Góðar niðurstöður ytra mats á Heiðarskóla
Á haustmánuðum fór fram ytra mat á Heiðarskóla. Það fólst í því að tveir matsaðilar frá Menntamálastofnun dvöldu í skólanum 12. - 16. nóvember og fóru í vettvangsskoðanir í kennslustundir hjá öllum nemendum, tóku rýniviðtöl við starfsmenn, foreldra, nemendur og fulltrúa úr skólaráði.
Matsaðilar skoðuðu auk þess öll möguleg gögn um skólann, bæði á heimasíðu og gögn sem þeir óskuðu eftir frá skólanum, samræmd könnunarpróf og aðrar kannanir og hvaðeina sem gat varpað ljósi á okkar skólastarf.
Við erum mjög ánægð með niðurstöður matsins en í því felst hrós til starfsfólks skólans fyrir vel unnin störf en um leið liggja þar tækifæri til þess að gera gott skólastarf enn betra.
Næsta skref hjá okkur í Heiðarskóla er að vinna að umbótaáætlun sem skilað verður til ráðuneytisins á vormánuðum.
Samantekt á helstu niðurstöðum voru sendar á foreldra í upphafi árs en skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.