17. desember 2018

Lesið upp úr skemmtilegum nýjum bókum

Frá því í  lok október hafa rithöfundar lagt leið sína til okkar í Heiðarskóla til þess að kynna og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Ævar Þór Benediktsson kom fyrstur þeirra en hann las upp úr bókinni sinni Þitt eigið tímaferðalag í lok október fyrir nemendur í 3. - 7. bekk.

Í lok nóvember kom Gunnar Helgason og las fyrir 3. - 8. bekk upp úr bók sinni Siggi sítróna og skemmti áheyrendum vel með fjörugri framkomu sinni. Bókin er sú fjórða og síðasta um Stellu og fjölskyldu hennar.

Í byrjun desember mætti Þorgrímur Þráinsson á svæðið og las upp úr Henri rænt í Rússlandi. Er hún þriðja bókin sem fjallar um franska strákinn Henri sem í fyrstu bókinni kynntist íslenska landsliðinu í Annesy í Frakklandi. Nú leggur hann í hættuför til þess að komast á HM í Rússlandi.

Tveimur dögum síðar heimsótti Ragnheiður Eyjólfsdóttir nemendur á unglingastigi og las fyrir þá upp úr bókinni sinni Rotturnar

Bergrún Íris Sævarsdóttir kom síðust þessara ágætu rithöfunda og las upp úr Langelstur í leynifélaginu sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Elstur í bekknum sem hún las upp úr fyrir nemendur af yngsta stigi í fyrra. 

Nemendur hafa bæði gagn og gaman af heimsóknum sem þessum og hafa þær merkjanleg áhrif á bókaáhuga þeirra. Bækurnar sem lesið er upp úr hverfa samstundis á bókasafninu og sjást gjarnan ekki þar fyrr en fer að vora því þegar þeim er skilað eru  þær lánaðar út aftur um leið. Biðin eftir þessum nýju bókum getur verið löng og því ekki úr vegi að lauma einhverjum þeirra eða öðrum góðum bókum undir jólatréð enda er fátt notalegra en að gleyma sér í bókalestri í jólafríinu.

     

  

 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan