10. júní 2014

Skólaárinu 2013-2014 lokið

Ánægjulegu skólaári var slitið á sal skólans föstudaginn 6. júní. Skólaslitin voru að venju fjórskipt og flutti Sóley Halla skólastjóri erindi á þeim öllum. Tónlistaratriði voru flutt á öllum skólaslitum og Haraldur Axel aðstoðarskólastjóri veitti viðurkenningar með aðstoð deildarstjóra. Sú breyting var gerð í ár að á miðstigi voru veittar sameiginlegar viðurkenningar bekkja en ekki bókaverðlaun fyrir einstaklinga. Þótti það gefast vel.

Útskrift 10. bekkjar var síðust á dagskrá. Sóley Halla tók fyrst til máls og fór yfir skólaárið í ræðu sinni. Brynjar Steinn Haraldsson flutti lagið Cantaloupe eftir Herbie Hancock á píanó og Brynja Ýr Júlíusdóttir söng lagið Þannig týnist tíminn eftir Bjartman Guðlaugsson við undirspil Guðmundar Hermannssonar. Þær Agnes, Íris og Þórey umsjónarkennarar 10. bekkjanna töluðu til nemenda sinna og annarra gesta og Brynja Ýr, formaður nemendaráðs, flutti erindi fyrir hönd nemenda. Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir. Heiðursnemandinn í ár er Birta Rut Sigfúsdóttir en að mati kennara og starfsmanna hefur hún verið sérstaklega jákvæð, kurteis og heiðarleg í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum. Þær Berglind Stefánsdóttir matráðskona og Arnbjörg Drífa Káradóttir kennari munu láta af störfum og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf og þeim afhentur blómvöndur. Þeim Önnu Pálínu Árnadóttur og Esther Níelsdóttur voru afhentar gjafir fyrir að hafa náð sínu 10. starfsári í Heiðarskóla. Eftir að hverjum nemanda hafði verið veitt vitnisburðarskjal og rós sagði Sóley Halla skólárinu 2013-2014 slitið. Að skólaslitum loknum gæddu viðstaddir sér á gómsætum veitingum sem þær Þórunn Sigurðardóttir og Dagfríður Arnardóttir höfðu galdrað fram.

Myndir má sjá í myndasafni

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan