Skólahreystikeppni Heiðarskóla
Skólahreystikeppni Heiðarskóla fór fram í íþróttasal skólans eftir hádegi í dag. Eins og endranær var spennustig keppenda hátt og stuðningur nemenda í 5.-10. bekk góður. Myndarlegur hópur nemenda úr 9. og 10. bekk spreytti sig á hreystiþrautunum og stóðu þeir sig allir með stakri prýði. Fjórir nemendur báru sigur úr býtum og munu þeir líklega skipa Skólahreystilið Heiðarskóla eftir áramót. Elma Rósný Arnarsdóttir sigraði keppni í armbeygjum og hreystigreip. Hún gerði 47 armbeygjur og hékk í 2:53 sekúndur. Arnór Sveinsson sigraði keppni í upphífingum og dýfum en hann gerði 39 upphífingar og 20 dýfur. Nafni hans Arnór Breki Atlason fór á besta tímanum í gegnum hraðaþraut drengja eða á 1:01 sekúndu. Katla Rún Garðarsdóttir gerði sér lítið fyrir og bætti eigið met og þar með Heiðarskólametið í hraðaþraut kvenna um rúmar fjórar sekúndur en hún fór í gegnum hraðaþrautina á 0.51 sekúndu. Við óskum öllum keppendum okkar til hamingju með árangurinn! Fleiri myndir má sjá í myndasafni.