8. nóvember 2021

Háttvísidagur Heiðarskóla

Árlega erum við með Háttvísidag Heiðarskóla og tengjum hann við baráttudag gegn einelti sem er 8. nóvember ár hvert.

Dagurinn hófst með ljósagöngu. Markmiðið með ljósagöngunni er að sýna táknrænt fram á að það er alltaf ljós í myrkrinu, það er alltaf von. Við göngum saman til að sýna að við erum ekki ein og saman náum við að lýsa upp heiminn. Ljósið er tákn fyrir vináttu, hlýju, umhyggju, samstöðu, von og vilja.

Nemendur og starfsfólk gengu saman með vasaljós og lýstu upp Heiðarskólahverfið og sýndu um leið að okkur er annt um hvort annað og erum til staðar fyrir hvort annað. Við viljum lýsa upp það samfélag sem við búum í.

Eftir göngu fóru nemendur í sínar heimastofu og horfðu á myndband um einelti (sjá tengil hér neðar í fréttinni) og voru svo með bekkjarfund þar sem rætt var um myndbandið, að vera í eineltisbaráttuliðinu og hvernig við vinnum að þeim hugmyndum sem þar komu fram. Það skiptir máli að öllum líði vel í skólanum okkar.

Að lokum unnu nemendur að verkefni um jákvæð skilaboð: Þú ert frábær! Brostu! Snillingur ertu! og svo framvegis. Skilaboðin eru sett inn í talbólur og hengd upp um ganga skólans. Skilaboðin eru á öllum þeim tungumálum sem eru í skólanum okkar.

Frábær vinna á góðum degi.

https://vimeo.com/371614828

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan