24. maí 2019

Bryndís Jóna verður skólastjóri tímabundið og María aðstoðarskólastjóri

Breyting varð á ráðningu Rafns Markúsar Vilbergssonar sem hafði þegið stöðu skólastjóra að loknu ráðningarferli í kjölfar þess að Haraldur Axel var ráðinn grunnskólafulltrúi Reykjanesbæjar. Rafn Markús afþakkaði stöðuna en áður en það varð ljóst hafði Bryndís Jóna, aðstoðarskólastjóri, verið ráðin tímabundið sem skólastjóri til 1. ágúst. Helgi Arnarson, fræðslustjóri, hefur í samráði við Bryndísi Jónu nú ákveðið að framlengja þeirri tímabundnu ráðningu til 1. apríl á næsta skólaári. Staðan verður því ekki auglýst aftur fyrr en á vormánuðum á næsta ári.

Bryndís Jóna lauk námi til B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006. Hún hóf að starfa sem grunnskólakennari í Heiðarskóla í ársbyrjun 2009 og hefur verið í stjórnunarteymi skólans undanfarin sex ár, bæði sem deildarstjóri eldra stigs og aðstoðarskólastjóri.

María Óladóttir mun leysa Bryndísi Jónu af sem aðstoðarskólastjóri. María hefur starfað sem kennari við Heiðarskóla frá árinu 2001 og hefur verið við stjórnunarteymi skólans frá árinu 2017 sem deildarstjóri yngra stigs. 

 
  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan