skólans höfðu möguleika á að taka þátt en ljóðin voru flokkuð eftir aldursstigum, 1.-4. bekkur, 5.-7. bekkur og 8.-10. bekkur. Form og umfjöllunarefni ljóðanna var að venju frjálst. 
 
Sigurvegarinn í 1.-4. bekk var Hanna Katrín Eiðsdóttir í 4. HT en hún orti ljóðið Ef ég væri. Sigurvegarinn í 5.-7. bekk var Tristan Einarsson með Molavísur. Ástrós Elísa Eyþórsdóttir í 10. ÞG átti sigurljóðið í 8.-10. bekk sem bar titilinn Óvinur. Öll fengu þau bókaverðlaun á skólaslitunum 5. júní. 
 
Ef ég væri
 
Ef ég væri kanína þá myndi ég hoppa inn í lífið.
Ef ég væri hestur myndi ég skokka inn í lífið.
Ég er manneskja og ég labba inn í lífið.
 
- Hanna Katrín Eiðsdóttir, 4. HT
 
Molavísur
 
Ég þekki kött sem var sætur.
Hann læddist út um nætur.
Stal táfýlusokkum
og nokkrum prjónadokkum.
 
Sá þjófur hét Moli
Og heldur að hann sé foli.
Stundum veiðir hann mýs
og borðar oft ís.
 
- Tristan Einarsson, 5. LE
 
 
 
Óvinur
 
Kvíði er minn versti óvinur,
býr til sár á sál
og herjar á líkamann.
Hann eyðir gleði og býr til tár.
Erfið leið að losna við
til að finna hjartans frið.
 
Baráttan er löng og ströng,
hún sjaldan tekur enda.
Verð víst að sætta mig við
að hann fylgir mér lífið á enda.
 
- Ástrós Elísa Eyþórsdóttir, 10. ÞE
 
  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan