Styrktarsýning á söngleiknum Frelsi
Föstudaginn 11. mars frumsýndu nemendur á unglingastigi Heiðarskóla söngleikinn Frelsi í leikstjórn Guðnýjar Kristjánsdóttur og Maríu Óladóttur. Leikritið var sýnt fyrir fullum sal á mánudags og þriðjudagskvöld og nú hefur verið ákveðið að bæta við einni aukasýningu fimmtudaginn 17. mars. Allur ágóði sýningarinnar mun renna til Krabbameinsfélags Suðurnesja en hefð hefur skapast fyrir því að standa fyrir einni slíkri sýningu á ári. Nú geta bæjarbúar og aðrir áhugasamir komið og séð frábæra nemendasýningu og um leið látið gott af sér leiða með því að styrkja Krabbameinsfélag Suðurnesja.
Sýningin hefst kl. 20.00 á sal Heiðarskóla og er miðaverð 500 kr fyrir nemendur skólans en 1000 kr fyrir aðra.