Frelsi sett upp í annað sinn - almennar sýningar
Föstudaginn 11. mars, frumsýndu nemendur úr 8.-10. bekkjum Heiðarskóla söngleikinn Frelsi á árshátíð unglingadeildar skólans. Verkið er eftir Skagamennina Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson og var síðast sett upp fyrir 6 árum, á 10 ára afmælisári skólans. Sló það rækilega í gegn og muna leikararnir sjálfir vel eftir sér sönglandi lögin með stjörnur í augunum yfir leikurunum á göngum skólans, þá töluvert lægri í loftinu en nú. Guðný Kristjánsdóttir og María Óladóttir annast leikstjórn verksins í annað sinn.
Almennar sýningar verða mánudaginn 14. mars kl. 20.00 og þriðjudaginn 15. mars kl. 20.00. Miðaverð er 1000 kr. en 500 kr. fyrir nemendur skólans. Sýningin stendur yfir í rúma klukkustund.
Hefð hefur skapast fyrir styrktarsýningum undanfarin ár og ef af einni slíkri verður mun hún verða auglýst sérstaklega síðar.