9. desember 2015

Tvö Heiðarskólamet í Skólahreysti!

Skólahreystikeppni Heiðarskóla fór fram í íþróttasal skólans eftir hádegi í dag. Eins og endranær var spennustig keppenda hátt og stuðningur nemenda í 5.-10. bekk góður. Myndarlegur hópur nemenda úr 8., 9. og 10. bekk spreytti sig á hreystiþrautunum og stóðu þeir sig allir með stakri prýði. Fjórir nemendur báru sigur úr býtum og munu þeir líklega skipa Skólahreystilið Heiðarskóla eftir áramót. Sædís Ósk Eðvaldsdóttir sigraði keppni í armbeygjum og hreystigreip. Hún gerði 48 armbeygjur og hékk í 4:34 sekúndur og sló þar með Heiðarskólametið í hreystigreip. Virkilega vel gert hjá Sædísi! Harun Crnaz sigraði keppni í upphífingum en hann gerði 37 upphífingar og Ísak Einar Ágústsson gerði flestar dýfur, 29 talsins. Þar sem aðeins einum keppanda er teflt fram í báðum þessum greinum í úrslitum Skólahreystis var Harun sigurvegari í báðum greinum með betri árangur í þeim samanlögðum. Tveir keppendanna þetta árið voru í Skólahreystiliði Heiðarskóla í fyrra en það voru þau Arnór Sveinsson og Kamilla Sól Viktorsdóttir. Kamilla fór í gegnum hraðaþrautina á 55:5 sekúndum og Arnór Sveinsson gerði sér lítið fyrir og bætti sex ára gamalt Heiðarskólamet um rúmar sex sekúndur! Hann fór í gegnum þrautina á 49:1 sekúndu! Þess má til gamans geta að gamli methafinn, Eyþór Ingi Einarsson var einn þriggja dómara en allir voru þeir fyrrverandi keppendur okkar. Auk Eyþórs sinntu þær Katla Rún Garðarsdóttir og Irena Sól Jónsdóttir dómgæslu. Við óskum öllum keppendum okkar til hamingju með árangurinn! Fleiri myndir má sjá í myndasafni.

Arnór Sveinsson bætti met Eyþórs Inga

Sædís Ósk bætti Heiðarskólametið í hreystigreip

Helena, Skólahreystiþjálfari og dómarar

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan