8. maí 2019

Lið Heiðarskóla í 3. sæti í Skólahreysti!

Lið Heiðarskóla, skipað þeim Bartosz, Eyþóri, Hildi Björgu og Klöru Lind, stóð sig frábærlega í úrslitum Skólahreystis í Laugardalshöll í gærkvöldi. Eftir að þau Eyþór og Klara fóru svo gott sem á ljóshraða í gegnum hraðaþrautina var ljóst að liðið okkar lenti í 3. sæti með 53 stig í mjög jafnri keppni. Í öðru sæti með 55 stig var lið nágranna okkar úr Holtaskóla og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Sigurvegararnir komu ekki úr Reykjanesbæ þetta árið heldur úr Lindaskóla í Kópavogi en lið þeirra vann með 56 stigum. Mikil stemmning var í Höllinni og var liðið okkar dyggilega stutt af hópi nemenda, kennara og fjölskyldumeðlima. Alls tóku tólf skólar þátt í þessari æsispennandi úrslitakeppni. Árangur keppenda okkar var eftirfarandi:

Bartozs: 42 upphífingar og 53 dýfur (1. sæti)

Hildur Björg: 42 armbeygjur og hékk í 1.49 mínútur

Klara Lind og Eyþór fóru hreystibrautina á 2.03 mínútum (1. sæti) og jöfnuðu Íslandsmetið.

Aðal styrktaraðila keppninnar, Landsbankinn, veitti nemendafélaginu okkar 100.000 krónur og fengu liðsmenn okkar 10.000 kr gjafabréf.

Þetta er í 6. sinn sem lið Heiðarskóla kemst á verðlaunapall í úrslitum þessarar skemmtilegu keppni. Í ár hafði liðið okkar titil að verja en í fyrra unnum við keppnina í þriðja sinn og höfðum í tvígang lent í 2. sæti. Við erum að vonum ákaflega stolt af krökkunum okkar og getum ekki annað en dáðst af hetjulegri frammistöðu þeirra og fyrirmyndarframkomu í öllu ferlinu. Samstaða þeirra og virðing fyrir hverju öðru og verkefninu hefur einnig verið eftirtektarverð. Ekki má gleyma að vekja athygli á því að miklar og metnaðarfullar æfingar liggja að baki þessum árgangri en keppendur hafa æft vel á skólatíma en einnig í fríum sínum. 

Við óskum fjórmenningunum, varamönnum og Helenu íþróttakennara innilega til hamingju með árangurinn!

 

 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan