8. júní 2016

Skólaslit og útskrift 10. bekkinga

Ánægjulegu skólaári var slitið á sal skólans í veðurblíðunni mánudaginn 6. júní. Skólaslitin voru að venju fjögur, fyrir 1.-3. bekk, 4.-6. bekk, 7.-9. bekk og útskrift 10. bekkjar. Eftirtaldir nemendur glöddu gesti með vönduðum tónlistarflutningi á skólaslitum 1.-9. bekkjar: Kamilla Anísa og Fjóla Margrét, báðar í 3. bekk, Luka og Magnús Már í 6. bekk og Arnar Geir í 9. bekk. Í 1.-6. bekk var hverjum bekk afhent viðurkenningarskjal með hrósi og hvatningarorðum starfsfólks. Í 7.-9. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í hinum ýmsu námsgreinum.

Haraldur skólaskólastjóri ávarpaði gesti á öllum skólaslitum en hann fór yfir helstu viðburði skólaársins og fjallaði m.a.um þau skref sem hafa verið tekin í umhverfismálum og samstarf heimila og skóla. Dagný Halla Ágústsdóttir söng og spilaði á gítar frumsamda lagið Maria og Elma Rún Kristinsdóttir spilaði lagið Say Something á píanó. Þær Eygló Pétursdóttir og Sveinbjörg Sævarsdóttir, umsjónarkennarar 10. bekkjanna, töluðu til nemenda sinna og annarra gesta og þau Einar Örn og Emilía Björt fluttu erindi fyrir hönd nemenda. Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir. Heiðursnemandinn í ár er Lovísa Kristín Þórðardóttir en að mati kennara og starfsmanna hefur hún verið sérstaklega jákvæð, kurteis og heiðarleg í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum. Þau Bojan Ljubicic, Árdís Sigmundsdóttir, Heiðrún Þórðardóttir og Eysteinn Hauksson munu láta af störfum og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf og þeim afhentur blómvöndur. Margréti Jóhannsdóttur var afhent gjöf fyrir að hafa náð sínu 10. starfsári í Heiðarskóla. Sóleyju Höllu var einnig afhentur blómvöndur en hún lét af störfum sem skólastjóri á vormánuðum. Eftir að hverjum nemanda hafði verið veitt vitnisburðarskjal og rós sagði Haraldur Axel skólárinu 2015-2016 slitið. Að skólaslitum loknum gæddu viðstaddir sér á gómsætum veitingum sem þær Ólöf Jónsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir, Guðbjörg Fríða Pálmarsdóttir ásamt fleirum höfðu galdrað fram af sinni alkunnu snilld. Myndir má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan