Skemmtilegar krakkakosningar
Miðvikudaginn 26. október var blásið til krakkakosninga í Heiðarskóla þar sem allir nemendur skólans höfðu atkvæðisrétt. Á þriðjudeginum fræddu umsjónarkennarar í 1. - 6. bekk nemendur um lýðræði og kosningar auk þess sem horft var á kynningarmyndbönd framboðsflokkanna á www.krakkaruv.is. Hið sama gerðu nemendur í 7. - 10. bekk að morgni miðvikudagsins. Allan miðvikudaginn komu bekkir upp í fundaherbergi, sem breytt hafði verið í kjördeild og fengu að greiða sitt atkvæði. Gekk það ákaflega vel fyrir sig. Í þessu verkefni fengu nemendur að reyna fyrir sér sem kjósendur og ekki var annað að sjá en að þeir bæru mikla virðingu fyrir því hlutverki sínu. Stjórn nemendafélagsins setti sig hlutverk starfsmanna kjördeildar og leystu krakkarnir það hlutverk afar vel af hendi. Laufey Ragnarsdóttir, starfsmaður Heiðarskóla, undirbjó þá með því að fræða þá um hlutverk starfsmanna á kjörstað og var þeim innan handar.
Niðurstöður kosninganna hafa verið sendar til KrakkaRÚV og verða niðurstöður krakkakosninga fyrir landið allt birtar á kosningavökunni á laugardaginn. Nemendur í 8. bekk munu svo í framhaldinu vinna með tölfræði niðurstaðna okkar í stærðfræði.
Kjartan Már, bæjarstjóri og Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslu- og tómstundamála, litu við og fengu að sjá hvernig kosningarnar gengu fyrir sig.
Í aðalnámskrá grunnskóla (2013) eru settir fram 6 grunnþættir menntunar: Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Meginmarkmið þessa tiltekna verkefnis var fyrst og fremst að sinna þeim þætti sem snýr að lýðræði og mannréttindum. Var þetta þjálfun fyrir nemendur í því að mynda sér skoðun og að þeir átti sig á framtíðarstöðu sinni sem virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi, með öðrum orðum að efla borgaravitund þeirra. Undirmarkmiðin voru þó fjölmörg, eins og gefur að skilja.
Fleiri myndir má sjá í myndasafni en það er rétt að taka fram að það er auðvitað kolólöglegt að taka myndir á kjörstað :)