6. júní 2017

Úrslit í ljóðasamkeppni Heiðarskóla 2017

Ljóðasamkeppni Heiðarskóla var haldin í annað sinn undir lok skólaársins. Allir nemendur skólans höfðu möguleika á að taka þátt en ljóðin voru flokkuð eftir aldursstigum, 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk.
Form og umfjöllunarefni ljóðanna var frjálst. 
 
Sigurvegarinn í 1.-4. bekk var Birgitta Rún Björnsdóttir í 4. KK en hún orti ljóðið Snjór. Sigurvegarinn í 5.-7. bekk var Viktoria Isolde Nooteboom í 6. HT með ljóðið Ljóð um lífið. Bergur Daði Ágústsson í 10. ÍS átti sigurljóðið í 8.-10. bekk sem bar titilinn Vetrardagur. Öll fengu þau bókaverðlaun á skólaslitunum 2. júní.
 

Snjór

Komdu litli snjór.

Ég skal skrifa þér ljóð.

Þarna er eik, viltu koma í leik?

Mér er kalt, snjór er úti um allt.

Snjór á að vera úti að leika með hrúti.

Ég á að vera inni, að standa eins og pinni.

- Birgitta Rún Björnsdóttir, 4. KK

Ljóð um lífið

Lífið er gott, lífið er stutt.

Það byrjar eins og kveikt sé á lukt.

Í lífinu er mikið að læra

en engan reynir maður að særa.

 

Það er gaman að vera til

og daganna að njóta.

En suma daga ég ekki skil,

dagana ljóta.

 

Sól og tungl líða hjá,

í ævintýrum allir lenda.

En því miður einmitt þá,

lífið tekur enda.

- Viktoría Isolde Nooteboom, 6. HT

Vetrardagur

Himinn nötrar

Rigning dynur á jörðu og köld er norðanátt

Gráleitur himinn, langur, dimmur vetur

Ekki sést tangur né tetur af þeim eldspúandi hnetti

er hrekur myrkrið og kuldan burt

Líkur þessu ei...?

- Bergur Daði Ágústsson 10. ÍS

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan