Samstarfsverkefni með Isavia
Í gær fengu 4.bekkingar heimsókn frá verkfræðingum og arkitektum hjá Isavia sem voru með nemendum á vinnustofu þar sem nemendur fengu tækifæri til að spreyta sig á hönnunarverkefni. Gestirnir byrjuðu á að segja þeim frá flugvellinum og stækkun hans, voru með líkön af flugstöðinni og nýrri viðbyggingu og útskýrðu hönnunarferli fyrir öllum. Nemendur fóru svo í hópa þar sem þeir áttu að hanna hótel. Þau byrjuðu á að teikna/rissa upp á blað hugmynd sína og unnu svo saman að því að byggja og hanna sitt hótel úr verðlausu efni og fengu leiðbeiningar og aðstoð frá gestunum. Nemendur nutu sín í hönnunarferlinu og mátti sjá efnilega „verkfræðinga, arkitekta og verkstjóra“ líta dagsins ljós. Afraksturinn var skemmtilegur eins og sjá má á myndunum í myndasafni
Hér er um að ræða samstarfsverkefni Isavia og Heiðarskóla sem halda mun áfram í fleiri bekkjardeildum á næsta skólaári í tengslum við uppbyggingu á flugvallarsvæðinu en partur af uppbyggingunni snýr að samstarfi við grenndarsamfélag flugvallarins.