22. apríl 2016

Óvænt kveðjustund fyrir Sóleyju Höllu

Eins og kunnugt er sagði Sóley Halla upp störfum fyrr í vetur og Haraldur Axel aðstoðarskólastjóri hefur verið ráðinn í hennar stað. Sóley Halla mun ljúka störfum eftir viku eða um mánaðamótin næstu en þar sem 7. bekkur verður á Reykjum í næstu viku var ákveðið að halda óvænta kveðjustund fyrir hana í dag. Allir nemendur skólans og starfsfólk laumaði sér inn í íþróttasal eftir hádegismat. Haraldur Axel sá svo til þess að skálda upp ástæðu fyrir þau til þess að fara út í íþróttasal þar sem tekið var á móti henni með fögrum söng lagsins Vikivaka eftir Valgeir Guðjónsson við undirspil Mumma okkar Hermannssonar. Guðný Kristjánsdóttir sá svo um að stýra dagskránni. Fyrstur til að taka til máls var Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, sem þakkaði Sóleyju Höllu fyrir vel unnin störf. Hún hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri og skólastjóri í samtals 13 ár við skólann en vann þar áður sem kennari í Njarðvíkurskóla frá árinu 1990. Næst sagði Emilía Björt Pálmarsdóttir nokkur orð fyrir hönd nemenda skólans og svo fékk Kristján Geirsson, formaður foreldrafélagsins, orðið. Því næst talaði Haraldur Axel fyrir hönd starfsfólks og afhenti Sóleyju Höllu gjöf starfsmanna sem var garðbekkur. Að lokum sungu gestir saman skólasöng Heiðarskóla, Skólinn á heiðinni. Sóley Halla var alveg gáttuð yfir öllu saman og átti ekki til orð yfir það að samkoman skyldi hafa verið skipulögð án þess að hana hefði nokkuð grunað. Henni voru veittar góðar gjafir og var hún að vonum þakklát fyrir þessa góðu stund. Fleiri myndir má sjá í myndasafni.    

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan