Göngum í skólann
Heiðarskóli hefur ákveðið að taka þátt í Göngum í skólann, verkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Embætti landlæknis, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Heimilis og skóla. Göngum í skólann var sett í gærmorgun í Akurskóla og lýkur því formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 5. október.
Þetta er í tíunda sinn sem verkefnið er haldið hér á landi og hefur þátttaka aukist jafnt og þétt. Megin markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar, að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og það hversu ,,gönguvænt” umhverfið er. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.gongumiskolann.is
Heiðarskóli hefur ekki áður tekið formlega þátt í þessu verkefni. Í yngri bekkjum munum við nýta okkur göngudagatal en í það geta nemendur merkt við fyrir hvert skipti sem þeir ganga eða hjóla í skólann. Nemendur í 8.-10. bekk geta merkt við í dagatalið í iPadnum og svo eru skiptin gerð upp með umsjónarkennara á mánudögum. Auk þess hefur sameiginleg gönguleið verið ákveðin og hana ganga bekkir eða árgangar a.m.k. einu sinni á þessu tímabili.
Við biðjum foreldra/forráðamenn um að vera duglega að hvetja börnin sín til að ganga eða hjóla í skólann. Ef þau eru ung og ekki vön því hvetjum við ykkur til að ganga með þeim örugga leið í fyrsta skiptið, hvort sem er að morgni á leið í skóla eða í frítíma.
Nemendur af Ásbrú geta farið fyrr úr skólabílnum og gengið síðasta spölin. Aðrir nemendur sem búa langt frá skólanum geta farið út úr strætó eða bíl þess sem skutlar fyrr en vanalega. Fyrir þessa nemendur er einnig í boði að ganga í kringum skólann í frímínútum og fá það skráð.
Vonandi gengur þetta vel hjá okkur. Nýtum haustið til að vekja athygli á hreyfingu og öryggi barnanna okkar á leiðinni í skólann.