Lið Heiðarskóla í 4. sæti í Skólahreysti
Lið Heiðarskóla, skipað þeim Arnóri Sveinssyni, Elmu Rósnýju, Arnóri Breka og Kamillu Sól, keppti til úrslita í Skólahreysti í Laugardalshöll miðvikudaginn 22. apríl. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV og var mikil stemmning í höllinni. Liðið okkar var dyggilega stutt af stórum hópi nemenda, kennara og fjölskyldumeðlima. Alls tóku tólf skólar þátt í þessari æsispennandi úrslitakeppni. Kamilla Sól kom inn í liðið fyrir Kötlu Rún sem hafði snúið sig á ökkla á æfingu fyrir keppnina. Arnór Sveins hóf keppnina í upphífingum og dýfum, því næst kom að Elmu Rósnýju í armbeygjum og hreystigreip og allra síðast kepptu þau Kamilla og Arnór Breki á móti Holtskælingum í hraðaþrautinni. Spennan var þá í algjöru hámarki og gerðu þau sér lítið fyrir og náðu besta tíma úrslitakeppninnar. Þau fóru hringina á 2.06 mínútum og voru aðeins einni sekúndu frá Íslandsmetinu.
Liðið endaði í 4. sæti með 47 stig. Við erum ákaflega stolt af frammistöðu okkar fólks og óskum fjórmenningunum og Helenu íþróttakennara og þjálfara liðsins innilega til hamingju með árangurinn. Þau vilja koma þökkum til Lífsstíls og Unnars Más Unnarssonar fyrir aðstoð við undirbúning og æfingar og SS bílaleigu fyrir að hafa styrkt þau um bílaleigubíl til þess að komast til og frá keppni.