20. mars 2015

Ævintýraleg árshátíð

Árshátíð Heiðarskóla var haldin í dag þar sem allir nemendur skólans fengu tækifæri til að koma fram á sviði. Hátíðin var að venju þrískipt. Fyrst um morguninn héldu 1-.3. bekkir sína árshátíð, þá 4.-7. bekkur og loks 8.-10. bekkur. Í fyrsta skiptið höfðum við sérstakt þema árshátíðarinnar og var það ævintýri. Það átti vel við því í morgun átti sér ævintýralegur sólmyrkvi sér stað og var tímasetningum árshátíðanna breytt örlítið svo að allir nemendur fengju tækifæri til þess að sjá hann, ýmist í skólanum eða heima. Sýnd voru fjölbreytt og virkilega vel útfærð atriði á árshátíðum yngsta- og miðstigs þar sem prinsessur, prinsar, stjúpur, skordýr, strumpar og fleiri ævintýraverur létu ljós sín skína. Nemendur í 8.-10. bekk frumsýndu svo leikritið um Öskubusku en hið klassíska ævintýri hafði verið fært í nútímabúning. Fullur salur jafnaldra og myndarlegur hópur foreldra skemmti sér konunglega á þessari glæsilegu sýningu. Að hátíðunum loknum gæddu árshátíðargestir sér á kræsingum í boði nemenda og foreldra og nutu samverunnar. Nemendur og kennarar eiga hrós skilið fyrir að hafa lagt sig svo vel fram við æfingar undanfarna daga og vikur og fyrir frábæra frammistöðu í dag. Myndir af öllum árshátíðunum má sjá í myndasafni. 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan