Frábærir þemadagar afstaðnir
Nýafstaðnir þemadagar okkar báru yfirskriftina - Tækni, vísindi og nýsköpun. Fóru þeir fram dagana 13. - 15. febrúar. Nemendur fengust við alls kyns spennandi verkefni og það verður ekki annað sagt en að þeir hafi verið bæði áhugasamir og ánægðir með viðfangsefnin. Ekki skemmdi matseðill þessara daga fyrir en sumir réðu sér vart fyrir kæti yfir því að á föstudeginum hefði verið pizza í matinn! Eftir fyrsta þemadaginn hafði nemandi í 1. bekk það á orði að dagurinn hefði verið skemmtilegri en sumarfríið hans. Á lokadeginum sagði annar nemandi skælbrosandi, með stóra pizzusneið í höndum að þessi dagur væri besti dagur lífsins :)
Yngsta stigið glímdi við alls kyns vísindaverkefni og gerði tilraunir. Rúsínan í þeirra pylsuenda var svo heimsókn leynigests en þegar allir voru samankomnir í sal skólans kom í ljós að það var enginn annar en Villi vísindamaður. Börn jafnt sem fullorðnir skemmtu sér konunglega. Miðstigskrakkarnir sýndu þrælflotta nýsköpunartakta sem sjá mátti á Skólagötu eftir hádegi á lokadegi. Frábærar hugmyndir fæddust og afrakstur vinnu þeirra var virkilega áhugaverður og flottur. Unglingarnir fengu að prófa sig áfram í alls kyns vinnustofum sem virtust hver annarri skemmtilegri. Þeir tóku til að mynda tölvur í sundur og bjuggu til nýja hluti úr aukahlutunum, forrituðu bæði Sphero kúlur og Fable arma, gerðu ,,stopmotion" stuttmyndir, leystu gátur og þar með lása í BreakOutEDU verkefnum, bjuggu til tónlistarmyndbönd og fleira. Villi vísindamaður var ekki eini gesturinn okkar þessa daga heldur heiðraði Sævar Helgi Bragason, getur þekktur sem Stjörnu-Sævar, okkur einnig með nærveru sinni. Hann flutti afar áhugaverð og lærdómsrík erindi fyrir bæði mið- og elsta stig um ýmislegt er varðar tækni, vísindi og nýsköpun en þó fyrst og fremst út frá þróun geimvísinda og náttúruvernd. Stjórn foreldrafélagsins veitti skólanum styrk til þess að fá þessa frábæru félaga í heimsóknir til okkar. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Svona skemmtilegir dagar verða ekki að veruleika nema fyrir tilstuðlað kröftugs starfsfólks og frábærra nemenda. Heiðarskóli er svo heppinn að vera ríkur af hvoru tveggja. Börn og fullorðnir eiga því mikið hrós skilið fyrir það að gera þessa daga svona skemmtilega.
Myndir má sjá í myndasafni.