Leikgleði í grunnskólum - lokahátíð
Á dögunum fór fram lokahátíð verkefnisins Leikgleði í grunnskólum Reykjanesbæjar. Í verkefninu hefur verið unnið með nám þar sem málörvun, gleði, leikur, hópefli, virk þátttaka nemenda og frjáls tjáning hefur verið í aðalhlutverki.
Verkefnið hófst í raun fyrir tveimur árum í leikskólum Reykjanesbæjar og gekk það vel að sótt var aftur um styrk í Sprotasjóð til að vinna með verkefnið í grunnskólum bæjarins í 1. og 2. bekk. Hljómahöllin var þétt setin þennan dag og öll komu börnin fram á þessu fræga sviði og hver veit nema sum þeirra eigi eftir að leggja einhvers konar listir fyrir sig í framtíðinni.
Ólöf Kristín Guðmundsdóttir eða Lóa eins og hún er jafnan kölluð, er kennsluráðgjafi á Menntasviði Reykjanesbæjar. Hún stýrir verkefninu og fékk sérfræðinga úr höfuðborginni, leikskólakennarana Ingibjörgu (Imma) Ásdísi Sveinsdóttur og Birte Harksen, sér til halds og trausts þennan sólríka dag.
Frétt birtist á vef Víkurfrétta í vikunni.