23. mars 2022

Glæsilegri árshátíð lokið

Árshátíð Heiðarskóla lauk í dag með glæsibrag.

Árshátíð var að venju þrískipt, 1. – 4. bekkur og 5. – 7. bekkur var með sína árshátíð föstudaginn 18. mars en 8. – 10. bekkur hélt sína árshátíð 23. mars. Að venju voru atriði nemenda mjög flott og mikið lagt í þá vinnu sem þar fór fram.  

Á árshátíð 1. - 4. bekkjar voru söngvar sungnir, vísur kveðnar og forskólalög spiluð á flautur. 1. bekkingar þreyttu frumraun sína á sviði og stóðust þá áskorun með glæsibrag með lögum um veðrið. 2. bekkur sýndi hvað í honum býr með kröftugum söng og vönduðu forskólaflautuspili undir stjórn Sigrúnar Gróu. Þriðji bekkur var með eftirhermur og danssýningu og 4. bekkur var með upplestur og söng. Kynnar á árshátíð yngsta stigs voru þau Arnór Kári og Árdís Eva. 

Á miðstigi mættu reynslumiklir sviðslistamenn til leiks. 5. bekkirnir komu fram í sitt hvoru lagi, 5. HS voru með leikrit og söng sem hét Gísli Marteinn og Gísla Martína og 5. SB sögðu frá mismunandi þjóðerni í bekknum sínum.  Nemendur í 6. bekk sýndu sínar allra bestu hliðar í leik og söng, 6. UB var með söngleik um bekkinn sinn og 6.SB sömdu atriði úr myndinni Encanto. Loks komu 7. bekkirnir sögðu okkur frá tónskáldinu Bubba Morthens og sungu tvö lög eftir Bubba.  Kynnar á miðstigs árshátíðinni voru þeir Matthías og Bjarki Már.

Eins og áður hefur komið fram þurfti að fresta árshátið unglinganna um nokkra daga. En það var ekki að sjá að það hefði haft einhver áhrif því stemmingin var góð og gleði í hópnum. Leikritið Grease var frumsýnt og er skemmst frá því að segja að unglingarnir stóðu sig frábærlega vel og vakti leikritið og frammistaða þeirra mikla lukku. Stóran part af leikmyndinni höfðu nemendur í leikmyndavali unnið með aðstoð Ragnars Birkirs kennara. Leikstjórn var í höndum þeirra Daníellu, Estherar og Guðnýjar og eiga þau öll mikið hrós skilið fyrir vel unnin störf. Í næstu viku fara fram opnar kvöldsýningar á verkinu og verða þær auglýstar fljótlega.

Starfsfólk og nemendur hafa lagt mikla vinnu í það að undirbúa árshátíðardaginn og gera hann sem glæsilegastan. Eiga þeir skilið bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Skólinn var fagurlega skreyttur marglitum pappírsblómum, ísum, bílum, plötum, dúkkulísum og fleira, allt í anda Grease.  Skreytingateymi starfsmanna á heiðurinn af undirbúningi, framkvæmd og uppsetningu þeirra. Síðast en ekki síst ber að nefna foreldra og aðra gesti. Við færum þeim okkar bestu þakkir fyrir góða mætingu, loksins gátum við opnað skólann okkar fyrir gestum og fylltist húsið af frábærri orku og miklu lífi. Við getum sannarlega öll verið stolt af árshátið Heiðarskóla 2022.

Myndir af árshátíðinni má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan