17. september 2015

Má ég vera memm? Bókagjöf

Fyrr í mánuðinum afhenti Harpa Lúthersdóttir skólanum fjölda eintaka af bók sinni Má ég vera memm? ásamt kennsluleiðbeiningum. Í inngangi bókarinnar lýsir Harpa því að bókin fjallar um einelti í máli og myndum sem ætti höfða vel til barna á aldrinum 3 til 9 ára. Hún segir jafnframt frá því að sjálf lenti hún í slæmu einelti á barnsaldri og að það hafi markað svo djúp spor í sál hennar að enn í dag glímir hún við afleiðingar þess. 

Til þess að fjármagna þessa rausnalegu gjöf safnaði Harpa peningum í verslun Bónuss á Fitjum. Harpa á mikið hrós skilið fyrir að hafa skrifað og gefið þessa lærdómsríku og fallegu bók út og við erum  henni afar þakklát fyrir að hún skuli hafa lagt það á sig að safna fyrir bókagjöfinni handa okkur. Nú þegar hafa kennarar lesið bókina fyrir nemendahópa sína og rætt innihald hennar auk þess sem nemendur sjálfir hafa bæði skoðað hana og lesið.

Við óskum Hörpu góðs gengis með að bera út þennan þarfa boðskap.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan