8. febrúar 2013

Kappleikir kennara og 10. bekkinga

 

Kennarar og nemendur í 10. bekkjum öttu kappi í gær, fimmtudag. Drengirnir mættu kennurum í knattspyrnu en stúlkurnar í handknattleik. 10. bekkingar eygðu von um að fara með sigur af hólmi í fyrsta skiptið í sögu Heiðarskóla en komust fljótt að því að þeir áttu við afuröfl að etja. Vonir þeirra um að skrá sig á spjöld Heiðarskólasögunnar urðu því að engu, eins og við var að búast. Karlarnir báru auðveldan sigur úr býtum en stúlkurnar stóðu lengi vel í konunum. Þær ungu urðu þó að játa sig sigraðar þrátt fyrir mikið kvart og kvein um svindl og tuddaskap - enda ekki annað í boði. :-) Enginn annar en milliríkjadómarinn Magnús Þórisson sá um dómgæsluna í knattspyrnuleiknum og hinn mikli spyrnusérfræðingur, Guðmundur Steinarsson, sá til þess að hinir ungu og óhörðnuðu skulfu á beinunum. Konurnar kölluðu ekki til sín neina gestaleikmenn. Það dró þó til tíðinda þegar Helena íþróttakennari, sem hafði ekki gefið kost á sér í handknattleiksliðið þetta árið, gat ekki setið á sér, reif sig úr peysunni og þrumaði svo inn hverri sleggjunni á fætur annarri. Borist hefur til eyrna kennara að nemendur í 9. bekk séu þegar farnir að skipuleggja æfingar fyrir keppni næsta árs. Það hefur áður verið reynt en nemendur ekki haft árangur sem erfiði. Fleiri myndir má sjá hér.

 

 

 

 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan