4. nóvember 2013

Mikið um að vera í nóvember

 

Það verður nóg um að vera hjá okkur í nóvember.

Föstudagurinn 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti og mun næsta vika að því tilefni vera eins konar kærleiksvika í Heiðarskóla. Sem dæmi má nefna að umsjónarkennarar munu halda bekkjarfundi með nemendum sínum þar sem mál tengd vináttu og góðri framkomu verða til umræðu og allir nemendur munu gera vinabönd sem hnýtt verða saman í eitt stórt vinaband skólans.

16. nóvember er Dagur íslenskrar tungu og eins og venja er verða haldnar menningarstundir á sal skólans. Nemendum gefst þá kostur á að koma fram á sviði og skemmta öðrum nemendum, sem ýmist eru árinu yngri eða árinu eldri. Foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir á þessar stundir og munu umsjónarkennarar upplýsa foreldra um tímasetningu stundanna.

Nóvembermánuður verður sérstaklega tileinkaður lestri og lestraránægju. Lestur nemenda verður gerður sýnilegur á göngum skólans með lestrarþorpum, drekum og öðru. Yngri nemendur safna lestrarmínútum en unglingarnir mæla með sínum eftirlætisbókum með myndrænum hætti. Rithöfundar heimsækja bekkjardeildir og lesa upp úr bókum sínum og munu allir nemendur lesa meira en venjulega er gert í skólanum. Fleira lestrartengt verður brallað en kennarar hafa sniðið þau verkefni að aldri og getu nemenda sinna. Við hvetjum ykkur foreldra til að taka þátt í þessu verkefni með okkur og vera sérstaklega duglegir við að sýna lestri barna ykkar áhuga og hvetja þau áfram.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan