25. nóvember 2015

Skertur dagur og dagskrá aðventunnar

Föstudagurinn 27. nóvember er skertur kennsludagur og mun skóla ljúka kl. 11.10. Nemendur í 1.-4. bekk geta borðað hádegismatinn sinn áður en þeir fara heim eða í frístundarskólann. Rétt er að taka fram að foreldrar nemenda í 5.-10. bekk greiða ekki fyrir máltíðir á skertum dögum.
Þennan dag ætlum við að hleypa jólaandanum inn í skólann okkar og munum m.a. færa skólastofurnar í jólabúning. Skreytinganna fáum við svo að njóta alla aðventuna. Við hvetjum nemendur til að mæta íklædda einhverju sem minnir á jólin þennan dag.


Dagskrá aðventunnar verður annars með nokkuð hefðbundnu sniði. Hér er yfirlit yfir helstu viðburði sem eru sameiginlegir fyrir allan skólann eða aldursstig.


* Föstudaginn 27. nóvember verður hafist handa við að skreyta stofur í 1.-6. bekk. Í 7.-10. bekk fer fram stofuskreytingakeppni.

* Dagana 1.-4. desember fá nemendur súkkulaði og piparkökur á sal skólans.  

* 7.-11. desember verða sungnir jólasöngvar á sal.

* 15. desember sýna nemendur í leiklistarvali nemendum í 1.-4. bekk jólaleikrit á sal.

* 16. desember verður hátíðarmatur í hádeginu. Nemendur sem ekki eru í áskrift eða eiga matarmiða geta keypt miða í hátíðarmatinn í mötuneytinu á 500 kr fyrir kl. 13.00 mánudaginn 7. desember.

* Fimmtudaginn 17. desember lýkur allri kennslu kl. 13.10.

* Föstudaginn 18. desember er jólahátíð Heiðarskóla. Hefðin hefur verið að hafa hana þrískipta. Í ár verða allir nemendur saman í íþróttahúsinu þar sem m.a. verður gengið í kringum jólatréð en fara svo með umsjónarkennara í sínar heimastofur eins og venjan er. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur skiptist á gjöfum þetta árið. Jólahátíðin hefst kl. 9.00 og áætlað er að henni ljúki um kl. 10.30. Þennan dag er enginn frístundarskóli. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag jólahátíðar veita umsjónarkennarar þegar nær dregur.

 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan