Þorgrímur Þráinsson hvatti til samstöðu og góðra verka
Þorgrímur Þráinsson kom í sína árlegu heimsókn til nemenda í 10. bekk mánudaginn 3. október. Hann hélt fyrirlestur fyrir nemendur sem ber heitið Verum ástfangin af lífinu! Með honum hvatti hann nemendur til að setja sér markmið á hinum ýmsu sviðum lífs síns svo hjól lífsins myndi snúast á eðlilegan hátt. Jafnframt lagði hann áherslu á að nemendur legðu sig fram við að vera góðar manneskjur sem gefa af sér. Þannig yrðu þeir sáttari við sjálfa sig og hamingjusamari fyrir vikið. 10. bekkingar kunnu vel að meta hvatningarorð Þorgríms. Það gerðu nemendur á miðstigi einnig en þann flotta hóp hitti hann á sal fimmtudaginn 6. október og fór með fyrirlesturinn Sterk liðsheild - Hvað getum við lært af landsliðinu í Frakklandi? Þorgrímur hefur starfað með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu undanfarin misseri og vill nýta meðbyr landsliðsins til að hvetja nemendur til að leggja sig fram og þjálfa sig í að verða fyrirliðar í bekk, leiðtogar í eigin lífi og leggja sig fram við það sem þeir taka sér fyrir hendur. Hann sýndi myndir og myndbönd sem hann tók á meðan á dvölinni í Frakklandi stóð og útskýrði í hverju árangur liðsins fólst. Hann ræddi m.a. um mikilvægi samkenndar, hjálpsemi og virðingar gagnvart sjálfum sér og öðrum.