Leikur, söngur, dans og gleði!
Árshátíðir Heiðarskóla fóru allar þrjár fram á sal skólans í dag. Fjölmennur hópur nemenda í 1. bekk steig fyrstur á svið í morgun. Í hlutverkum ávaxta í Ávaxtakörfunni þreyttu krakkarnir í 1. bekk frumraun sína í sviðsframkomu á árshátíð og stóðust þeir svo sannarlega prófið. Þaulæfðir nemendur í 2. bekk sýndu gestum því næst hvað þeir hafa lært í forskólanum hjá Sigrúnu Gróu í blokkflautuleik og svo sungu þeir af mikilli snilld um svaninn fagra og mömmu Pakitu, með hristum, klappi og stappi. Nokkrir krakkar úr 3. bekk sýndu síðan snilli sína í hjóðfæraleik en allur árgangurinn söng af krafti Vikivaka við undirspil Mumma tónmenntakennara og kváðu burt fordóma með hinu vinsæla lagi Pollapönkara. Á árshátíð yngsta stigs mátti glöggt sjá að með hverju skólaárinu sem líður eflast nemendur okkar í sviðsframkomu.
Á miðstigi mættu þrautreyndir sviðslistamenn til leiks. Fjórði bekkur reið á vaðið með þaulæfðum og taktföstum flutningi vísna og fögrum söng. Krakkarnir í 5. bekk mættu íklæddir Charleston klæðum og sungu, dönsuðu og léku atriði úr hinum klassíska söngleik um Bugsy Malone með miklum tilþrifum. Þau Aron og Hjördís í 6.ÓB brugðu sér svo í hlutverk Danny Zuko og Söndru D. og bekkjarfélagar þeirra vippuðu sér í leðurjakka og lifðu sig vel inn í Grease hlutverkin. Sýndu þau öll snilldartakta, bæði í söng og dansi. Nemendur í 6.HS skemmtu sjálfum sér og gestum við að dansa hina ýmsu dansa sem vinsælir hafa verið í gegnum tíðina. Þarna mátti sjá tvist, moonwalk, hipp hopp og hvaðeina. Krakkarnir í 7.DG sýndu því næst hið bráðskemmtilega leikrit Þegar ég verð stór eftir Daníellu, umsjónarkennarann þeirra. Síðust á svið voru nemendur í 7.ÞG en þau reyndu að sjá fyrir sér mögulega umsækjendur um stöðu skólastjóra Heiðarskóla á skoplegan hátt, dönsuðu síðan YMCA og sýndu loks fyndið fimleikaatriði.
Á báðum þessum sýningum voru sýnd tvö atriði úr unglingasöngleiknum Frelsi sem var svo frumsýndur á unglingaárshátíðinni eftir hádegi. Verkið er eftir Skagamennina Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson og var síðast sett upp fyrir 6 árum, á 10 ára afmælisári skólans. Sló það rækilega í gegn og muna leikararnir sjálfir vel eftir sér, töluvert lægri í loftinu en nú, sönglandi lögin með stjörnur í augunum yfir leikurunum á göngum skólans. Frumsýningin heppnaðist prýðisvel og eiga leikarar og aðrir þátttakendur í þessu frábæra verkefni mikið hrós skilið, ekki síst þær Guðný Kristjánsdóttir og María Óladóttir leikstjórar.
Foreldrum færum við okkar bestu þakkir fyrir kaffiveitingar og frábæra mætingu. Þakkir fær einnig allt starfsfólk skólans en á dögum sem þessum leggjast allir á eitt við að láta allt ganga sem best.
Fleiri myndir má sjá í myndasafni.