30. apríl 2025

Plokk í Heiðarskóla

Í haust var tekin sú  ákvörðun að Heiðarskóli yrði formlega hluti af neti UNESCO-skóla ásamt öðrum skólum á Suðurnesjum. Umhverfisteymi Heiðarskóla tók við keflinu og hefur unnið að innleiðingu UNESCO-verkefnisins fyrir næstu skólaár.

Eitt af meginmarkmiðum UNESCO-skóla er að taka þátt í alþjóðlegum dögum og vekja þannig meðvitund um málefni sem varða samfélagið, náttúruna og heimsborgaravitund. Við í Heiðarskóla ákváðum að halda Alþjóðlegan Jarðardag og tengja hann við hreinsun í nærumhverfinu okkar.

Dagarnir eftir páska voru nýttir til plokka þar sem hverfinu var skipt niður á milli árganga. Hver bekkur valdi sér dag sem hentaði þeim til að fara út og tína rusl í nánasta umhverfi skólans. Með þessu lögðu nemendur okkar sitt af mörkum til hreinna og snyrtilegri opinna svæða.

Að auki fór Stóri plokkdagurinn fram á sunnudaginn síðastliðinn og það gladdi okkur að sjá hversu margir nemendur tóku þátt með vinum og fjölskyldu. Þátttakan var til fyrirmyndar og sýndi vel þann samfélagslega kraft sem býr í nemendum okkar.

Við erum afar stolt af nemendum Heiðarskóla fyrir virðingu þeirra fyrir náttúrunni og umhverfinu. Saman fylltu þeir fjölda ruslapoka og komu þannig í veg fyrir að rusl myndi safnast upp á leiksvæðum og í grænni náttúru.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan