17. nóvember 2020

Tilkynning frá Heiðarskóla

Miðvikudaginn 18. nóvember hefjum við skólastarf eftir breyttum sóttvarnareglum. Þessi breyting er til og með 1. desember

1. - 4. bekkur

Hjá nemendum í 1. - 4. bekk verður lítil breyting. Frímínútur fara í eðlilegt horf og einnig mun íþrótta- og sundkennsla færast í nokkuð eðlilegt horf. Sjá upplýsingar varðandi íþróttir og sundkennslu.
Í frístund eiga aldurshópar áfram að vera aðskildir og sótthreinsun þarf að fara fram fyrir lok dags. Frístund mun því áfram starfa til kl. 15.30 og aldurshóparnir verða aðskildir inni í skólanum en mega blandast á útisvæði.

5. – 7. bekkur 

Hjá nemendum í 5. - 7. bekk færist skólastarf að mestu leyti aftur í samt horf. Allir nemendur mæta samkvæmt venjulegri stundatöflu kl. 8.10 - 13.50.
Grímuskylda fellur úr gildi en nemendum leyfist að sjálfsögðu að bera þær ef þeim þykir það betra.
Skömmtun matar verður með eðlilegri hætti en verið hefur.  Íþrótta- og sundkennsla mun færast í nokkuð eðlilegt horf. Sjá upplýsingar varðandi íþróttir og sundkennslu.

Íþrótta- og sundkennsla hjá 1. – 7. bekk

Notkun klefanna fyrir íþrótta- og sundkennslu verður ákveðnum takmörkunum háð þar sem nemendahópar mega ekki blandast þar inni. Klefarnir verða notaðir fyrir sundkennslu en íþróttakennsla verður skipulögð þannig að léttari hreyfing verður á dagskrá. Á þeim dögum sem nemendur eiga að vera í íþróttum er því óskað eftir því að þeir mæti í skólann í fötum sem gott er að hreyfa sig í. Nemendur geta þá farið úr peysum sínum í íþróttasalnum og verið í bol og þægilegum buxum. Þeir fara síðan ekki í sturtu að íþróttatíma loknum.

8. – 10. bekkur

Nemendur í 8. – 10. bekk munu áfram vera með grímuskyldu og 2 metra reglu og verða bekkirnir áfram tvískiptir. Nú verður þó skipulaginu á unglingastigi breytt á þann hátt að við setjum aftur á faggreinakennslu þar sem faggreinakennarar fara á milli hópanna og kenna sínar greinar. Lögð verður áhersla á bóknámsgreinar.
Tímasetningar verða þannig að fyrri hópur á unglingastigi verður í skólanum kl. 9.50 - 11.50. Þá hefst þeirra matartími og að honum loknum fara nemendur heim. Seinni hópur verður í skólanum kl. 12.30 - 14.30. Þeir sem eru í mataráskrift koma í skólann kl. 12.20 og fá þá sinn mat. Í báðum hópum borða nemendur matinn í skólastofum og skömmtun matar verður með eðlilegri hætti.

Skólamatur

Skömmtun matar verður með eðlilegri hætti og geta nemendur sem eru með matarmiða nýtt sér þá.

Tölvupóstar hafa verið sendir út með frekari skýringum fyrir hvern árgang.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan