Ungmennaþing Reykjanesbæjar
Ungmennaþing Reykjanesbæjar var haldið í gær 3. apríl, þar sem nemendur úr 8.-10. bekk úr öllum skólum bæjarins fengu tækifæri til að ræða mikilvægi öryggis. Tuttugu nemendur frá Heiðarskóla tóku þátt í þinginu ásamt nemendum frá öðrum skólum í Reykjanesbæ.
Þema þingsins var öryggi og var farið í allar hliðar þess. Rætt var um hvernig börn og ungmenni upplifa sig örugg og hvernig fullorðnir og valdhafar geta stuðlað að því að tryggja öruggt uppeldi. Einnig var það til umræðu hvernig börn og ungmenni sjálf geta aukið eigin öryggi í daglegu lífi.
Nemendur Heiðarskóla sýndu vandaða framkomu og voru þeir til fyrirmyndar fyrir aðra í umræðunum.
Þetta var frábært tækifæri fyrir ungt fólk að koma saman, deila skoðunum og auka skilning á því hvernig við getum öll unnið saman að því að bæta öryggi í samfélaginu.