Hreystikeppni miðstigs
Í gær, þriðjudaginn 15. maí, öttu nemendur í 5. - 7. bekk kappi í skólahreystiþrautum Heiðarskóla. Líf og fjör var í íþróttasalnum og var mikill kraftur í þátttakendum. Skólamet voru slegin og hvaðeina! Vaskar stúlkur og tápmiklir drengir spreyttu sig á þrautunum. Katrín Hólm í 6. EN gerði hvorki meira né minna en 81 armbeygju og Fjóla Margrét í 5. KK hékk í 3.43 mínútur. Heiðar Geir sló Heiðarskólametið í upphífingum í fyrra en bætti metið sitt með 8 upphífingum og gerði því 39. Snorri Rafn í 5. KK gerði heilar 50 dýfur og bætti með því met Heiðars frá því í fyrra um 21. Bekkjarsystkinin Kristófer Máni og Júlía í 7. SB geystust hraðast í gegnum hreystibrautina. Kristófer Máni fór hringinn á 58.9 sekúndum og Júlía sló stúlknametið með því að fara þrautina 48,2 sekúndum. Eins og í fyrra var keppnin sett upp sem bekkjarkeppni og bar 7. SB sigur úr býtum með 30 stig. 6. EN vermdi 2. sætið með 27 stigum og í 3. sæti var svo 5. KK með 22 stig.
Allir keppendur stóðu sig prýðisvel og þökkum við þeim fyrir þátttökuna.