29. mars 2019

Afmælisárshátíð í Kardimommubæ

Árshátíð Heiðarskóla fór fram í dag þar sem foreldrar, systkini, afar og ömmur sáu nemendur okkar sýna sínar allra bestu hliðar á sviðinu okkar góða. 

Á þessu 20. afmælisári skólans var útfærsla árshátíðanna með svolítið breyttu sniði. Eins og komið hefur fram var leikrit Thorbjörns Egner um fólk og ræningja í Kardomimmubæ rauði þráðurinn í gegnum árshátíðirnar þrjár. Hugmyndin varð til hjá þeim Guðnýju leiklistarkennara og Mumma tónmenntakennara en þau unnu saman að því að skipta lögum og atriðum niður á árganga í annars vegar 1. - 3. bekk og hins vegar 4. - 7. bekk og settu saman handrit sem gerði atriði hvors aldursstigs að heildarverki. Umsjónarkennarar og Sigrún Gróa forskólakennari settu einnig sitt mark á atriði árganganna með nemendum.

Mikil vinna hefur farið í undirbúning þessa dags. Atriðin voru æfð í leiklistartímum hjá Guðnýju og söngvarnir sungnir í tónmenntatímum hjá Mumma og umsjónarkennurum. Leikmyndin var unnin í leikmyndavali hjá Gróu smíðakennara, búningahönnun í vali hjá Ástu Kristínu auk þess sem Kristín Sesselja og Lilja myndmenntakennarar undirbjuggu og leiddu nemendur í því verkefni að mála afar fallega leikmynd á bogavegginn í salnum. Allir bekkir útbjuggu skreytingar en í gluggum á skólagötu mátti til að mynda sjá litrík pappírshús sem nemendur í 1. - 6. bekk bjuggu til og nemendur í 7. - 10. bekk útbjuggu stóru dúkkulísurnar sem sjá mátti í anddyri skólans og víða í miðju hans. Magga E. og Auður Gunnars, stuðningsfulltrúar, stýrðu skreytingamálum af miklum myndugleik.

Nemendur voru ótvíræðar stjörnur dagsins og sýndu svo vel hvað í þeim býr. Í dag voru unnir litlir sem stórir sigrar í sviðsframkomu og glöggt mátti sjá hversu mikilvæg og góð vinna er unnin í Heiðarskóla í því sambandi. Nemendur í 1. bekk voru að þreyta frumraun sína í sviðsframkomu og stóðu sig ákaflega vel. Nemendur í 2. bekk voru reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í sinni fyrstu árshátíð í fyrra og þannig var það áfram upp aldursþrepin, eftir aldri nemenda mátti sjá hve miklum framförum nemendur taka frá ári til árs.

Síðastir á sviðið stigu nemendur í 8. - 10. bekk sem hafa verið í leiklistarvali og sýndu Kardimommubæinn í heild sinni. Það gerðu þeir með miklum sóma. Þær Guðný og Daníella, íslensku og umsjónarkennari á unglingastigi, leikstýrðu þeim hæfileikaríka hópi sem stóðust allar væntingar og vel það um skemmtilegt og vel útfært árshátíðarleikrit. Mummi spilaði einnig undir hjá þeim en það hefur hann ekki gert áður. Almennar sýningar á verkinu verða auglýstar hér á vefsíðu skólans og er fólk eindregið hvatt til að koma og sjá þessa frábæru uppfærslu á hinu klassíska leikriti.

Á dögum sem þessum fer starfsfólk skólans inn í helgarfríið með gleði og stolt í hjarta. Í Heiðarskóla starfar öflugt starfsfólk og afar hæfileikaríkir nemendur sem saman tekst að töfra fram frábæra skemmtun. Börn og fullorðnir eiga miklar þakkir skilið fyrir undirbúningsvinnu og frábæra frammistöðu í dag. Gestum þökkum við innilega fyrir komuna.

Fleiri myndir má sjá í myndasafni.      

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan