29. mars 2019

Síðasti vinnudagur Haraldar skólastjóra í Heiðarskóla

Í dag var síðasti vinnudagur Haraldar skólastjóra í Heiðarskóla. Nemendur á yngsta- og miðstigi kvöddu hann að loknum nemendaárshátíðum í gær með fallegum orðum, lófaklappi, knúsum og kortum sem bekkirnir höfðu útbúið handa honum. Að lokinni frumsýningu leikritsins Kardimommubærinn á árshátíð 8. - 10. bekkjar fór einnig kveðjustund fram. Þau Andri Sævar og Ásthildur Eva, formaður og varaformaður nemendaráðs, fóru með afar falleg orð til hans fyrir hönd nemenda. Kristján Freyr, formaður foreldrafélagsins, gerði slíkt hið sama fyrir hönd foreldra og það gerði einnig Guðný Kristjánsdóttir fyrir hönd starfsmanna auk þess sem honum var færð kveðjugjöf. 

Það var á öllu ljóst að mikill söknuður verður af góðum skólastjóra og samstarfsmanni.

Á mánudaginn mun Haraldur hefja störf sem grunnskólafulltrúi Reykjanesbæjar og mun hann vafalaust geta nýtt sína góðu mannkosti og ástríðu fyrir menntamálum í því starfi.

Haraldi þökkum við innilega gott samstarf og óskum honum alls hins besta í nýju starfi. 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan