4. mars 2016

Undankeppni Skólahreystis

Lið Heiðarskóla keppti í 1. riðli í undanúrslitum Skólahreystis í gær, fimmtudaginn 3. mars. Þau Arnór Sveinsson, Harun Crnaz, Kamilla Sól Viktorsdóttir og Sædís Ósk Eðvaldsdóttir skipuðu liðið og var Skólahreystikempan Helena Jónsdóttir þjálfarinn þeirra. Þau Arnór og Kamilla Sól gerðu sér lítið fyrir og sigruðu hraðaþrautina en þau fóru brautina á 2.19 mínútum. Harun gerði 22 upphífingar og 24 dýfur og Sædís Ósk 33 armbeygjur og hékk í 2.11 mínútur. Þegar öll stig höfðu verið lögð saman var ljóst að liðið okkar hafnaði í 6. sæti.

Riðlakeppnin var haldin í íþróttahúsinu við Sunnubraut og er það í annað sinn sem Skólahreysti er haldið hér í bæ. Stemningin í húsinu var mögnuð og spennustigið hátt, bæði meðal keppenda og áhorfenda. Lið Holtaskóla var sigurvegari riðilsins og óskum við grannaskólanum okkar til hamingju með árangurinn. Lokakeppnin verður haldin 20. apríl.

Þau Arnór, Kamilla, Harun og Sædís hafa lagt sig mjög vel fram við æfingar og undirbúning fyrir keppnina. Þó að frammistaðan á keppninni sjálfri hafi ekki fleytt þeim áfram í úrslitin, eins og þau stefndu að, þá erum við í Heiðarskóla ákaflega stolt af þessum hraustu krökkum og þakklát fyrir að þeir hafi viljað keppa fyrir hönd skólans í þessari skemmtilegu en gjarnan krefjandi keppni. Helenu og varamönnunum Berglín Sólbrá, Braga Má og Evu Maríu þökkum við einnig fyrir þeirra framlag.

 
Skólahreystimyndband Heiðarskóla 2016 eftir Berglín Sólbrá Bergsdóttur 
  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan