Frábært framtak drengja í 4. bekk
Þessir ungu drengir í 4. ÞS, þeir Damjan, Viktor Logi og Rúnar Máni, tóku sig til og tíndu rusl á skólalóðinni í hádegisfrímínútum í dag. Þeim þótti ruslið á lóðinni vera orðið alltof mikið og vildu gera eitthvað í málinu. Þeir ræddu við Möggu Eðvalds um hvort þeir gætu ekki fengið poka og ruslatínu. Þó ekki væri til ruslatína í skólanum var lítið mál að láta þá fá poka og hanska. Það var eins og við manninn mælt, þeir brettu upp ermar og gengu vaskir til verks. Stjórnendur þökkuðu þeim fyrir þetta fyrirmyndarframtak þar sem árgangurinn var samankominn við æfingar fyrir litlu upplestrarhátíðina og fengu þeir verðskuldað lófaklapp. Verst þótti þeim hve mikið er af tyggjóklessum á stéttunum í kringum skólann. Þeir segjast ekki hafa lokið verkefninu og ætla því að halda ruslatínslunni áfram á morgun. Sjálfsagt þykir þeim að fleiri sláist í lið með þeim. Þarna sýndu þeir góða hæfni í lykilhæfniþáttum aðalnámskrárinnar; í skapandi og gagnrýninni hugsun, sjálfstæði, samvinnu og ábyrgð - svo fátt eitt sé nefnt :)