Minning
Í dag verður Gestrún Sveinsdóttir, starfsmaður Heiðarskóla, jarðsungin frá Keflavíkurkirkju.
Gestrún, eða Rúna eins og hún var ávallt kölluð, hóf störf við Heiðarskóla haustið 2011. Hún féll strax mjög vel inn í starfsmannahópinn enda hafði hún einstaklega góða nærveru.
Rúna var traustur og góður starfsmaður sem sinnti störfum sínum við skólann af alúð. Hún hafði gott lag á börnum og lagði sig fram um að sýna öllum nemendum hlýtt og vinalegt viðmót. Í störfum sínum lagði hún áherslu á að börnunum liði sem best og var hún ávallt tilbúin til að ræða við þau, ljá þeim eyra og gefa þeim góð ráð.
Rúna var mikill dugnaðarforkur og gekk í þau verk sem þurfti að vinna. Sú elja einkenndi jafnframt hetjulega baráttu hennar við veikindin. Hún mætti þeim með jákvæðni og bjartsýni, staðráðin í að ná bata.
Við minnumst Rúnu með miklu þakklæti og munum varðveita minningar um góðan og glaðværan vinnufélaga.
Við vottum fjölskyldu Rúnu okkar innilegustu samúð. Þeirra missir er mikill.