Úrslit í hreystikeppni Heiðarskóla
Skólahreystikeppni Heiðarskóla fór fram í íþróttasal skólans fimmtudaginn 13. desember. Allir nemendur sem eru í Skólahreystivali í 8. - 10. bekk tóku þátt en aðeins nemendur í 9. og 10. bekk kepptu um það að komast í Skólahreystilið skólans. Stóðu keppendur sig ákaflega vel í öllum hreystiþrautunum. Fjórir nemendur úr 8. og 10. bekk báru sigur úr býtum. Hildur Björg í 10. EÞ sigraði í armbeygjum og hreystigreip. Hún gerði 34 armbeygjur og hékk í 2.11,53 mínútur. Annað árið í röð keppti Bartosz Wiktorowicz í 10. EÞ einn í upphífingum og dýfum en hann hann skellti sér í 47 upphífingu og 35 dýfur. Í hraðaþraut drengja var það Eyþór Jónsson í 10. EÞ sem fór annað árið í röð á besta tímanum í gegnum hraðabrautina, á 51,4 sekúndum. Jana í 8. DG var sigurvegari í hraðaþraut stúlkna en hún fór í gegnum brautina á 58.6 mínútum. Hraðabrautinni var örlítið breytt þetta árið og eiga þau Eyþór og Jana því Heiðarskólametið í nýrri braut. Þar sem Jana er í 8. bekk er hún ekki gjaldgeng í Skólahreystikeppnina sjálfa en annan besta tímann átti Klara Lind í 9. ÍÁ. Hún fór brautina á 1.01,10 mínútum. Þeir Bartozs og Eyþór eru ríkjandi Skólahreystimeistarar en eins og flestum er kunnugt hampaði lið Heiðarskóla Skólahreystibikarnum eftirsótta síðasta vor.
Við þökkum dómurunum fyrir aðstoðina en þeir voru úr röðum fyrrum Skólahreystikeppenda. Einnig óskum við öllum keppendum okkar til hamingju með árangurinn.