Skólaslit og útskrift 10. bekkjar
Ánægjulegu og eftirminnilegu skólaári var slitið fimmtudaginn 4. júní. Skólaslitin voru að venju þrískipt, fyrir 1.-3. bekk, 4.-6. bekk, 7.-9. bekk og svo útskrift 10. bekkjar.
Í 1.-6. bekk var hverjum árgangi eða bekk afhent viðurkenningarskjal með umsögnum og hvatningarorðum starfsfólks. Í 7.-9. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í bóklegum greinum, í list- og verkgreinum, framfarir í námi, dönskuverðlaun sem danska sendiráðið gefur og fyrir árangur í Skólahreysti og skólaíþróttum. Velunnarar skólans kostuðu einnig verðlaun til handa nemanda í 9. bekk sem sýnt hefur einstaka eljusemi og þrautseigju í bóklegu námi.
Á útskrift 10. bekkjar sungu þeir félagar Magnús Már Garðarsson, Magnús Rúnar Haraldsson og Tómas Ingi Magnússon lagið I want it that way með Backstreet boys við undir leik Sigrúnar Gróu Magnúsdóttur. Þær Eygló og Þóra, umsjónarkennarar, töluðu til nemenda sinna og annarra gesta og Magnús Már, formaður nemendaráðs, flutti erindi fyrir hönd nemenda. Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir. Heiðursnemandinn í ár er Ása Gísladóttir en að mati kennara og starfsmanna hefur hún verið sérstaklega jákvæð, kurteis og heiðarleg í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum. Nemendur fengu útskriftartrefla sem þeim voru afhentir en þeir tóku við vitnisburðarskjölum sínum. Þá var komið að því að Bryndís Jóna, skólastjóri, segði skólaárinu 2019 - 2020 slitið og voru nemendur í 10. bekk þar með útskrifaðir úr grunnskóla.
Að útskrift lokinni var hátíðarkvöldverður sem foreldrar útskriftarnemenda sáu um. Þetta var hátíðleg stund með dýrindis mat og eftirrétti. Nemendur fengu tilnefningar eins og t.d. hlátur skólans, hæfileiki skólans og fleira. Einnig létu nemendur ljós sitt skína í myndabás og voru teknar ansi margar myndir.
Á skólaslitum eða útskrift 10. bekkjar hefur venjan verið að kveðja þá starfsmenn sem hætta hjá okkur og veita þeim gjafir sem náð hafa 10 eða 20 ára starfsaldri í Heiðarskóla. Í ár mun þetta fara fram á starfsdögunum sem taka við að skólaslitadegi loknum. Margrét Eðvaldsdóttir fær gjöf frá skólanum fyrir 10 ára starfsafmæli og Þórunn Sigurðardóttir fyrir sín 20 ár í Heiðarskóla. Elísabet Guðrún, kennari í 3. bekk og Lilja Dögg, umsjónarkennari í 5. bekk verða kvaddar og þakkað fyrir góð störf og frábært samstarf. Svo er það hún Auður Helga Jónatansdóttir, sem mun í sumar ljúka sínum langa og afar farsæla kennsluferli. Hún hefur starfað í leik- og grunnskólum bæjarins frá árinu 1978. Verður hún kvödd með virktum.