18. febrúar 2021

Stóra upplestrarkeppnin

Ár hvert taka nemendur í 7. bekk í Heiðarskóla þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars þar sem þrír bestu upplesarar í umdæmi hverrar skólaskrifstofu eru heiðraðir.

Nemendur í 7. bekk hafa verið að þjálfa sig í vetur í að lesa upp fyrir framan bekkinn og staðið sig mjög vel. Miklar framfarir hafa náðst hjá öllum í að lesa upp, vera með góðan framburð og að koma fram. Bekkjarkeppni var haldin í byrjun febrúar þar sem valdir voru nemendur til að taka þátt í skólakeppni Heiðarskóla.

Skólakeppni Heiðarskóla fór fram fimmtudaginn 18. febrúar þar sem eftirfarandi 11 nemendur úr 7. bekk tóku þátt; Alexander Magnús Blake, Alísa Myrra Bjarnadóttir, Alma Rós Magnúsdóttir, Anna Arnarsdóttir, Brynja Arnarsdóttir, Emilía Sigrún Hauksdóttir, Guðlaug Emma Erlingsdóttir, Halldóra Mjöll Ingiþórsdóttir, Kacper Romanowski, Sandra Sól Aradóttir og Þorsteinn Helgi Atlason. Öll stóðu þau sig með stakri prýði og reyndist dómnefndinni það afar erfitt verkefni að velja aðeins tvo fulltrúa og einn til vara. Dómnefndina skipuðu þau Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi og fyrrverandi skólastjóri Heiðarskóla og Sóley Halla Þórhallsdóttir einnig fyrrverandi skólastjóri Heiðarskóla. Þau sem valin voru til að keppa fyrir hönd Heiðarskóla í Stóru upplestrarkeppninni sem fram fer þann 3. mars voru þær Alma Rós Magnúsdóttir, Brynja Arnarsdóttir og til vara er Anna Arnarsdóttir.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan