Alþjóðadagur læsis er í dag 8. september
Alþjóðadagur læsis er í dag 8. september. Sameinuðu þjóðirnar gerðu þann dag að alþjóðadegi læsis árið 1965 í því skyni að vekja athygli á mikilvægi læsis fyrir líf og starf. Góð lestrarfærni er undirstaða ævináms og eitt það mikilvægasta sem einstaklingur þarf að tileinka sér til þess að geta tekið virkan þátt í mannlegu samfélagi.
Við erum alltaf að lesa og krafan um að geta lesið til skilnings minnkar ekki með tilkomu fullkomnari tækni. Skólinn og heimilin gegna ákaflega mikilvægu hlutverki þegar kemur að lestrarfærni barna og unglinga sem þarf að nýtast þeim út ævina. Í skólanum annast kennarar lestrarkennslu og heima fer þjálfunin fram. Hlutverk lestrarþjálfaranna heima fyrir er veigamikið og skiptir sköpum fyrir árangur í lestrarfærni. Það felst í því að hlusta á upplestur barnanna, sýna lestri þeirra og bókum áhuga, vera góðar lestrarfyrirmyndir með því að lesa sjálf, ræða við börn um bækur, lesa fyrir þau og að hvetja þau og styðja í lestrarnáminu.
Bókalestur eykur lesfimi og bætir orðaforða og málskilning. Gildir þá einu hvort börnin lesi sjálf eða hlusti á bókalestur. Upplagt er að nota hljóðbækur í bland, með bókalestri eða í staðinn fyrir hann ef um lestrarörðugleika er að ræða.
Það sama gildir um lestur og íþróttaiðkun, hljóðfæraleik eða hvað það sem við tökum okkur fyrir hendur, að æfingin skapar meistarann.
Góðar bækur má segja að hafi töframátt. Með þeim getum við ferðast í hugarheimi á framandi slóðir. Kvikmyndir, sjónvarpsefni eða myndbönd af netinu færa okkur tilbúið efni sem augu og eyru nema en þegar við lesum góðar bækur má segja að við setjumst í leikstjórasætið. Handritið hefur verið skrifað en svo ráðum við ferðinni. Í hugum okkar lifnar handritið við, heimur verður til sem lítur að miklu leyti út eins og við viljum að hann líti út. Risinn í sögunni verður til að mynda aðeins eins ógurlegur og hugur okkar og hjarta ræður við. Þórarinn Eldjárn lýsir þessum mætti bókanna ágætlega í kvæði sínu:
Bók í hönd – og þér halda engin bönd
Bók í hönd – og þú berst niður á strönd.
Bók í hönd – og þú breytist í önd.
Bók í hönd – og beint út í lönd.
Kennarar, foreldrar, ömmur og afar, lesum fyrir börnin og látum þau lesa fyrir okkur. Upplifum með þeim ævintýrið sem felst í því að ná tökum á lestrinum. Upplifum með þeim ævintýrið sem felst í góðri bók.