Lestrarsprettur og lukkupottur
Dagana 2. - 13. desember fór fram lestrarsprettur í Heiðarskóla. Fyrir hverjar 30 mínútur sem nemendur lásu í yndis- og heimalestri settu þeir snjókorn og jólakúlur í gluggana. Fyrir sama fjölda mínútna gátu þeir skilað inn lestrarlukkumiðum sem dregið var úr í dag. Dregið var úr potti hvers aldursstigs og úr þeim komu nöfn þriggja nemenda. Á yngsta stigi var sú heppna Vigdís Halla Rúnarsdóttir, á miðstigi Daði Rafn Falsson og á því elsta Lilja Bergmann Tryggvadóttir. Í lestrarlukkuvinning voru tveir bíómiðar og bók og voru krakkarnir að vonum glaðir.
Lestrarmetnaðurinn var mjög mikill hjá nemendum og er gaman að sjá hversu mikið hefur ,,snjóað" hjá okkur í Heiðarskóla. Ákveðið var að telja saman fjölda miða sem var skilað inn og segja tölurnar meira en mörg orð.
1. - 3. bekkur las í 413 klukkustundir
4. - 6. bekkur las í 516 klukkustundir
7. - 10. bekkur las í 278 klukkustundir
Samtals lásu því nemendur í 1207 klukkustundir eða í rétt rúma 50 sólarhringa. Geri aðrir betur.
Foreldrar eru eindregið hvattir til að vekja athygli barna sinna á nýútkomnum bókum. Í Krakkafréttum má til að mynda fylgjast með skemmtilegri bókaumfjöllun.