1. júní 2015

Dansað og sungið fyrir hr. Ólaf Ragnar Grímsson

Í byrjun nóvember s.l. fóru starfsmenn Heiðarskóla í skoðunarferð að Bessastöðum. Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson tók höfðinglega á móti hópnum og sagði m.a. frá sögu hússins og umhverfinu. Hann sagði frá Skansinum og  kom fram í máli hans að hann hafði orðið var við að börn og unglingar virtust ekki kunna lengur vísurnar um Óla Skans og ekki heldur dansinn. Starfsmenn Heiðarskóla tóku undir þetta með honum og sögðu að bragarbót skyldi gerð á þessu. 
 
Það var auðvitað ekkert annað í boði en að starfsmannahópurinn myndi standa við orð sín! Allir nemendur Heiðarskóla hafa því undanfarna daga lært að syngja vísurnar um Óla Skans og að sjálfsögðu einnig að stíga dansinn. Í morgun var svo fjölmennt í íþróttasalinn þar sem okkar myndarlegi nemendahópur gerði gott betur en að syngja og dansa Óla Skans. Raddböndin voru einnig þaninn í lagi Friðriks Dórs, Í síðasta skiptið, og skólasöngnum auk þess að nemendur fóru létt með nokkur kántrídansspor. 
 
Skemmst er frá því að segja að forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson heiðraði okkur með nærveru sinni og átti þessa skemmtilegu stund með nemendum. Hann kvað sér máls eftir að Stella Björk Einarsdóttir, formaður nemendaráðsins, þakkaði virðulegum forseta fyrir komuna. Hann lýsti yfir ánægju sinni með tilþrif nemenda og kvað þess fullviss að við þetta tilefni hefði Íslandsmet verið slegið í Óla Skans. Hann færði nemendum góða kveðju frá Dorrit sem átti að lenda stuttu síðar á Keflavíkurflugvelli. Nemendur kunnu vel að meta heimsókn forsetans. Þeir voru til fyrirmyndar og stóðu sig með glæsibrag.
 
Fleiri góðir gestir nutu stundarinnar með okkur og má þar nefna Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra og Helga Arnarson, fræðslustjóra auk fleiri starfsmanna fræðsluskrifstofu og menningarsviðs Reykjanesbæjar. Einstaklega ánægjulegt var að fá ömmur og afa í heimsókn svo og foreldra.  
 
Nokkrum einstaklingum ber að þakka sérstaklega fyrir ómetanlegt framlag þeirra til þessa viðburðar. Guðný Kristjánsdóttir stóð sig vel í hlutverki viðburðarstjóra. Esther Níelsdóttir hefur verið eins og þeytispjald um allan skóla undanfarna daga að kenna nemendum dansinn og stýrði honum vel í morgun. Elín Gunnarsdóttir var Esther góð hjálparhella í salnum. Guðmundur Hermannsson spilaði undir og stýrði söngnum eins og honum einum er lagið og aðstoðarfólk hans úr 10. bekk þau Arnór Breki Atlason, Emilíana Wing, Katla Rún Garðarsdóttir og Nína  Björk Gunnarsdóttir sungu af mikilli snilld. Nemendur okkar allir, kennarar þeirra og starfsfólk eiga að sjálfsögðu einnig mikið hrós skilið fyrir að hafa lagst á eitt við að láta þennan viðburð verða skemmtilegan og vafalaust einnig eftirminnilegan.
 
Fleiri myndir má sjá í myndasafni.
 
 
  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan